04.01.1988
Neðri deild: 45. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3527 í B-deild Alþingistíðinda. (2503)

196. mál, söluskattur

Kristín Halldórsdóttir:

Herra forseti. Við höfum nú fengið örfáa daga til þess að gaumgæfa það mál sem hér er til 3. umr. og væri óskandi að hæstv. ráðherra og samráðherrar hans og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hér á þinginu hefðu notað þann tíma vel og gert sér grein fyrir afleiðingunum ef þetta frv. verður samþykkt óbreytt. Afleiðingarnar verða ekki aðeins stórfelldar álögur á heimilin og þá fyrst og fremst á lágtekjuheimilin, heldur er með frv. verið að blása í glæður verðbólgubálsins og storka samtökum launafólks.

Hæstv. ráðherrar og stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar hljóta að hafa tekið eftir viðbrögðum fulltrúa launafólks og það væri ákaflega heimskulegt að láta þau sem vind um eyru þjóta. Fulltrúar stjórnarandstöðunnar létu kalla ýmsa aðila á fund fjh.- og viðskn. Nd. til viðræðna um þetta mál og önnur því tengd sem eru reyndar þegar orðin að lögum, forustumenn stærstu samtaka launafólks í landinu, Alþýðusambands Íslands og Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, sömuleiðis fulltrúa Neytendasamtakanna og Manneldisfélags Íslands. Það hefði vitanlega verið æskilegt að fá miklu fleiri fulltrúa neytenda og þolenda, svo sem hinna ýmsu félaga húsmæðra, náttúrulækningafélaga, Kvenfélagasambandsins o.fl. o.fl., barnaverndarráðs, svo að eitthvað sé nefnt, svo og margra stéttarfélaga úr lægstu tekjuhópunum. Til þess gafst ekki tími enda Kleppur-hraðferð sú eina leið sem þetta frv. hefur fengið í gegnum þingið.

Viðhorf þessara aðila, sem við þó fengum að ræða við skamma stund, eru öll á einn veg. Með hinum illræmda matarskatti er verið að veikja stöðu þeirra sem ævinlega fá minnstu bitana af nægtaborði þjóðfélagsins. Það er verið að þyngja byrðar þeirra sem eyða mestum hluta tekna sinna í nauðþurftir og, það sem hæstv. ráðherrar ættu þó að skilja og hafa áhyggjur af, þessar aðgerðir auka þungann í kröfugerð í komandi samningum. Það kom svo auðvitað í ljós, sem bersýnilegt var reyndar fyrir, að engir fulltrúar neytenda eða þolenda komu nærri þegar lögð voru á ráðin um þessa breikkun söluskattsstofnsins sem um ræðir í þessu frv.

Það er vissulega athyglisvert að lesa frásögn Morgunblaðsins af þeirri atburðarás allri eins og hún birtist í blaðinu 10. desember sl. undir fyrirsögninni „Erfið fæðing en efnilegt barn.“ Í þessa frásögn hefur nú verið rækilega vitnað fyrr í þessum umræðum og þeirri frásögn hefur ekki verið mótmælt, mér vitanlega, en þar kemur fram hverjir eru hugmyndasmiðir og guðfeður hins þríhöfða þurs sem við höfum verið að kljást við þessar vikurnar.

Þar kemur það m.a. fram að upphaflega mun hæstv. fjmrh. hafa ætlað sér að lækka söluskattsprósentuna niður í 22% og hefur þá væntanlega talið það í samræmi við margendurteknar nokkuð stórkarlalegar yfirlýsingar um nauðsyn þess að stórlækka söluskattsprósentuna um leið og stofninn yrði breikkaður. Nú verður það að játast að engan sótti ég af hinum 100 fundum hæstv. ráðherra fyrir tveimur árum þegar hann fór um landið sem nýorðinn formaður Alþfl. og spurði hver ætti þetta land og ég hef heldur ekki stundað grúsk í Alþingistíðindum, en mér er til efs að hann hafi nokkurn tíma gefið nokkrum áheyrenda sinna í þann tíma ástæðu til að ætla það að boðuð stórlækkun söluskattsprósentu þýddi lækkun hennar úr 25 í 22%, hvað þá að hún mundi nú standa í stað þegar allt kæmi til alls, og hvað þá að nokkrum dytti í hug að svo mundi fara fyrir hinum orðsnjalla og vopnfima formanni jafnaðarmanna vinstra megin við miðju, formanni Alþýðuflokksins, sem sýnist nú sækja fróðleik í Vikuna ef ég sé rétt — hann er sennilega að lesa völvuspána og tekur kannski meira mark á henni en orðum ýmissa annarra — þegar hann yrði hæstv. ráðherra að hann mundi sitja í þingsölum og lesa völvuspá vikunnar eftir að hafa knékropið fyrir fulltrúum Félags ísl. iðnrekenda, Verslunarráðsins og Félags ísl. stórkaupmanna og hlýða hverri bendingu þeirra en láta undir höfuð leggjast að ráðfæra sig við fulltrúa launafólks í landinu. En heimur versnandi fer og allt er nú þetta komið á daginn.

Það er vafalaust borin von að hæstv. ráðherra hafi séð tíma til þess frá önnum áramótanna að ræða við fulltrúa launafólks og gaumgæfa þær afleiðingar sem allt þetta ráðabrugg hefur á afkomu fólks og þróun launa og efnahagsmála almennt. Það verður a.m.k. ekki séð né heyrt af yfirlýsingum embættismanna í ráðuneyti hans sem hafa tíundað það í fjölmiðlum hvaða áhrif þessi frestun málsins hefði og síðan er haft eftir einum þeirra í Morgunblaðinu í gær að ráðuneytið mundi hafa skjótar hendur, eins og það er orðað, við að hrinda breytingum á söluskatti í framkvæmd þegar Alþingi væri búið að samþykkja breytingarnar. Hér er ekkert ef heldur bara þegar. Hann reiknar sem sagt ekki með að neinar hugarfarsbreytingar hafi orðið á stjórnarheimilinu í áramótafagnaðinum og veit eflaust betur um alla heimilishætti þar en við sem leyfðum okkur þó að vona að menn sæju að sér. Það virðist sem sagt engu líkara en að menn hafi litið á frestun þessarar umræðu fram yfir áramót nánast sem formsatriði og hafi aldrei ætlað sér að nota þennan tíma til umþóttunar af einu eða neinu tagi.

Ekki gefur heldur ástæðu til bjartsýni viðtal sem hæstv. fjmrh. lætur hafa við sig í Alþýðublaðinu á síðasta degi ársins. Það viðtal lýsir því miður ekki samstarfsvilja né vilja til aukins skilnings. Þar talar hæstv. ráðherra um að þyrlað hafi verið upp gríðarlegu moldviðri sem ætlað sé að vekja ugg meðal almennings vegna þessara breytinga. Þetta er nú billega að orði komist, hæstv. ráðherra. Uggurinn meðal almennings er tilkominn vegna gerða ríkisstjórnarinnar þótt stjórnarandstaðan sé í því hlutverki að vekja rækilega athygli á afleiðingum þeirra gerða. Það má þá kannski spyrja hvort ýmsir þeir sem látið hafa ugg sinn uppi vegna þessa máls séu að þyrla upp moldviðri, hvort forseti Alþýðusambands Íslands, formaður Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, formaður Neytendasamtakanna og formaður Manneldisfélags Íslands séu að þyrla upp moldviðri. Eru það að dómi hæstv. ráðherra sjálfsagðar einkunnir til þeirra sem dirfast að hafa aðra skoðun á málinu en hann sjálfur?

Ýmislegt annað væri ástæða til þess að ræða af því sem fram kemur í þessu viðtali, svo sem fullyrðingar hæstv. ráðherra um nauðsyn þess að tolla grænmeti. Þar held ég að hæstv. ráðherra tali um hug sér. Hann veit það ósköp vel að innlend grænmetisframleiðsla nýtur þeirrar verndar, að innflutningur sambærilegs grænmetis er bannaður eða það er sem sagt heimild til þess að banna hann þegar uppskeran er næg innan lands og það ætti að vera næg verndun auk þess sem sjálfsagt væri að stuðla frekar að góðum hag grænmetisframleiðslu og ræktunar hér innan lands með því að undanþiggja fjárfestingarvörur til hennar söluskatti eins og Kvennalistakonur leggja til.

Þá hrærir hæstv. ráðherra í þessu viðtali öllum frumvörpum sínum í einn pott og fær út núll í framfærsluvísitölu sem er út af fyrir sig reikningslega rétt en, eins og margsinnis hefur verið bent á, alls ekki sama útkoma fyrir hvern og einn þar sem vægi matvöru í framfærslukostnaði er afar mismunandi. Það er málið eða kjarni málsins eins og hæstv. ráðherra er tamt að segja og segir reyndar aftur og aftur í þessu viðtali.

Svo kvartar hæstv. ráðherra yfir því að stjórnarandstaðan haldi lítt á lofti hliðarráðstöfunum ríkisstjórnarinnar með hækkun barnabóta og lífeyris, en það er nú svo, hæstv. ráðherra, að þar vorum við sammála og þar af leiðandi reyndist ekki nauðsynlegt að hafa þar um mikið mál. Við studdum að sjálfsögðu þessar ráðstafanir og að þessar greiðslur væru hækkaðar og greiddum þeim atkvæði, en ég sé ekki hvernig hægt er að búast við því að við eyðum miklu af dýrmætum tíma þingsins í að geta þeirra ráðstafana í hvert sinn sem hugsanlega mætti svo gera í samhengi málsins. Reyndar gæti ég alveg hugsað mér að lofa og prísa þessar aðgerðir á hverjum einasta degi ef hæstv. ríkisstjórn vildi hafa barnabætur sómasamlegar og greiða þær samhliða því að sleppa matarskattinum. Þá skal ég lofa þær á hverjum degi og hafa um það langt og mikið mál.

Hins vegar er svo athugunarvert hvernig hæstv. ráðherra lýsir áhrifum þessara bóta í tilvitnuðu viðtali og gerir auðvitað veg þessara bóta sem mestan, miðar upphæðir við ársfjórðung og tvö börn þar sem annað á að vera undir 7 ára aldri. Þannig fæst sæmileg upphæð á prenti sem kannski dugir fyrir gallabuxum og skóm á þessi blessuð börn en séu þær bútaðar niður á hvert barn og miðaðar við mánuð verður niðurstöðutalan vitanlega heldur rýrari.

Eitt vekur sérstaka athygli í þessu viðtali og það er fullyrðing hæstv. ráðherra um það að barnabætur verði greiddar út ársfjórðungslega og í fyrsta skipti nú í janúar. Á þetta mun verða minnt og segi ég það ekki að ástæðulausu vegna þess að við umfjöllun um tekjuskattsbreytingarnar í fjh.- og viðskn. kom fram sú skoðun embættismanna það gæti orðið erfitt og þeir vildu helst ekki kveða svo fast að orði að það yrði hægt að greiða þessar bætur í upphafi ársfjórðungsins. En sannarlega er gott ef hæstv. ráðherra ætlar að sjá til þess að svo verði því það má ekki minna vera.

Það væri ástæða til að taka ýmislegt fleira fyrir í þessu viðtali og svara því, en því miður er augljóst að hæstv. ráðherra er forhertur í afstöðu sinni og lýkur þessu viðtali með hástemmdum yfirlýsingum um réttlátara skattakerfi, bætt skattskil og stuðning við fyrirtæki. Og andóf stjórnarandstöðunnar hér á þinginu er afgreitt sem sleggjudómar sem engu muni breyta um dóm sögunnar. Hæstv. fjmrh. gefur sig hins vegar út fyrir að vera kjarkmaður sem óttist hvorki skattkerfisbreytingar né dóm sögunnar.

Við þær aðstæður sem ríkt hafa undanfarnar vikur hér í þinginu fer ekki hjá því að maður velti fyrir sér, herra forseti, kostum og göllum þeirra vinnureglna sem hér eru viðhafðar og gallarnir hafa óneitanlega verið meira áberandi. Margir utan þessa vinnustaðar hafa átt bágt með að skilja þessa starfshætti, enda myndin ófögur sem þeim er gefin í fjölmiðlum. Þar ganga fullyrðingar um málþóf og hvers konar ólíkindalæti og skilningur æðimargra sem utan við standa er sá að stjórnarandstæðingar séu svona að mestu leyti aðeins að stríða stjórnarliðum og reyna að koma illu af stað á stjórnarheimilinu. Málefnin komast heldur lítið að í slíkri umfjöllun. Þetta er að mínum dómi afar slæmt og veldur mér áhyggjum.

Orsakanna fyrir því ástandi sem ríkt hefur hér á Alþingi síðustu vikurnar er að leita hjá ríkisstjórninni og í þeim vinnubrögðum sem stuðningsmenn hennar leyfa sér að viðhafa til að keyra í gegn stórmál eins og það sem hér er til 3. umr. án þess að taka tillit til nokkurra ábendinga frá fulltrúum stjórnarandstöðunnar.

Í hverju málinu á fætur öðru höfum við fulltrúar stjórnarandstöðu reynt að gera okkar besta við erfiðar aðstæður. Við höfum lagt mikla vinnu í að skoða frumvörp ríkisstjórnarinnar og sýnt þann samstarfsvilja sem við höfum getað. Við höfum ekki aðeins kynnt okkar eigin stefnu í þeim málum sem um hefur verið að ræða og þær ýtrustu breytingar sem við hefðum viljað gera, heldur höfum við reynt að ná samvinnu við stjórnarliða um að sníða verstu agnúana af þessum málum áður en þau verða að lögum.

Niðurstaðan er hins vegar sú að stjórnarfrv. virðast nánast heilagar kýr sem enginn megi snerta. Eflaust hefur sundurþykkjan á stjórnarheimilinu sitt að segja og sá hreinsunareldur sem stjórnarfrv. þurfa að ganga í gegnum áður en þau eru lögð fram sem slík. Nægir þar að vitna til þeirrar frásagnar í Morgunblaðinu sem ég minntist á áðan. Ég tel það hins vegar stóralvarlegt mál og atlögu að lýðræðinu þegar stuðningsmenn stjórnarinnar neita að hlusta á rök stjórnarandstöðu hvernig sem þau eru fram sett. Jafnvel þótt þeir fallist á rökin virðist óhugsandi að breyta í samræmi við þau aðeins vegna þess að til.skipun vantar úr ráðuneyti. Sem dæmi um þvílík vinnubrögð get ég nefnt baráttu okkar kvennalistakvenna fyrir því að tekið væri tillit til hollustu- og manneldissjónarmiða við álagningu tolla og vörugjalds, tollar felldir niður á grænmeti en meira lagt á sykur og sætindi. Undir þetta sjónarmið tóku margir og m.a. hv. formaður fjh.- og viðskn. sem komst m.a. svo að orði að sykur væri óeðlilega ódýr. Þrátt fyrir þetta gátu stuðningsmenn ríkisstjórnarinnar ekki fallist á brtt. Kvennalistans og niðurstaðan hlýtur að vera sú að ríkisstjórninni og stuðningsmönnum hennar er ekki sama hvaðan gott kemur. Og óneitanlega . . . (Forseti: Ég vil inna ræðumann eftir því hvort hann geti lokið ræðu sinni. Ef hann getur það á örskammri stund mun ég halda áfram, en hins vegar ef svo er ekki bið ég hann að fresta ræðu sinni fram yfir kl. fimm.) Ég á ekki fjarska mikið eftir, forseti, en ég kýs heldur að ljúka því eftir fundarhlé. — [Fundarhlé.]

Herra forseti. Ég mun þá halda áfram máli mínu. Ég vænti að hæstv. fjmrh. sé einhvers staðar hér nálægur svo að hann megi vera viðstaddur umræðuna. Hæstv. fjmrh., er hann ekki hér? Ég kann betur við að hafa hann hérna nálægt mér. — Ég skal ekki tefja tímann. Ég reikna með að hæstv. ráðherra gangi fljótlega í salinn, og er kannski nóg komið af þögnum í þessum ræðustól svo að ég ætta að halda áfram þar sem frá var horfið.

Ég leyfði mér áður en fundi var frestað fyrir þingflokksfundi að fara örfáum orðum um vinnubrögð í sambandi við afgreiðslu mála og lét þar enn einu sinni í ljós óánægju með þau vinnubrögð. Það virðist svo sem stjórnarandstaðan geti ekki fengið á sig hlustað þótt hún vilji taka málin fyrir með eðlilegum hætti og gagnrýna það sem henni þykir miður hafa farið án þess að hún sé að reyna í nokkru að hindra eðlilega umfjöllun mála hér. Ríkisstjórnin ber saman samstöðu í stjórnarflokkunum með illu eða góðu um hin ýmsu mál og svo er eins og sé lokað augum og eyrum við hvers konar umbótatilraunum af hálfu þm. og jafnvel komið fram við þm. stjórnarandstöðunnar af fullkomnu virðingarleysi, hlustað með ólund eða hlustað ekki þegar þm. stjórnarandstöðu vilja ná eyrum hæstv. ráðherra og jafnvel lesið á áberandi hátt úr ljóðabókum eða Vikunni, því ágæta blaði, þótt talað sé til þeirra af fyllstu kurteisi. E.t.v. er kominn til þess tími, herra forseti, að þingheimur reyni að móta sér skikkanlegri vinnubrögð sem líklegri eru til árangurs.

Ég vænti að ég teljist ekki hafa farið út fyrir efni þessa fundar þótt ég eyddi nokkrum orðum að vinnubrögðum sem svo mjög hafa komið við sögu í þessu máli, ekki síst. Það er hins vegar hinn margumræddi söluskattur sem er til 3. umr. og ég ræddi reyndar það mál mjög ítarlega við 1. umr. og bætti við í annarri, en enn er nokkuð ósagt.

Á þeim örskamma tíma, þeim örfáu fundum, raunar aðeins tveimur, sem fjh.- og viðskn. hafði málið til umfjöllunar, komu reyndar nokkrir á nefndarfundi og urðu orð þeirra þar ekki til þess að breyta skoðun minni á því sem ég tel eitt hið versta sem hæstv. ríkisstjórn gat hugsanlega dembt yfir landsmenn.

Látið hefur verið að því liggja að hér sé um afar mikla og nauðsynlega kerfisbreytingu að ræða sem skipta muni sköpum um alla innheimtu og eftirlit. Skoðun í nefnd hefur staðfest það sem virtist við fyrstu sýn að svo er alls ekki. Kerfisbreytingin er í rauninni léttvæg. Hér er fyrst og fremst og nánast eingöngu um það að ræða að söluskattsstofninn er breikkaður, 25% söluskattur lagður á matvæli. Það er í raun og veru öll breytingin. Það hefur einnig verið staðfest að allar fullyrðingar um það að lagabreytingar af þessu tagi mundu auðvelda eftirlit og skil eru mjög orðum auknar.

Ríkisskattstjóri staðfesti það á fundi í fjh.- og viðskn. að vandinn varðandi söluskattsskil lægi aðeins að litlu leyti á sviði vöruverslunar og matvöruverslunin væri aðeins brot af þessum vanda. Undanskot eru miklu víðtækari á öðrum sviðum. Þau eru fyrst og fremst í þjónustu hvers konar, byggingariðnaði, bílskúrsstarfsemi af ýmsu tagi og fleira því um líkt. Á því er ekki tekið nokkurn skapaðan hlut í frv. sem hér er til afgreiðslu og það er mín skoðun að fólk hafi verið blekkt að þessu leyti. Því hefur verið haldið á lofti að hér væri um meiri háttar kerfisbreytingu að ræða sem hefði í för með sér stórbætt söluskattsskil og vissulega má til sanns vegar færa að skattur á matvæli mun að líkindum skila sér ákaflega vel því að með því er verið að skattleggja það sem enginn getur verið án. Að öðru leyti er ekki um auðveldari innheimtu að ræða. Það er algjör blekking, hæstv. ráðherra.

Í annan stað er því haldið stíft að fólki að þetta sé nauðsynlegt skref í átt að virðisaukaskatti sem taka eigi upp á næsta ári og muni verða heil 22%. Það fær heldur ekki staðist. Þetta skref er alls ekki nauðsynlegt þess vegna. Hér er, eins og áður sagði, aðeins um það að ræða að leggja þessa gífurlega háu skatta á matvæli og það eru mörg fordæmi fyrir því að undanþiggja eitt og annað í virðisaukaskatti, m.a. matvæli, kannski fyrst og fremst matvæli. Sums staðar eru raunar matvæli skattlögð en þá töluvert lægra en annað sem skattlagt er og meira að segja frú Margaret Thatcher, járnfrúin, sem nýtur aðdáunar margra, sérstaklega karla, fyrir hörku sína, dugnað og ósveigjanleika, hefur ekki ráðist á þann garðinn að skattleggja matvæli. Allra furðulegust er kannski sú fullyrðing að þessi ráðstöfun verði til lækkunar verðbólgu. Reyndar hefur borið minna á þeirri fullyrðingu í seinni tíð. E.t.v. hefur náð til eyrna hæstv. ráðherra eitthvað af því sem fulltrúar launafólks hafa haft um þessa skattlagningu að segja en það er raunar sama, herra forseti, hvernig við veltum þessu máli fyrir okkur fram og aftur. Það er með öllu óskiljanlegt hvernig viti bornum mönnum dettur til hugar að fremja þessa óhæfu.

Herra forseti. Til þess að greiða fyrir þingstörfum og tryggja að hv. þm. gætu notið áramótanna með fjölskyldum sínum stilltum við, mörg okkar, máli okkar í hóf við 2. umr. þessa máls og þess vegna einnig drógum við til baka, kvennalistakonur og allir fulltrúar stjórnarandstöðu, brtt. okkar sem við höfðum borið fram við 2. umr. en flytjum þær nú aftur við 3. umr. Þær er að finna hér á þskj. 465 og þarfnast ekki mikilla skýringa. Fyrri brtt., þ.e. aliður hennar, hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Vörur sem um ræðir í I. til IV. flokki viðauka I í tollalögum (tollskrá) og ætlaðar eru til manneldis. [Hér er um undanþágur að ræða.] Undanþága samkvæmt þessum tölulið tekur þó ekki til hreinna eða blandaðra grænmetis- og ávaxtasafa eða tilreiddra efna til slíkrar drykkjarvörugerðar, sælgætis, öls, gosdrykkja eða annarra vara sem gjaldskyldar eru samkvæmt lögum um vörugjald, sbr. reglugerðir sem settar eru samkvæmt þeim lögum. Undanþágan nær ekki heldur til tóbaks, drykkjarvara sem í er áfengi, tilbúinna efna til öl- eða víngerðar, poppkorns eða annars sælgætis þótt það sé ekki gjaldskylt samkvæmt lögum um vörugjald. Undanþága þessi nær ekki til sölu veitingahúsa, greiðasölustaða eða annarra á tilbúnum mat.“

Þetta þýðir einfaldlega að matvörur verða undanþegnar söluskatti og þarf engum að koma á óvart. Þessi brtt. er svo orðuð að hún er samhljóða reglugerðarákvæði í núgildandi lögum sem undanþiggja matvörur söluskatti. Ég vona einlæglega að þingheimur beri gæfu til þess að samþykkja þessa tillögu og koma þannig í veg fyrir óbætanlegt óhæfuverk.

B-liður fyrri tillögunnar á þskj. 465 varðar svo undanþágu fyrir aðgangseyri að íþróttasýningum, íþróttamótum, sundstöðum, heilsuræktarstöðvum og skíðalyftum. Þarna er heilsuræktarstöðvum bætt inn í þessa upptalningu og það teljum við flm., sem eru allar þingkonur Kvennalistans í Nd., æskilegt með tilliti til heilsufarssjónarmiða og óeðlilegt að þessi heilsuræktarstarfsemi sé skattlögð þegar önnur slík er blessunarlega undanþegin.

Önnur brtt. á þingskjalinu lýtur að garðyrkju, þ.e. að fjárfestingarvörur til garðyrkju verði undanþegnar söluskatti. Er það ætlun okkar að ekki veiti af því og er jafnframt reyndar tengd þeirri skoðun okkar að innflutt grænmeti eigi að vera tollfrjálst en því miður vildu stjórnarþingmenn ekki fallast á þá tillögu okkar við afgreiðslu tollafrv. og þykir okkur það mjög miður. Slíkt má vitanlega alltaf taka upp aftur og reyna að fá fært til betri vegar, enda sé ég ekki annað en að öll rök hnígi að því að haga málum svo.

Herra forseti, ég hef skýrt þessar brtt. og afstöðu okkar til þessa frv. og ætla a.m.k. að sinni að geyma mér frekari umfjöllun um það.