30.12.1987
Neðri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3466 í B-deild Alþingistíðinda. (2437)

196. mál, söluskattur

Forseti (Jón Kristjánsson):

Ég vil taka það fram að forseti ber mikið traust til dómgreindar hv. deildarmanna, telur reyndar alveg útilokað að rugla þá þó að það væri reynt. Ég ber enn þá meira traust til minnis hv. 2. þm. Vestf. og tel honum ekki verða skotaskuld úr því að muna hinar lengstu ræður þó að það dragist fram yfir kvöldmatarhlé að þessari umræðu verði haldið áfram. En þessi umræða var upp tekin til þess að nýta þann takmarkaða tíma sem við höfum vegna þess að ég féllst á tilmæli hv. 5. þm. Vesturl. um að gera hlé þangað til þeir þm. væru gengnir í salinn sem hann vildi eiga orðastað við. (AG: Er búið að takmarka tímann?) Það hefur að engu leyti verið takmarkaður tími þannig að umræðum verður nú haldið áfram um 1. dagskrármálið.