22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 301 í B-deild Alþingistíðinda. (240)

3. mál, bann við geimvopnum

Eyjólfur Konráð Jónsson:

Forseti. Ég skal gjarnan verða við þeirri áskorun að segja örfá orð um þessa þáltill. Ég mun ekki fara mjög langt út í að ræða hana efnislega. Hún kemur væntanlega til utanrmn. og þar verður hún að sjálfsögðu rædd.

Ég hygg að það sé rétt, sem hæstv. utanrrh. sagði nýlega opinberlega, að það kynni að vera heppilegt að við færum okkur hægt í umræðum á næstu vikum, kannski mánuðum, og um nánustu framtíð um viðkvæmustu mál veraldarinnar og ræddum þau yfirvegað og án allra öfga. Hvort um vitfirringu er að ræða eða vitfirringu ekki varðandi geimvopn má auðvitað nota það orð nákvæmlega eins um kjarnorkuvopnin. Við vitum að við erum á miklum og hættulegum brautum, en við vitum jafnframt að það eru öfl í heiminum að reyna að komast eitthvað áleiðis og þau eigum við að styrkja, en ekki trufla a.m.k., í neinni viðleitni. Þar með er ég ekki að segja að ég sé fylgjandi geimvopnum. Öðru nær. Ég er yfirleitt ekki fylgjandi vopnum. En við þurfum að ræða þetta í samhengi við aðrar till. sem eru komnar til nefndarinnar eða á leiðinni þangað og ég vek á því athygli að það var enginn smáatburður þegar það tókst í Alþingi Íslendinga 23. maí 1985 að sameina allan þingheim um einhverja merkustu till., ég vil segja það, einhverja merkustu till. sem í þjóðþingum Vesturlanda hefur verið samþykkt um öll þessi málefni og með öllum atkvæðum viðstaddra hv. alþm. Það voru stór tíðindi. Það gerðist ekki með því að við værum að rífast hér í þingsölunum eða brigsla hvert öðru um óþjóðhollustu eða einhverjir væru að dá vígbúnað og héldu með þessum eða hinum. Það gerðist allt saman fyrir luktum dyrum og í viðræðum sem stóðu mánuðum saman og allir lögðu sig fram um að ná þar samkomulagi.

Ég er að gera mér vonir um að eitthvað svipað geti gerst aftur ef menn þá telja ástæðu til að við ályktum yfirleitt um eitthvað í þessu efni á næstu vikum og mánuðum. Það verður að meta með hliðsjón af t.d. þeim viðræðum sem fara fram þessa dagana á milli utanrrh. risaveldanna. Ég tel þess vegna að a.m.k. ég, í þeirri stöðu sem ég er sem formaður þessarar nefndar, eigi ekki að fara lengra út í málefnalega umræðu á þessu stigi. Auðvitað er ég reiðubúinn að gera það síðar ef það er nauðsynlegt eða menn telja það eðlilegt, en núna hygg ég að við eigum að fylgja þeirri meginreglu að fara nokkuð með löndum í umræðunni. Það sagði einhver einhvern tímann: Nu gælder at holde sammen. Og þá var svarað: Nu gælder at holde sig sammen. Ég held að við eigum að stilla orðum okkar í hóf í þessum viðkvæmustu málum veraldarsögunnar vil ég segja núna alveg á næstunni og íhuga heldur og ræða í okkar hóp fyrir luktum dyrum um þessi málefni alveg eins og hæstv. utanrrh. vakti athygli á nýlega.