30.12.1987
Neðri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3471 í B-deild Alþingistíðinda. (2443)

197. mál, vörugjald

Óli Þ. Guðbjartsson:

Hæstv. forseti. Meðan hv. 2. þm. Austurl. er að búa sig þeim gögnum sem hann þarf að hafa með sér í ræðustólinn vildi ég aðeins af því tilefni sem hér gefst rétt minna á að ég er í hópi þeirra þm. sem leyfðu sér fyrr við umræður um vörugjald í dag að bera fram ákveðnar, þær voru að vísu ekki margar, fsp. til formanns hv. fjh.- og viðskn. og eða hæstv. ráðherra. Þær fsp. voru fyrst og fremst um 5. gr. þessa lagafrv. Efnislega var ein þeirra mjög svipuð þeirri sem hv. 6. þm. Norðurl. e. hafði lagt fram. Það hefur ekki komið fram eitt einasta atriði í svari, hvorki frá þessum hv. aðilum né nokkrum öðrum stjórnarsinna, í allan dag. Ég hef verið viðstaddur umræðurnar alveg frá byrjun. Ég er að vísu ekki aldinn í þingstörfum, en ég hef reynslu af einu stigi stjórnskipunar, þ.e. sveitarstjórnarlögum, verið þar hartnær fjórðung aldar, og framkoma af þessu tagi þætti ekki burðug á þeim bæ. Þess vegna vil ég ákveðið ítreka það sem ég fyrr af fullri einlægni lagði hér fram. Þetta var annars vegar um störf viðkomandi nefndar, hins vegar um ákveðin efnisatriði og viðhorf og vinnubrögð. Af því tilefni sem hv. 2. þm. Austurl. gaf hér fyrr vildi ég ekki láta hjá líða að það kæmi þó fram að ég á þar líka hlut að máli og er ekki einn um það.