30.12.1987
Neðri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3472 í B-deild Alþingistíðinda. (2445)

197. mál, vörugjald

Hjörleifur Guttormsson:

Virðulegur forseti. Það var raunar fleira sem ég beindi til hv. 1. þm. Norðurl. v., en þetta eitt, hvort um óbreytt ákvæði væri að ræða. Ég vakti athygli á að í athugasemdum við þessa grein er tekið þannig til orða að ég skil að um breytingu sé að ræða þó hér sé staðhæft að greinin sé óbreytt. Ég hef ekki haft tíma til að kanna gildandi lög um vörugjald, en ég bendi á að í athugasemdum við greinina stendur eftirfarandi:

„Grein þessi er efnislega samhljóða ákvæðum gildandi laga um vörugjöld. Í greininni er þó lagt til að ráðherra verði veitt heimild til að leiðrétta ósamræmi sem kann að vera í skattlagningu samkvæmt frv.“

Er hv. 1. þm. Norðurl. v. viss um að það standist sem hann fullyrti hér í ljósi þeirrar athugasemdar sem fylgir greininni?

Ég vakti athygli á að með 11. gr., og bið hv. þingdeildarmenn að gefa því gaum, er verið að veita ekki aðeins hæstv. fjmrh. heimild til reglugerðar heldur stendur þar líka, með leyfi virðulegs forseta:

„Ráðherra er heimilt að undanþiggja einstaka vöruflokka gjaldskyldu skv. 3. gr. eða bæta við upptalningu í 3. gr. einstökum vörum eða tollskrárnúmerum til þess að samræmis gæti í skattlagningu sams konar eða hliðstæðra vara.“

Samkvæmt þessu virðist vera hægt að kippa út úr 3. gr. heilum flokkum, sem þar eru tilteknir aðeins með tölustöfum, fella niður eða bæta við. Þetta tel ég óeðlilega og allt of rúma heimild og ég gekk eftir því við hæstv. fjmrh. að hann greindi frá því hvernig á því stæði. Ég vænti þess að hann heyri mál mitt og verði kallaður í þingsal, sá hæstv. ráðherra, fjmrh., og hann greini frá því hvort það sé vegna þess hversu snöggsoðið þetta frv. er af hálfu ríkisstjórnarinnar að óskað er eftir heimild af þessu tagi. Ég hefði talið nauðsynlegt af hálfu nefndarinnar að hún færi yfir það hvað gæti þarna helst verið um að ræða. Það er ekkert smáræði sem verið er að fjalla um þarna. Það er hægt bara að kippa út heilu liðunum, breyta og auka við, fella niður. Þetta er ekki sómasamleg lagasetning eins og mér sýnist þetta mál liggja þó ég verði að viðurkenna að ég hef ekki haft aðstæður til að sökkva mér niður í það eins og vert væri, hvað þá að kanna þá vöruflokka sem liggja að baki þeim talnaröðum sem lesa má og sjá í 3. gr. frv. Ég vænti þess að hæstv. fjmrh. láti til sín heyra um þetta efni, ef ekki við 2. umr. þá í síðasta lagi við 3. umr., og í millitíðinni verði kannað hvort hér sé um breytingu að ræða eða ekki, hvort staðhæfing hv. 1. þm. Norðurl. v. er rétt eða ekki og hvers vegna er þá tekið til orða svona í athugasemdum við frv.