30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3412 í B-deild Alþingistíðinda. (2399)

197. mál, vörugjald

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Ég ætla ekki, herra forseti, að lengja þessa þingskapaumræðu. Ég vil þó láta koma fram rækilega að ég tel að það hafi ekkert verið óeðlilegt við vinnubrögð nefndarinnar. Það er mjög mikilvægt að þessi kerfisbreyting taki gildi fyrir áramót. Það er mjög óheppilegt vegna allra aðstæðna í þjóðfélaginu að það dragist og ég tel mjög mikilvægt og það eru áform ríkisstjórnarinnar og stjórnarflokkanna að reyna að vinna að því að þessi þrjú mál verði að lögum fyrir áramót.

Títtnefndum fundi í gærkvöld í fjh.- og viðskn. lauk vegna þess að einn nefndarmaður þurfti að fara af fundinum. Ég var búinn að gera tillögu um að afgreiða tollalög ásamt með vörugjaldi. Það er rétt, sem fram hefur komið, að ágreiningur var innan stjórnarliðsins. Stjórnarandstæðingar vissu af því eða ég vona að þeim hafi ekki dulist að ég var búinn að skrifa nál. Það var búið að ganga á milli nefndarmanna og meirihlutafulltrúarnir allir nema einn búnir að skrifa á það. Þessi ágreiningur leystist hins vegar að fundinum loknum og þá sáum við ekkert óeðlilegt við það að létta á starfsfólki þingsins með því að skila inn nál. þó að hins vegar málið væri ekki afgreitt formlega og bókað út úr nefndinni fyrr en í fundarbyrjun í morgun.

Ég tel sjálfsagt að óska eftir því við forseta að hann taki ekki málið til umræðu fyrr en minnihlutafulltrúanum hefur gefist tækifæri til þess að skila sínu nál., þ.e. um tollafrv. Stjórnarflokkarnir eru búnir að liggja yfir þessum kerfisbreytingum í langan tíma og að því leyti til er búið að vinna mikið í þessu máli. Fjh.- og viðskn. Nd. hefur unnið í þessum málum sameiginlega í líklega samtals 6–8 klst. á þremur löngum fundum og ég tel að þessi vinnubrögð séu alveg viðunandi. (SJS: Til sóma?) Já, til sóma.

Við skilum við a.m.k. tvö þeirra ítarlegum brtt. og höfum lagfært ágalla sem á þeim voru. Nál. eru að sjálfsögðu útbúin af þeim sem ábyrgð bera á þeim og að þeim standa og ég er ekkert að kássast í því hvernig minni hl. útbýr sín nál. fremur en að ég tel ástæðu til þess að minni hl. sé viðlátinn þegar við meirihlutamenn erum að semja okkar nál.