22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 300 í B-deild Alþingistíðinda. (239)

3. mál, bann við geimvopnum

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Ég vænti þess að hæstv. utanrrh. sé enn viðstaddur í þinghúsinu og vildi biðja um að honum yrði gert viðvart. Ég ætlaði aðeins að eiga við hann frekari orðastað.

Á meðan hæstv. ráðherra er gert viðvart vil ég aðeins víkja að því sem kom fram í máli hv. 10. þm. Reykv. Ég lýsi ánægju með undirtektir hans við þessa till. því ég skildi orð hans þannig að hann væri efnislega samþykkur tillögunni og þeirri stefnumótun sem þar kemur fram. Hann hóf mál sitt á þá leið að ef Íslendingar gætu lagt lóð á vogarskálina til að hindra vopnakapphlaupið úti í geimnum bæri þeim að gera það. Það er efni þessa máls sem hér er rætt. Hv. þm. á sæti sem einn af fulltrúum ríkisstjórnarflokkanna í utanrmn. og þess vegna met ég orð hans sérstaklega mikils við þessa umræðu.

Það hefði sannarlega verið æskilegt að einhverjir af talsmönnum annarra flokka sem hér hafa ekki tjáð sig tækju til máls. Þá er ég fyrst og fremst með í huga Sjálfstfl. En formaður utanrmn., fyrrverandi og núverandi, er viðstaddur umræðuna og væri æskilegt og reyndar nauðsynlegt að það kæmi fram af hans hálfu hvort ekki sé um að ræða breytt viðhorf hjá Sjálfstfl. frá því sem var á fyrri þingum til þessa máls í ljósi umræðu um það á alþjóðavettvangi og nýrra upplýsinga. Hið sama gildir að sjálfsögðu um Alþfl. sem ekki vildi á árum fyrr, síðustu þingum, gerast stuðningsmaður þessarar till., hvorki breyttrar né óbreyttrar, a.m.k. gætti þess ekki í utanrmn., og átti hlut að því með öðrum stjórnarflokkum á þeim tíma að svæfa málið í nefndinni tvívegis. Ég sé að hv. þm. Kjartan Jóhannsson kveður sér hljóðs og ánægjulegt að við eigum von á að heyra til hans um þetta efni. En fulltrúi Framsfl. hefur hér tjáð sig um þetta efni og undirtektir hans eru jákvæðar. Ég þakka það.

Það skiptir í rauninni ekki máli hvort menn dæma þessa áætlun um geimvopnin úr leik, áætlun sem gert var ráð fyrir að kostaði sem svaraði 1300 milljörðum íslenskra króna á fjögurra ára tímabili þó að þing Bandaríkjanna sé að halda í við forsetann um fjárveitingar til þessa máls upp á síðkastið. Það skiptir ekki meginmáli hvort menn meta það svo að þetta sé tæknilega óframkvæmanlegt. Það er niðurstaða allra sérfræðinga. En á meðan þessi áætlun er í fullum gangi er þetta hindrun í vegi afvopnunar í heiminum, á meðan það er opinber stefna Bandaríkjastjórnar að knýja þessa áætlun fram og efna til vopnakapphlaups úti í geimnum, og þess vegna þurfum við að tala.

Hæstv. utanrrh. vildi ekki taka undir að þetta væri vitfirringsleg áætlun, en ég fann ekki betur en að efnislega tæki hann undir að þetta væri vitfirring, þ.e. það væri ekkert vit í þessu, sennilega óframkvæmanlegt. Hvað er vitfirring ef ekki það að veita stórfelldum fjármunum ríkis sem er á hausnum með sín ríkisfjármál, milljörðum á milljarða dollara ofan frá ári til árs í slíkt vopnakapphlaup eins og þarna er verið að efna til?

En ég vildi, herra forseti, beina tveimur fsp. til hæstv. utanrrh. sérstaklega vegna þess að hann mælti ekki mjög skýrt í sínu máli áðan. Ég vil spyrja hann um hvort hann sé andvígur þeim hugmyndum sem fyrrverandi utanrrh., Matthías Á. Mathiesen, boðaði í skýrslu sinni til Alþingis 1986 og rakið er í grg. með þessari þáltill. á bls. 3, líklega frá fyrstu greinarskilum að telja eða svo, þar sem er vitnað í skýrsluna frá 1986. Er hæstv. utanrrh. andvígur þeim áformum og því sem þar er gefið undir fótinn og áhuga á því að Ísland verði þátttakandi í geimvopnaáætlun Bandaríkjanna? Í öðru lagi: Er hæstv. utanrrh. sammála eða andvígur túlkun Bandaríkjastjórnar á ABM-samningnum, túlkun sem á að rúma tilraunir með geimvopn úti í geimnum utan við rannsóknastofur? Hver er hans afstaða til þess? Það finnst mér mikilsvert að liggi skýrt fyrir.