30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3406 í B-deild Alþingistíðinda. (2390)

127. mál, framleiðsla og sala á búvörum

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Það hefur verið lítið ráðrúm í hv. deild að líta á þetta mál, en ég hygg að þar séu ýmis álitaefni sem ég vildi nefna við 1. umr. um málið. Þau snerta sérstaklega þann þátt málsins, eins og það liggur fyrir eftir breytingar í hv. Ed., að gert er ráð fyrir skattlagningu á dýrafóður til tekjuöflunar fyrir ríkissjóð. Það kemur í framhaldi af þeirri ákvörðun, sem er til umræðu í hv. deild í sambandi við breytingu á söluskatti, að leggja 25% söluskatt á matvæli. Ég held að það þurfi í nefnd að athuga þetta atriði alveg sérstaklega. En markmið frv. virðist vera að draga úr innflutningi á niðurgreiddu kjarnfóðri og efla notkun íslensks kjarnfóðurs og það er út af fyrir sig markmið sem ég hlýt að taka undir. En hinn þáttinn, sem ég hef nefnt, að nota þetta til tekjuöflunar í ríkissjóð tel ég vera þátt sem þurfi sérstakrar skoðunar við og hef fullan fyrirvara við þann þátt málsins.

Ég vildi að þetta kæmi fram við 1. umr.