29.12.1987
Neðri deild: 39. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3362 í B-deild Alþingistíðinda. (2363)

196. mál, söluskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég vil vegna orðaskipta síðasta ræðumanns og forseta virðulegs upplýsa að það er rétt, sem fram kom, að það var rætt um í nótt að reyna að stuðla að því að þetta mál kæmist til nefndar, 1. umr. lyki og það kæmist til nefndar hér í dag, en að sjálfsögðu er jafnhárrétt að hv. 6. þm. Norðurl. e. var ekki þar á þeim fundi og er að sjálfsögðu jafnóbundinn af því samkomulagi og það væri ekki til. Ég beini þeim tilmælum til virðulegs forseta að hann noti tímann á meðan ég lýk máli mínu, sem verður á næsta korterinu eða svo, að aðhuga með svör við þeim spurningum sem hv. síðasti ræðumaður bar fram þannig að virðulegur forseti geti þá svarað einhverju til þegar ég lýk máli mínu og áður en hv. 6. þm. Norðurl. e. fær aftur orðið.

Ég vil fyrir mitt leyti að sjálfsögðu reyna að stuðla að því að þessi umræða lengist ekki fram yfir þau mörk sem við ræddum um á sínum tíma og get geymt mér ýmislegt af því sem ég vildi gjarnan ræða nú eða a.m.k. verð að ræða einhvern tíma við hæstv. fjmrh. o.fl. um þetta efni. Ég hef, eins og mönnum ber að gera, notað tímann vel, lært heima eins og það hét nú þegar maður var í skóla, og kynnt mér dálítið ýmsar hliðar á beinum sköttum og neyslusköttum bæði heima og erlendis. Ég hef m.a. aflað upplýsinga um hvernig þessum málum er fyrir komið í okkar nágrannalöndum vegna þess að ég tel að sú mynd sem dregin hefur verið upp í rökstuðningi fyrir þessum háu matarsköttum og m.a. sótt eftir rökum til nágrannalandanna sé alls ekki sanngjörn, alls ekki rétt. Ég tel að það sé alveg óhjákvæmilegt áður en afgreiðslu þessara mála lýkur að við eigum ítarlegar umræður um hvert stefnir í skattheimtu af þessu tagi almennt í heiminum. Er það tilfellið að það sé í samræmi við einhverja þróun að við Íslendingar tökum upp 25% flatan neysluskatt á nánast allar vörur og þjónustu í landinu? Svarið er nei. Svarið er einfaldlega nei. Það mundi ganga nánast þvert á þá þróun sem virðist vera að eiga sér stað í okkar nágrannalöndum. Ég tek undir með hv. 5. þm. Vesturl. og þær upplýsingar sem hann var með, m.a. grg. frá forseta Alþýðusambands Íslands sem sá ágæti maður hefur tekið saman um virðisaukaskatt og stöðu þeirra mála í Evrópu, sérstaklega í Efnahagsbandalaginu.

Ég er hér með frv. til laga um virðisaukaskatt sem lagt var fram á síðasta þingi og fór yfir það mál í jólafríinu til að rifja það aðeins upp fyrir mér. Það er í skötulíki þegar maður fer að velta því fyrir sér hverjar upplýsingar hafa síðar komið fram um virðisaukaskattinn og áform Efnahagsbandalagsins um samræmingu í þeirri skattheimtu. Því er t.d. haldið fram í grg. með frv. að það stefni í eina skattprósentu í löndum Efnahagsbandalagsins. Það er beinlínis fullyrt hér. Það eru a.m.k. úreltar upplýsingar svo ekki sé vægara til orða tekið. Þau rök sem notuð voru í málflutningi fyrir frv. til laga um virðisaukaskatt sem kynnt var hér á síðasta þingi eru hvað þetta varðar í öllu falli brostin.

Það segir á bls. 25 í þessu ágæta virðisaukaskattsfrv. frá síðasta þingi, sem var 212. mál 109. löggjafarþings, með leyfi forseta:

„Í mörgum löndum Evrópu eru í gildi fleiri en eitt skatthlutfall eftir því hvaða starfsemi á í hlut og er fjöldi skatthlutfalla og flokkun einstakra tegunda af vörum og þjónustu á þessi skatthlutföll mjög mismunandi eftir löndum. Þó er lægsta hlutfallið undantekningarlaust á matvöru og öðrum nauðsynjavörum.“

Svo kemur: „Undanþágur og mismunandi skatthlutföll eru þó ekki í samræmi við þá hugmynd sem liggur að baki virðisaukaskatti. Auk þess skapar slík mismunun á milli hinna ýmsu tegunda vöru og þjónustu torleyst vandamál við einfalda og réttláta framkvæmd skattheimtunnar. Í Danmörku, Noregi og Svíþjóð hefur því einungis verið notað eitt skatthlutfall og stefna innan Evrópubandalagsins hefur verið sú að samræma reglur aðildarríkjanna þannig að eitt og sama hlutfall gildi um alla starfsemi innan hvers aðildarríkis.“

Þetta er úrelt. Þetta er rangt. Og ég tel nauðsynlegt að menn hafi það í huga þegar þeir ræða um söluskattsinnheimtu á næsta ári sem er boðuð sem aðdragandi að virðisaukaskatti sem taki gildi í upphafi árs 1989.

Svo kemur á bls. 35 í grg. með virðisaukaskattsfrv. frá síðasta þingi alveg dýrðleg setning. Þar segir, með leyfi þínu, herra forseti:

„Hér verður við það miðað“ — þ.e. hér á Íslandi — „að skatthlutfall verði aðeins eitt, sbr. það sem segir um ókosti margra skatthlutfalla hér að framan.“

Sbr. hvað? Hvað segir um ókosti margra skatthlutfalla? Það er ein setning í öllu frv. Það er nú allur rökstuðningurinn gegn því. Þar er það fullyrt að þetta sé vont og því logið eða í besta falli var það með villandi hætti sett inn í þá grg. að stefnt væri að einu skattþrepi í allri Evrópu. Það er rangt. Samkomulag Evrópubandalagsríkjanna frá sl. hausti um að gera alla Evrópu að einum stórum sameiginlegum markaði og samræmingaraðgerðir í skatta- og tollamálum því samfara miða að öðru. Það er niðurstaða Evrópubandalagsins að stefna að tveimur þrepum, virðisaukaskatti á nauðsynjum á bilinu 49%, 4–9%, ég endurtek, herra forseti. Þó eru það tilmæli stjórnar og þings Evrópubandalagsins að reyna að halda sig nær lægri tölunni, vera nær 4% en 9%. Það er nú skattprósentan á nauðsynjarnar eins og hún er fyrirhuguð í Evrópu. Hitt þrepið yrði þá á bilinu 14–19%. Ríki eins og Vestur-Þýskaland, Grikkland og Holland notast við tvær prósentur, Vestur-Þýskaland með lágþrep upp á 7% og almennt þrep upp á 14%, Grikkland með þrep upp á 6% á matvæli og nauðsynjar og almennt þrep upp á 18% og Holland með þrep upp á 6% á nauðsynjarnar og 20% almennt á vörur. Úr því að þetta gengur í þessum löndum, og ég hef ekki heyrt um að menn séu þar að fara á hausinn eða missa ráð og rænu út af því þó þeir hafi ekki eitt hlutfall í virðisaukaskatti, hvaða ástæða er til að ætla að við getum ekki gert það einnig?

Ég held að menn verði að átta sig á því, herra forseti, þvílík stórtíðindi það eru ef það er að gerast á Íslandi í dag að menn festast í neyslusköttum upp á 25% á allar nauðsynjavörur. Hvað þýðir það í raun og veru? Það þýðir í fyrsta lagi algera uppgjöf við að reyna að jafna aðstöðu manna í gegnum þetta óbeina skattakerfi. Og meira en uppgjöf. Það liggur fyrir að þetta hefur ójöfnunaráhrif gagnvart lágtekjufólkinu í för með sér. Þetta þýðir í raun og veru versnandi stöðu þess, veldur vaxandi ójöfnuði og aðstöðumun í landinu. Hvað er orðið um áformin um að afnema tekjuskatt af almennum launatekjum? Hvar eru þau? Hvað gerist í nýja staðgreiðsluskattakerfinu? Skattbyrðin þyngist á öllum almennum launatekjum með þeirri léttingu þó sem verður á allra lægstu launum. Hér eru þeir hlutir að gerast í skattakerfi landsmanna að ég held að það sé ástæða til að menn átti sig á því og menn ræði svolítið hvílíkar gífurlegar skattbyrðar eru hér að færast yfir á herðar hins almenna launamanns. Hvaðan? Auðvitað frá þeim sem betur mega sín, frá peningamönnunum, frá gróðafyrirtækjunum. Um það þarf ekki að deila.

Hér er sem sagt verið að ræða um að taka upp einhverja hæstu skattprósentu í heimi og láta hana ganga út yfir allar nauðsynjar án nokkurra undanþága. Hæstv. fjmrh. hefur það auk þess sem sérstakt keppikefli sitt að afnema á næstu árum allar niðurgreiðslur. Það er margyfirlýst stefna hæstv. fjmrh. og ég held Alþfl. í heild sinni að afnema allar niðurgreiðslur á matvörum og nauðsynjavörum. Hvar standa menn þá eftir örfá ár? Með 22% skatt á alla matvöru og engar niðurgreiðslur, enga aðstoð af því tagi. Það verða slík regintíðindi ef það á yfir okkur að ganga að það er ekki von að það gangi mjög liðugt ofan í kokið á mönnum hér á fáeinum sólarhringum.

Herra forseti. Ég fékk í ræðustólinn smápappír sem var í vélritun fyrir mig. Það eru ummæli hæstv. fjmrh. í kvöldfréttum sjónvarpsins um stöðu mála í þinginu o.fl. Ég hef heyrt þau ummæli í frásögn annarra manna, hef ekki enn náð að lesa þau, en ég ætla að gera það hér, með þínu leyfi, herra forseti, lesa upp þessa hljóðritun úr kvöldfréttum sjónvarpsins, og við skulum svo sjá hvernig þetta hljómar. Ef mér hefur verið rétt frá sagt er ástæða til að eyða þeim fáu mínútum sem ég ætla að taka í viðbót af þessum fundartíma í orðaskipti við hæstv. fjmrh. um þessi ummæli. Ég les með leyfi þínu, herra forseti. Það er spurning fréttamanns:

Er fjmrh. sáttur við fjárlögin eins og þau urðu endanlega afgreidd á Alþingi?

Ég er aldrei fyllilega ánægður, segir hæstv. fjmrh., en ég er ánægður með þá niðurstöðu að markmiðið náðist að tryggja hallalausan ríkisbúskap á næsta ári. Hækkun fjárlaga í meðförum þingsins er helst til mikil. Hún nemur frá því að frv. var lagt fram 3000 milljónum og eitthvað, en þá er líka þess að gæta að 2200 milljónir rúmlega af þessu eru aukin tekjuöflun vegna kerfisbreytingarinnar í heild sem leiðir af tollum, vörugjaldi og söluskatti sem er greitt út jafnóðum í niðurgreiðslur og barnabætur og lífeyrisgreiðslur og endurgreiðslur á neyslufiski. — Já, ekki má nú gleyma því. — Sem dæmi er hækkunin að þessu frátöldu um 1150 millj. kr., þ.e. um 2% frá frv.

Spurning: Er það viðunandi? Svar: Það er miklu minna heldur en hefur verið á undanförnum árum.

Spurning: Nú eru ýmis helstu tekjuöflunarfrv. ríkisstjórnarinnar, tollalög og söluskattur, óafgreidd. Er ekki mikil óvissa um öll ríkisfjármál á næsta ári? Svo er rétt, er svarið. Þessi þrjú mál eru óafgreidd og kvótamálið líka. Það er alveg rétt að menn átti sig á því hvað það þýðir ef þessi frv. ná ekki gildistöku um áramót. Okkur sýnist — og þessir „við“ eru væntanlega hæstv. ríkisstjórn- að það þýði í fyrsta lagi að það eru ekki heimildir til að innheimta nema 24% söluskatt. — Það er alveg ægilegt áhyggjuefni. Söluskattsprósentan verður ekki nema 24%. — Menn geta svo spáð í það hvort neytendur muni njóta þessa 1% einhverja daga eða vikur. Menn geta sett sig í spor matvöruverslana sem þurfa að búa sig undir það að hafa tvenns konar söluskattsprósentu í einum og sama mánuðinum.

Annað: Það falla niður allar heimildir til undanþágu frá söluskatti, t.d. hvað varðar aðföng samkeppnisiðnaðar. — Það er nú eitt. — Og hvað varðar tollafrumvarpið er það stórfelld lækkun. Það er lykilatriði í þeirri lækkun vöruverðs á fjölmörgum vöruflokkum sem eiga að taka gildi eftir áramót og nái það frv. ekki fram að ganga fyrir tilverknað stjórnarandstöðu, — ég endurtek, herra forseti: og nái það frv. ekki fram að ganga fyrir tilverknað stjórnarandstöðu, þá þýðir það ósköp einfaldlega að hér verður ekki verðlækkun eins og til stóð heldur áframhaldandi verðhækkun og með þeim afleiðingum sem það hefur, við skulum segja ekki bara á framfærsluvísitölu heldur lánskjaravísitölu.

Spurning: Eru menn orðnir vondaufir að þessi mál nái fram að ganga fyrir áramót?

Svar: Ég trúi því að sjálfsögðu ekki fyrr en ég tek á því að stjórnarandstaðan vilji með málþófi valda slíkum usla í þjóðfélaginu. Hún er auðvitað í minni hluta hér á þessu þingi. Hún gæti hugsanlega valdið slíku, en þar með væri hún bókstaflega að valda slíku öngþveiti í viðskiptalífi þjóðarinnar og fjölmörgum öðrum lítt bærilegum afleiðingum að ég trúi því ekki þegar menn átta sig á því að það sé vilji stjórnarandstöðunnar.

Herra forseti. Ég verð að segja það, hafandi nú lesið þessi ummæli, vonandi og væntanlega í örugglega hárréttri afritun starfsmanna Alþingis af hljóðböndum frá Ríkisútvarpinu/sjónvarpi, að á sama tíma sat ég á fundi með þessum hæstv. fjmrh. niðri í einu herbergi Alþingishússins þar sem hann var að sjálfsögðu ekkert nema gæðin að fara fram á það við stjórnarandstöðuna að reyna að hafa nú sem best samstarf um hlutina. Þar voru ekki uppi ásakanir um málþóf. Þar voru ekki uppi ásakanir um ábyrgðarleysi eða óeðlilega framgöngu okkar á nokkurn hátt. Ég verð að segja að ef hæstv. fjmrh. dettur í hug að þetta sé aðferðin til að ná einhverju samkomulagi við stjórnarandstöðuna, að ætla að velta yfir á hennar herðar allri ábyrgð af þeirri óráðsíu, skipulagsleysi og ósamkomulagi sem verið hefur í ríkisstjórninni og er orsök þess hvernig málum er komið, þá er mér meira en nóg boðið. Ég tek því ekki þegjandi ef hæstv. fjmrh. ætlar með þessum hætti að hvítþvo sjálfan sig og ríkisstjórnina af allri ábyrgð í þessum efnum og velta henni yfir á stjórnarandstöðuna sem hefur með fullkomlega eðlilegum hætti reynt að starfa, þingræðislega að málunum síðustu daga og vikur. Ég bið þá hæstv. fjmrh. að benda mér á dæmi þess að óeðlilega hafi verið staðið að hlutunum. Eru þetta e.t.v. þakkir hæstv. fjmrh. fyrir að við í stjórnarandstöðunni beittum okkur sérstaklega fyrir því að frv. til l. um tekju- og eignarskatt, sem tengdist staðgreiðslukerfisbreytingunni, næði fram að ganga með alveg sérstöku hraði á dögunum fyrir jól? Var það dæmi um að stjórnarandstaðan hafi sérstakan áhuga á einhverjum skæruhernaði hér í þessum efnum? Það er best að hæstv. fjmrh. svari því þá. Og lítur hann svo á að þegar við hjálpum til við að greiða fyrir slíkum málum sé það allt í lagi, en um leið og við erum ósammála einhverju og notum okkar þingræðislega og lögbundna rétt til að ræða málin og krefjast þess að þau verði skoðuð séum við óhelg, þá sé öll ábyrgð á því sem miður fer í þjóðfélaginu komin yfir á okkar herðar?

Ég held að það sé engin ástæða til þess að taka slíku þegjandi og ég vona að það leyfist mér þó að klukkan sé orðin tvær mínútur yfir fjögur að koma þessum ábendingum á framfæri við hæstv. fjmrh. Ég held að hann ætti að passa á sér munninn, hæstv. ráðherra, ef hann ætlast til þess að það verði samkomulag og samstarf um framgang viðkvæmra, jafnvel deilumála í gegnum þingið á næsta sólarhring. Það er ekki aðferðin að rjúka í sjónvarpið og sitja svo samtímis kannski á fundum með stjórnarandstöðunni ekkert nema blíðan í framan og biðja um gott veður, en ausa svo yfir hana því sem ég get ekki kallað annað, með þínu leyfi, herra forseti, en svívirðingar, bera hana þvílíkum sökum eða gefa í skyn að ábyrgð hennar verði slík á því sem hann líkir eiginlega við óhæfuverk að annað eins er fáheyrt, að valda sem sagt slíku öngþveiti í viðskiptalífinu og lítt bærilegum afleiðingum. Það er ekkert smáræði sem í vændum er. Ef það gerist að söluskattsprósentan lækkar úr 25% í 24% um áramótin og það líða einhverjir dagar þangað til matarskattar hæstv. ráðherra komast á er sem sagt stjórnarandstaðan nánast að leggja þjóðfélagið í rúst. Hæstv. ráðherra verður ekki skilinn öðruvísi.

Ég uni þessu afar illa, herra forseti, og ég held að það sé tvennt til fyrir hæstv. ráðherra, að biðjast formlega afsökunar á þessum ummælum, bera þau þá til baka ef þetta er ekki rétt eftir honum haft eða rétt afritað eða með einhverjum öðrum hætti gera grein fyrir því hvert er viðhorf hans í þessum efnum. Meinti hæstv. ráðherra þetta virkilega? Var honum alvara? Er það hans skoðun að svona verði þetta ef þetta fari ekki í gegn fyrr en um áramót, þá sé bara hægt að velta allri ábyrgðinni af því yfir á herðar stjórnarandstöðunnar eins og hér sé við hana eina að sakast, um hana eina að ræða? Ber hæstv. ríkisstjórn enga ábyrgð? Er það allt á ábyrgð stjórnarandstöðunnar hvernig mál ganga fram í þinginu yfirleitt? Er það kannski stjórnarandstöðunni sérstaklega að kenna að hæstv. ríkisstjórn kom þessum málum ekki frá sér inn í þingið fyrr en eftir 10. desember velflestum? Eigum við kannski að bera ábyrgðina á því líka? Eigum við að bera ábyrgðina á ósamstöðu og rifrildi stjórnarliða dögum og náttum saman?

Ég ætla að leyfa mér, hæstv. fjmrh., að vera innan óvissumarka. Ég tel að plús eða mínus fimm mínútur á samkomulagi um ræðutíma sem átti að vera þrjár klukkustundir hljóti að fyrirgefast. Ég fékk ekki í hendur þetta afrit fyrr en nokkrum mínútum fyrir fjögur og ég tek mér það leyfi, og skal þá taka það á mig að brjóta þetta samkomulag um 3–4 mínútur, vegna þess að ég tel að þessi ummæli eigi erindi inni í umræðunum. Ég held að það sé alveg eins gott að ég noti tækifærið við 1. umr. áður en málið fer til nefndar til að vekja á því athygli og beina því til hæstv. fjmrh. að hann hugsi sinn gang í ljósi þess hvaða ummæli hann hefur haft um stöðu mála hér og látið út ganga til allrar þjóðarinnar gegnum öflugasta fjölmiðil landsins í gærkvöld. Ég held að það sé ástæða til fyrir hæstv. ráðherra.