30.12.1987
Efri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3395 í B-deild Alþingistíðinda. (2373)

54. mál, útflutningsleyfi

Sjávarútvegsráðherra (Halldór Ásgrímsson):

Virðulegur forseti. Það var vegna fsp. hv. 7. þm. Reykv. til mín, en hann spurðist fyrir um hvaða ráðstafanir væru fyrirhugaðar af hálfu ríkisstjórnar vegna slæmrar afkomu sjávarútvegsins og þá sérstaklega frystiiðnaðarins. Ég er hv. 7. þm. Reykv. sammála um að afkoma útflutningsatvinnuveganna er mjög slæm og liggur fyrir að hún er miklu verri en séð varð þegar kosningar voru á sl. vori og þegar núverandi ríkisstjórn var mynduð. Þá var ákveðið að fella niður að hluta endurgreiðslur til sjávarútvegsins vegna uppsafnaðs söluskatts og leggja gjöld á sjávarútveginn sem hann hafði ekki borið áður um nokkurt skeið og var samið um við gerð kjarasamninga. Ég er hins vegar þeirrar skoðunar að það sé eðlilegt að sjávarútvegurinn beri sambærileg gjöld og aðrar atvinnugreinar í landinu og það sé ekki til góðs að hann sleppi við þau, sérstaklega þegar vel gengur, því að það hvetur þá fremur til þess að gengi krónunnar sé of hátt skráð og muni valda öðrum atvinnugreinum erfiðleikum. Nú hefur hins vegar orðið hér mikil breyting á vegna kostnaðarhækkana innan lands. Það eru miklar væntingar í þessu þjóðfélagi og mikil þensla á mörgum sviðum bæði hjá hinu opinbera og eins hjá einstaklingum og fyrirtækjum í landinu. Það er mikið fjárfest og virðist ríkja almenn bjartsýni í landinu.

Þetta og margt annað hefur orðið til þess að kostnaðarhækkanir eru svo miklar að ekki verður séð að útflutningsatvinnuvegirnir geti borið þær þegar til lengri tíma er litið, auk þess sem gengi bandaríkjadollars hefur þróast á þann veg að það er mjög alvarlegt fyrir okkur Íslendinga. Það hefur ekki orðið nein niðurstaða um það enn til hvaða ráðstafana skuli gripið, enda er um margslungið mál að ræða sem varðar tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu, væntanlega kjarasamninga og ýmislegt fleira.

Ég hef lagt til í ríkisstjórn og undir það hefur verið tekið þótt það hafi ekki endanlega verið afgreitt að endurgreiddur söluskattur, sem stóð til að yrði frystur í Verðjöfnunarsjóði, yrði endurgreiddur til sjávarútvegsins og ég vænti þess að sú greiðsla geti átt sér stað fljótlega á næsta ári. Auk þess hefur verið um það rætt að hækka þessa greiðslu, en fyrir því er ekki gert ráð í fjárlögum. Þar er gert ráð fyrir um 350 millj. og er ég þeirrar skoðunar að mikilvægt sé að svo verði gert.

Í stuttu máli sagt hafa þessi mál að sjálfsögðu verið rædd í ríkisstjórninni á allmörgum fundum, en endanleg niðurstaða er ekki komin og hefur verið ákveðið að láta það bíða þar til afgreiðslu fjárlaga var lokið. Hins vegar má ljóst vera að hér er um algjört forgangsmál að ræða þegar afgreiðslu fjárlaga hefur verið lokið og þeim tekjuöflunarfrv. sem fjárlögunum fylgja.

Ég vænti þess að þetta svar mitt sé fullnægjandi þó að ekki felist mikið efnislegt svar í því. Ég geri mér grein fyrir því, en ég vænti þess að hv. þm. skilji að frekari upplýsingar get ég ekki gefið á þessu stigi.