30.12.1987
Efri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3403 í B-deild Alþingistíðinda. (2380)

54. mál, útflutningsleyfi

Utanríkisráðherra (Steingrímur Hermannsson):

Virðulegi forseti. Það er rétt hjá hv. þm. að ég svaraði ekki spurningunni um fordæmin. Ég hef það ekki í kollinum. Það verður að segjast eins og er. Ég er ekkert viss um að reglugerð um Stjórnarráðið hafi verið mjög oft breytt. Ég endurtek það, sem ég sagði áðan, að mér finnst sjálfsagt að skoða öll þessi mál vandlega. Ég hafði gert mér vonir um, af því að þessi mál komu fram mjög snemma á þinginu, að það hefði verið gert. Ég held reyndar að nefndir hafi fjallað um þessi mál og ég taldi ljóst að allt hlyti að vera komið fram sem mikilvægast væri í málunum. En mér finnst sjálfsagt að verða við ósk hv. þm. og ég sætti mig mjög vel við það ef þessi hv. deild vill afgreiða til 3. umr. þau tvö mál, það eru hérna tvö mál sem eru nátengd og við höfum rætt í einu lagi, útflutningsleyfin og útflutningsráð, og taka síðan fund á mánudagsmorgun til að fjalla um þau atriði sem hér hafa enn verið nefnd. Mér finnst sjálfsagt að verða við því. Ég vil hins vegar lýsa því að ég vona þá eindregið að þessi mál verði afgreidd frá deildinni á mánudag, þriðjudag eða svo og sé ekki að það ætti að vera neitt því til fyrirstöðu. Ég fagna því ef það getur verið samkomulag um slíka meðferð þessara mála.