30.12.1987
Neðri deild: 42. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3502 í B-deild Alþingistíðinda. (2461)

197. mál, vörugjald

Ingi Björn Albertsson:

Herra forseti. Ég skal ekki tefja umræðuna neitt. Ég vil aðeins ítreka þær spurningar sem ég hef margsinnis lagt fyrir hæstv. fjmrh. hvað varðar vörugjaldið. Ég spurði hann meðal annars hvernig ætti að reikna þetta út í tolli. Hvort það ætti að reikna þetta sem 14% og síðan 25% aukalega ofan á það eða hvort það ætti að reikna beint 17,5% og ef svo væri hví væri þá vörugjaldið ekki nefnt réttu nafni, 17,5% í staðinn fyrir 14%. Ég spurði líka um hvort ekki hefði verið athugað hvort fella mætti algerlega út vörugjald til einföldunar og ná þeim tekjum inn í staðinn með beinni tollun. Við hv. þm. Óli Þ. Guðbjartsson vorum einnig með spurningar um fob-tollun, hvort hún hefði verið skoðuð og hvort hún komi til greina. Og í síðasta lagi spurði ég hann um hvað heildsöluálagið gerði í tekjum fyrir ríkissjóð. Ég fékk það svar frá hv. formanni fjh.- og viðskn. að þetta væri líklegast um 25 millj. kr. Ég leyfi mér að efast um það og vil benda á að ef flett er upp í söluskattsfrv., sem liggur hér frammi, er þar á bls. 7 gert ráð fyrir að tekjur af nýju vörugjaldi nemi 1600 millj., en þar er einungis reiknað með 14%. Engu að síður er það viðurkennd staðreynd að vörugjaldið í dag er 17,5%. Ég vil fá skýringu á því hvers vegna er þarna reiknað með 14%. Ef við hins vegar reiknum þetta aftur upp og reiknum með 17,5% hækkar þessi liður um 395 millj.

Ég vildi gjarnan fá svör við þessu, herra forseti. Ég skal ekki tefja þessa umræðu lengur.