30.12.1987
Efri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3372 í B-deild Alþingistíðinda. (2369)

54. mál, útflutningsleyfi

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Fjh.- og viðskn. hefur athugað frv. þetta sem er mjög einfalt í sniðum. Á fundi hennar komu Friðrik Pálsson frá Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna, Benedikt Sveinsson frá Sambandi ísl. samvinnufélaga, Einar Benediktsson frá Síldarútvegsnefnd og enn fremur Þórhallur Ásgeirsson, ráðuneytisstjóri viðskrn. Kom m.a. fram í máli þeirra, fulltrúa útflutningsaðila, að samstarf þeirra við viðskrn. hefði verið mjög gott og enn fremur að þeir væntu þess að svo yrði einnig eftir breytinguna hjá þeim sem um það ræddu sem var a.m.k. einn þeirra aðila sem komu til fundar við nefndina.

Frv. þetta er liður í nauðsynlegum breytingum á löggjöf í samræmi við það samkomulag stjórnarflokkanna í viðræðum um stjórnarmyndunina að ný verkaskipting yrði milli viðskrn. og utanrrn. sem í því yrði fólgin að utanríkisviðskiptin yrðu færð frá viðskrn. til utanrrn. en innflutningsverslunin eftir sem áður í höndum viðskrn.

Ég sé ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð. Þessi breyting hefur oft komið til álita. Það hefur oft verið um það rætt að eðlilegt sé að utanríkisviðskiptin væru á hendi utanrrn. og hefur m.a. verið rætt um það í því sambandi að leggja viðskrn. niður. Raunar hefur sú skoðun átt víða fylgi að ráðuneytin séu of mörg og jafnvel of smá og rétt sé að hafa þau færri og þá sterkari. Um þetta má auðvitað flytja langt mál. Ég sé ekki ástæðu til þess, herra forseti, af þessu tilefni, enda er hér aðeins gripið á mjög smáum þætti í starfi heils ráðuneytis þar sem er meðferð útflutningsleyfanna.

Meiri hl. leggur sem sagt til að frv. verði samþykkt óbreytt.