29.12.1987
Neðri deild: 39. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3362 í B-deild Alþingistíðinda. (2362)

196. mál, söluskattur

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það hefur verið upplýst úr þessum ræðustól að það hafi verið gert samkomulag um það einhvern tímann í nótt að umræðum um þetta mál, söluskattinn, mundi ljúka kl. 4 í dag. Það hefur líka verið frá því sagt að það hafi verið kallaðir þm. upp úr rúmum sínum kl. 6 í morgun. Ég tek það fram að ég er ekki vanur því að fara af þingfundi fyrr en lýkur og mér var sagt eftir hæstv. forseta að það yrði ekki atkvæðagreiðsla um málið í nótt. Ég vil líka taka fram að ég hef ekki verið spurður um eða rætt um það við mig að þessari umræðu lyki kl. 4.

Ég held að í raun og veru hefði ekki verið vanþörf á að fá afruglara á hæstv. ríkisstjórn eins og staðið er hér að verkum. Það er kominn 29. desember. Það er alveg augljóst að þessum málum lýkur engan veginn fyrir áramót. Nú veit ég að margir landsbyggðarþingmenn vilja komast heim fyrir gamlársdag. Það hefur ekki verið upplýst hvernig eigi að haga hér störfum. Á t.d. að vera þingfundur á morgun eða jafnvel næstu nótt? Hvenær hyggst hæstv. ríkisstjórn kalla saman þing eftir áramót? Ég vil fá svör við þessum spurningum því að ég tel mig ekki bundinn af neinu samkomulagi. Ég er á mælendaskrá og það fer alveg eftir því hver svör verða hvernig ég haga máli mínu þegar kemur að mér á mælendaskránni. Ég óska eftir því að hæstv. forseti athugi þetta mál og ég fái svör áður en ég hef mál mitt á eftir.