30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3416 í B-deild Alþingistíðinda. (2402)

197. mál, vörugjald

Forseti (Jón Kristjánsson):

Varðandi vinnubrögð þingsins í dag héldum við forsetar fund með formönnum þingflokka stjórnarandstöðunnar í gær og formönnum allra þingflokka reyndar og kynntum þeim þau áform sem eru um starf í dag. Þau áform voru að halda morgunfund, byrja hann kl. 11, og sá fundur stendur nú yfir, gera síðan hlé til kl. hálfþrjú, byrja þá fund aftur og taka þau mál þá sem tilbúin eru. Að sjálfsögðu verða þau mál tekin fyrir með venjulegum hætti, að leitað verður eftir afbrigðum um það hvort þau megi koma fyrir á dagskrá eins og hér hefur ávallt verið. Síðan var ætlunin að halda fund með formönnum þingflokka um fjögurleytið í dag og sjá hvernig mál ganga fram og ræðast við um framhaldið. Þetta var sú ætlun sem var kynnt í gær um mál hér. Á fundinum kl. fjögur mundi þá væntanlega koma fram hvenær útlit væri fyrir að málum ljúki því að þá sjáum við hvernig umræðum miðar.

Ég hef áður sagt það við þessa þingskapaumræðu og það hefur komið fram hjá nefndarmönnum í fjh.og viðskn. að það er ekki ágreiningur um meðferð fjh.- og viðskn. á fyrsta dagskrármálinu þannig að ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það geti komið til umræðu á þessum fundi og það sé hægt að mæla þar fyrir nál. og taka umræðu um það eftir því hverjir til máls vilja taka. Síðan, þegar hlé verður gert, munum við þingforsetar að sjálfsögðu ræða vinnubrögð fjh.- og viðskn. og ræða framhald mála í samræmi við þær upplýsingar sem fram hafa komið hér. Ég vænti þess að fundur geti haldið áfram og umræða um 1. dagskrármálið, sem ekki hefur verið ágreiningur um hér, geti haldið áfram með eðlilegum hætti.