30.12.1987
Efri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3397 í B-deild Alþingistíðinda. (2375)

54. mál, útflutningsleyfi

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegur forseti. Að sjálfsögðu var þessi breyting vandlega athuguð af lögfræðingum, sem ég tel ekki ástæðu til að vefengja, og eingöngu gerð eftir að þeirra álit lá fyrir. Ég vek athygli á því að í lögum um Stjórnarráð Íslands gætir þess á nokkrum stöðum, m.a. í sambandi við utanríkisviðskiptin, að þau voru víðar en á einum stað. Það segir í lögum og reglugerð að utanrrn. fari með alla samninga Íslands á erlendum vettvangi. Það eru m.a. samningar við Fríverslunarbandalag Evrópu, samningar við Evrópubandalagið, samningar innan GATT, samningar við Sovétríkin, svo það helsta sé nefnt. Það er einnig alveg ljóst að á síðari árum hefur umfang sendiráðanna á sviði viðskipta mjög aukist og þó það sé hárrétt, sem kom fram hjá hv. þm. Júlíusi Sólnes áðan, að vitanlega hafa bréfaskipti farið fram beint á milli sendiráða og viðskrn., er það hygg ég óvefengjanlegt að sendiráðin heyra undir utanrrn.

Það er mat manna að þáttur utanríkisþjónustunnar í utanríkisviðskiptum hlyti að fara vaxandi vegna þeirrar mikilvægu þróunar sem er bæði austan og vestan Atlantshafs sem ég þarf ekki að rekja hér, fríverslunarsamningur milli Bandaríkjanna og Kanada og sameining Vestur-Evrópu í einn markað. Það orkar í raun tvímælis hvorum megin utanríkisviðskiptin eru meiri, hjá utanrrn. í öllum slíkum samningum eða hjá viðskrn. sem fer ekki með samningsréttinn þótt vitanlega væru allir samningar gerðir í fullu samráði við viðskrn.

Ég vek athygli á að fyrrverandi utanrrh. hafði sett á fót sendiráð í Brussel sem er nánast eingöngu í viðskiptamálum og að sjálfsögðu heyrir það sendiráð undir utanrrn.

Að þessu öllu athuguðu þótti þeim sem leitað var álits hjá að fullu standast í samræmi við anda laganna og þær umræður sem um lögin höfðu farið fram að utanríkisviðskiptin yrðu hjá utanrrn.

Fyrst ég er staðinn upp má vekja athygli á því að svipuð þróun hefur átt sér stað hjá æðimörgum öðrum þjóðum. Norðmenn hafa nú ákveðið að leggja niður viðskrn. og sameina utanríkisviðskiptin og utanrrn. Í Svíþjóð eru þessi tvö mál nátengd í einu ráðuneyti, en að vísu með tveimur ráðherrum. Ég hygg að það muni verða svo einnig í Noregi. Ég hef haft tækifæri til að ræða við ráðherra frá báðum þessum löndum allítarlega um þessi mál og mér sýnast þau rök sem þar eru færð fram eiga að fullu við hér. Þau eru í meginatriðum þau að með þessu móti nýtist utanríkisþjónustan betur í þágu utanríkisviðskipta.

Ég get tekið undir það, sem hv. þm. Júlíus Sólnes sagði áðan, þó hann sé ekki hér staddur, að það má nota utanríkisþjónustuna langtum betur í þágu þessa mikilvæga málaflokks, t.d. ef við hefðum fjármagn til að setja tæknilega viðskiptafulltrúa í sendiráðin. Þetta gera Svíar, enda eru sendiráðin sænsku og utanríkisþjónustan sem slík og viðskiptamálin nánast undir einum hatti, eða a.m.k. í einu ráðuneyti.

Ég vek athygli á því að þegar þessari reglugerð var breytt var það að sjálfsögðu gert í fullu samráði við þá flokka þingsins sem voru að mynda ríkisstjórn, m.ö.o. í fullu samráði við þá sem skipa þann meiri hluta sem er á Alþingi. Út af fyrir sig hefði engu breytt hvort það hefði verið gert að morgni dagsins áður en ríkisstjórnin fer frá, daginn sem ríkisstjórnin fer frá eða morguninn eftir. Það var samkomulag um það með flokkunum að afgreiða þetta mál strax þannig að málið lægi fyrir þegar forsetabréf væru gefin út um verkefnaskiptingu þó út af fyrir sig kæmi það ekki þar fram, en það lægi fyrir einnig gagnvart forseta Íslands.

Ráðgert er að gera ýmsar breytingar á stjórnarráðslögunum. Það kemur einnig fram í samkomulagi stjórnarflokkanna. T.d. er lögð mikil áhersla á að umhverfismálum verði betur fyrir komið og verði a.m.k. samræmd innan eins ráðuneytis. Í stjórnarmyndun var rætt um ýmis önnur mál sem kemur til greina að breyta, eins og frekari breytingar á viðskrn. Jafnvel hefur sú hugmynd komið fram að leggja það niður og stokka ráðuneytin töluvert meira upp.

Hæstv. forsrh. hefur skipað nefnd sem fjallar um þessi mál, sérstaklega um umhverfismálin, og hún hefur ekki lokið störfum. Ég geri fastlega ráð fyrir því að frv. um Stjórnarráðið verði lagt hér fram og þá verður að sjálfsögðu þessi breyting staðfest í því frv. og í þeim lögum sem það væntanlega leiðir til. Hitt er svo annað mál að til að geta hafið þessa mikilvægu starfsemi af fullum krafti, þ.e. utanríkisviðskiptastarfsemina, hefur mér þótt nauðsynlegt sérstaklega að Útflutningsráð færðist undir utanrrn. því að ég geri ráð fyrir að starfsemi þeirrar deildar í ráðuneytinu sem viðskiptadeild er kölluð verði í mjög nánum tengslum við Útflutningsráð. Ég hef mætt á fundum hjá Útflutningsráði, átt margar viðræður við formann þess og framkvæmdastjóra. Það er allt í undirbúningi, en að sjálfsögðu er þeim málum eðlilegar fyrir komið þegar Útflutningsráð hefur flust formlega með lagabreytingu undir utanrrn.

Ég vil taka fram að þessi mál hafa ekki verið á forgangslista hjá ríkisstjórninni. Ég kannast ekki við það. Þetta eru hins vegar einu málin sem liggja fyrir þessari hv. deild og því sjálfsagt að ræða þau og ræða þau eins og mönnum sýnist. Ég hef ekki gert hina minnstu tilraun til að takmarka umræður um þetta mál.