30.12.1987
Neðri deild: 40. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3420 í B-deild Alþingistíðinda. (2407)

197. mál, vörugjald

Hjörleifur Guttormsson:

Herra forseti. Ég tek undir orð hv. síðasta ræðumanns. Ég vek athygli hv. forseta á því að hv. 6. þm. Norðurl. e. er ekki aðeins með 20 ára þingreynslu að baki og vel það heldur einnig aldursforseti þingsins og við höfum setið undir hans forsæti í þessari hv. þingdeild sem slíks oftar en einu sinni.

Ég heyrði það af vörum virðulegs forseta að hann teldi að þingsköp hefðu verið haldin hingað til í umræðu og í starfsháttum. Ég spyr virðulegan forseta að því og óska eftir því að um það verði fjallað af forsetum þingsins, hæstv. forseta sameinaðs þings einnig og hv. forseta Ed. einnig, hvort það sé í samræmi við þingsköp og hefðir að hér komi fram prentuð nál. eins og á þskj. 446 frá meiri hl. fjh.- og viðskn. varðandi breytingar á tollalögum ásamt brtt. á þskj. 447 án þess að búið sé að ljúka umfjöllun um málin í nefnd og án þess að búið sé að ljúka nefndarstörfum varðandi viðkomandi þingmál. Þetta tel ég að sé í rauninni kjarnaatriði í sambandi við það sem við erum að ræða í sambandi við þingsköp.

Það liggur fyrir, virðulegur forseti, að við í stjórnarandstöðu erum andstæð mörgum þáttum í þeim frv. sem hér eru á dagskrá og fyrirhugað er að taka á dagskrá fyrir áramót, matarskatti og fleiri atriðum. En það er ekki kjarninn í þessari umræðu. Það er mál út af fyrir sig sem við ræðum þegar þau mál koma til umræðu, okkar viðhorf til þeirra. Kjarninn í þeirri umræðu sem hér fer fram er spurningin um þingræðið í landinu. Það er spurningin um hvort minni hl. á Alþingi á að hafa sinn rétt í sambandi við störf þingsins, hvort meiri hl. á að líðast að fara offari með þeim hætti sem hér hefur verið lýst og viðurkennt af hv. 1. þm. Norðurl. v., hvort stjórnarmeirihluti á Alþingi á að geta hagað störfum sínum að geðþótta gegn lögum, reglum og hefðum varðandi störf þingsins. Þetta er spurningin um hvort þingræðið á Íslandi verður í heiðri haft eða ekki. Ég óska eftir því, virðulegur forseti, að forsetar þingsins, forusta þingsins hittist nú þegar til að ræða um þau efni sem hér hafa verið til umræðu og deilt hefur verið á í sambandi við störf viðkomandi þingnefndar sem hér hafa verið rædd í tengslum við þingsköp Alþingis.

Ég heyrði ekki að virðulegur forseti gæfi neitt til kynna áðan sem svar við minni spurningu um hvernig fyrirhugað sé að ljúka störfum þingdeildarinnar í dag, hvernig og hvenær hann hefur hugsað sér að ljúka störfum þingdeildarinnar í dag og fyrir áramótin. Við höfum hér fyrir okkur dagskrá um fund í virðulegri þingdeild, en við höfum einnig dagskrá sem gefur til kynna 39. fund í Sþ. að loknum fundum í deildum og ég er að biðja um upplýsingar um hvenær virðulegur forseti ætlar að ljúka störfum þingdeildarinnar fyrir áramót og hvaða tíma ætlar Sþ. sér til umræðu samkvæmt boðaðri dagskrá. Þetta hlýtur að liggja fyrir. Maður skyldi ætla að þetta liggi fyrir áður en gengið er frá þessum málum til dagskrár. Ég tel mig eiga kröfu á því að fá um það upplýsingar hér og nú frá virðulegum forseta og forustu þingsins, áður en umræða er upp tekin, hvenær ákveðið er að ljúka störfum þingsins fyrir áramót þannig að þm. gefist kostur á að halda til síns heima með lágmarksfresti þó, sem þegar er orðinn, því auðvitað ættum við í rauninni að vera með þingfrían dag í dag til þess að mönnum gæfist kostur á að ferðast til sinna heimkynna og heimila til að kveðja gamalt ár og fagna nýju. Þess vegna geng ég eftir svari frá virðulegum forseta um hvort treysta megi því að fundum ljúki í hv. þingdeild t.d. um kvöldmatarleytið eða hvenær á þessum degi þannig að við vitum að hverju við göngum að þessu leyti. Við eigum á því heimtingu.