30.12.1987
Neðri deild: 41. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3473 í B-deild Alþingistíðinda. (2446)

197. mál, vörugjald

Albert Guðmundsson:

Herra forseti. Ég held að við í minni hlutanum ættum að þakka meiri hlutanum, þakka ríkisstjórninni fyrir þá tillitssemi sem hún sýnir okkur minni hlutanum að hafa hugsað sér að gefa matarhlé innan tíðar. (Forseti: Ég vil benda hv. 5. þm. Reykv. á að þakka þingforseta fyrir matarhléið. Það er ekki ríkisstjórnin sem hefur ákveðið hlé. Það er á ábyrgð forseta.) Já, ég segi: Eins og guð gaf og ríkisstjórnin tók. Ég tek það aftur. Ég hélt að ríkisstjórnin væri með í þessu samkomulagi um fundarhald, en það hlaut að vera að eitthvað gott kæmi annars staðar frá. En ég þakka a.m.k. hvað mig snertir virðulegum forseta fyrir væntanlegt matarhlé.

Það var skrýtið fyrir mann sem hafði hugsað sér að gera innflutning að ævistarfi að hlusta á hv. 1. þm. Norðurl. v. koma með skýringar sem snerta þá atvinnugrein sem tilheyrir innflutningi og vitna í fagmann, viðskrh. sjálfan, sem hefur verið ráðgefandi fyrir ríkisstjórnir um efnahagsmál. Innflutningur er gríðarlega stór liður.

Ég skildi hann ekki. Ég hreinlega skildi ekki hvað hann var að fara. Fyrst tekur hann fram að umræður hafi verið óþarflega ítarlegar. Ég hélt að engar umræður um nokkurt mál á Alþingi Íslendinga væru óþarflega ítarlegar. En það getur verið að ég hafi þar rangt fyrir mér.

Hann talar um, ef ég skildi hann rétt, ég verð að segja alveg eins og er að ég er ekki viss um að ég hafi skilið hann, að 25% heildsöluálagning, sem er bætt inn í álagningarstofn á vörugjaldinu, sé til þess að það sé ekki minni álagning á erlendum en innlendum vörum og þetta sé einhver skylda til að jafna á milli EFTA og innlendra tolla. — Nú er það ekki ég sem tef fundinn, hæstv. forseti. Ég hafði hugsað mér að reyna að tala stutt. En það er líklega síminn einu sinni enn. Ég verð líklega bara að bíða. (Forseti: Þar sem kl. er nú 5 mínútur yfir 7 vil ég gefa hv. ræðumanni kost á að halda máli sínu áfram eftir kvöldmatarhlé.) Virðulegur forseti. Má ég svara forseta strax? Ef forseti óskar eftir því að ég tali stutt ráðlegg ég forseta að ... (Forseti: Það var ekki óskað eftir því sérstaklega og hv. ræðumanni voru ekki settar neinar skorður um ræðulengd. Ég innti hann eftir því hvort ræða hans mundi verða löng því ef hún hefði verið það hefði ég gefið kvöldmatarhlé fyrst. Ég ætla mér að gefa hlé núna. Ef hv. ræðumaður lýkur ekki máli sínu fer ég þess á leit við hann að hann haldi áfram eftir kvöldmatarhlé.) Já, hæstv. forseti, og ég segi forseta fyrir fram að sú ræða verður miklu lengri en sú sem ég hefði flutt ef ég hefði klárað hana núna.