22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 303 í B-deild Alþingistíðinda. (243)

3. mál, bann við geimvopnum

Flm. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það skal verða stutt sem ég flyt hér, enda hef ég beðið í þriðja sinn um orðið. Ég vek athygli á því vegna þess sem hér kom fram hjá hæstv. utanrrh. um mat hans á afstöðu forvera síns í starfi að í skýrslu hans til Alþingis sagði 1986:

„Geri Bandaríkjamenn öðrum þjóðum kleift að taka þátt í áætluninni [þ.e. geimvopnaáætluninni] er ljóst að Íslendingar geta ekki síður en aðrir notið góðs af samvinnunni.“

Í umræðum um þetta mál kom fram að hæstv. ráðherra átti við beina samvinnu eða hliðstæða samvinnu og Vestur-Þjóðverjar og Japanar hafa átt samningsbundið við Bandaríkjastjórn um þessa stjörnustríðsáætlun þannig að það er ekki að ástæðulausu að ég spurði, en það liggur fyrir að hæstv. ráðherra hefur lýst annarri skoðun hér. Hann er andsnúinn þátttöku Íslands í þessari stjörnustríðsáætlun Bandaríkjamanna og það er ánægjuleg stefnubreyting.

Hv. þm. Eyjólfur Konráð Jónsson, formaður utanrmn., vill að menn ræði sem minnst um afvopnunarmál í Sþ. Það fari best á því að þau séu rædd fyrir luktum dyrum. Menn eiga að vara sig á því, menn eiga að fara sér hægt í þessum efnum, menn eiga að „holde sig sammen“ og ræða um þessi efni fyrir luktum dyrum. Ég vek alveg sérstaka athygli á þessum ummælum þm. Þetta endurspeglar nefnilega stöðu Sjálfstfl. til þessara mála. Þeir vilja halda þessum málum alveg fyrir sig. En staða þeirra er nú breytt að því er varðar tök á utanríkismálum Íslendinga. Þeir eru ekki lengur húsbóndinn í utanrrn. Við hljótum að lýsa ánægju yfir því að það hefur orðið ánægjuleg viðhorfsbreyting í mörgum efnum hjá þeim sem við tók sem húsbóndi þar. Ég hlýt að fagna því alveg sérstaklega svo langt sem það nær. Það var hins vegar ekki eins afdráttarlaust og ég vænti varðandi ABM-samninginn nú þegar hæstv. ráðherra svaraði. Hann hafnaði ekki túlkun Reagans afdráttarlaust. Hann vék sér undan að svara beint og vísaði til þess að hugsanlegt væri að risaveldin næðu saman um þetta efni sín á milli. Það er ekki afstaða út af fyrir sig til þessa máls.

Auðvitað ölum við þá von í brjósti að það verði samkomulag milli risaveldanna í þessum efnum sem öðrum, en Reagan-stjórnin er bara með allt aðra túlkun. Sovétríkin hafa boðið ítrekað að það sé þeim nægjanlegt að Bandaríkjastjórn lýsi því yfir að ABM-samningurinn samkvæmt upphaflegu samkomulagi og þeirri túlkun sem í gildi var sé staðfestur sem slíkur, sú túlkun hans sé staðfest sem slík af Bandaríkjastjórn. Það geti fullnægt þeim að því er snertir stjörnustríðsáformin vegna þess að þessi samningur er hindrun í vegi þess að færa vopnakapphlaupið og tilraunir með geimvopn út í himingeiminn. Það liggur fyrir að Sovétstjórnin lítur á það sem fullnægjandi og hefur nú síðast talið að yfirlýsing um tíu ára tímabil varðandi gildi ABM-samningsins óbreytts sé henni fullnægjandi í þessum efnum.

Herra forseti. Þetta vildi ég að kæmi fram við lok þessarar umræðu. — Virðulegur forseti. Ég bið ítrekað afsökunar á því að taka ekki tillit til þeirra ánægjulegu breytinga sem hafa orðið á vegum sumra flokka að því er snertir embætti þingsins.