05.01.1988
Efri deild: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3583 í B-deild Alþingistíðinda. (2518)

40. mál, Útflutningsráð Íslands

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Eins og fram kom í ræðu hv. 8. þm. Reykn. fjallaði fjh.- og viðskn. um þessi mál á nýjan leik í morgun í framhaldi af ítarlegum umræðum sem urðu um málið við 2. umr. hér í hv. deild fyrir áramótin og sú umræða snerist að talsverðu leyti um að hve miklu leyti ráðherra hefði heimild til að færa til verkefni á milli ráðuneyta með einfaldri reglugerðarbreytingu.

Það varð samhljóða niðurstaða nefndarinnar sem fram kemur á þskj. 480, framhaldsnál., sem hv. 8. þm. Reykn. hefur hér kynnt, og það sem ég vil sérstaklega framhefja í þessu nál. er 2. og 3. málsgr. þar sem segir:

„Nefndarmenn voru sammála um að túlka bæri þröngt ákvæði 4., 5. og 8. gr. laga um Stjórnarráð Íslands varðandi skipan verkefna milli ráðuneyta og ráðherra.

Upplýst hefur verið að lög um Stjórnarráð Íslands eru í endurskoðun og því mun umræða þessi halda áfram, enda telur nefndin mjög mikilsvert að Alþingi sé á hverjum tíma á verði um skil milli framkvæmdar- og löggjafarvalds.“

Ég tel að það sé mjög mikilvægt að hv. fjh.- og viðskn. náði samstöðu um þetta atriði þannig að framkvæmdarvaldinu megi verða ljóst að það er eftir því tekið þegar verið er að setja reglugerðir um breytingar á verkaskiptingu í Stjórnarráði Íslands. Ég tel að það sé í raun og veru mjög þýðingarmikið að þessi niðurstaða náðist hér með heildarsamkomulagi þó að við sem skipum sæti stjórnarandstöðunnar í hv. nefnd séum þeirrar skoðunar að þarna hefði að sumu leyti mátt kveða fastara að orði. Í samræmi við það höfum við í dag sett saman bréf til Lagastofnunar Háskóla Íslands um þetta mál sem ég ætla að lesa, með leyfi forseta:

„Til Lagastofnunar Háskóla Íslands. Reykjavík, 5. jan. 1987.

Við undirrituð alþingismenn, sem höfum starfað með fjh.- og viðskn. Ed. Alþingis leitum til Lagastofnunar Háskóla Íslands vegna lögfræðilegs álitamáls er komið hefur upp við meðferð frv. til l. um útflutningsleyfi o.fl.

Aðdragandi málsins er sá að núverandi ríkisstjórnarflokkar ákváðu að flytja utanríkisviðskipti yfir í utanrrn. Var það síðan gert með reglugerð um breytingu á reglugerð um Stjórnarráð Íslands sem gefin var út 8. júlí sl. Var reglugerðin undirrituð af forsrh. fráfarandi ríkisstjórnar, Steingrími Hermannssyni, en hann tók einmitt við utanrrn. í þeirri ríkisstjórn sem tók við síðdegis sama dag og reglugerðin var gefin út. Mun það óvenjulegt og líklega einstætt frá því að stjórnarráðslögin voru sett 1969 að fráfarandi forsrh. breyti verkaskiptingu ráðherra í viðtakandi ríkisstjórn sem annar forsrh. stýrir.

Við umræður um málið á Alþingi hefur það komið fram að hér er um lögfræðilegt álitamál að ræða. Það var einnig afstaða þeirra þriggja þingmanna sem fyrir hönd stjórnarflokkanna óskuðu álitsgerðar ríkislögmanns um þetta efni, en það voru þingmennirnir Jón Sigurðsson, Halldór Ásgrímsson og Geir H. Haarde. Birtist þessi álitsgerð ríkislögmanns sem fylgiskjal með framhaldsnefndaráliti fjh.- og viðskn. Ed., dags. 5. jan. 1988. Í greinargerð ríkislögmanns kemst hann að augljósri niðurstöðu sem undirritaðir alþingismenn vilja engu að síður draga í efa að sé einhlít miðað við efni laganna og anda þeirra, þ.e. framsöguræður forsrh. Bjarna Benediktssonar er lögin voru sett og umræður um málið í báðum deildum þingsins, einkum þó í Ed., þar sem deildin samþykkti brtt. frá Jóni Þorsteinssyni sem bersýnilega þrengdu möguleika ráðherra til þess að skipa verkum Stjórnarráðsins með reglugerðum frá því sem upphaflegt frv. hafði gert ráð fyrir.

Í framhaldi af þessum inngangi óska undirritaðir alþingismenn eftir því að Lagastofnun Háskóla Íslands svari eftirfarandi spurningum:

1. Hver er skoðun stofnunarinnar á áliti ríkislögmanns sem fylgir með sem fylgiskjal?

2. Hvaða verkefni eru það sem ekki má flytja milli ráðuneyta með reglugerð eftir að reglugerðin frá 8. júlí 1987 hefur verið sett? Verkefni sem ekki má flytja á milli ráðuneyta óskast tilgreind í svari.

3. Eru dæmi þess að fráfarandi forsrh. hafi breytt verkaskiptingu viðtakandi ríkisstjórnar?

4. Telur Lagastofnun Háskólans að eðlilegra hefði verið að breyta verkaskiptingu Stjórnarráðsins með lögum en með reglugerð?

5. Hver er munurinn á úrskurði og reglugerð skv. lögunum um Stjórnarráð Íslands að mati Lagastofnunar Háskólans annar en sá að forseti Íslands gefur út úrskurðinn en ráðherrann reglugerðina?

Það skal tekið fram að við munum birta þingheimi svar yðar strax og það hefur borist okkur í hendur. Virðingarfyllst. Guðrún Agnarsdóttir alþm., Júlíus Sólnes alþm., Svavar Gestsson alþm."

Um þetta bréf og álit okkar að öðru leyti er ekki margt fleira að segja. Ég tel að sú umræða sem fram hefur farið um málið hafi verið gagnleg, skipti máli. Hér er komið að grundvallaratriðum í vinnubrögðum framkvæmdarvaldsins gagnvart löggjafarvaldinu. Ég tel að það skipti miklu máli að framkvæmdarvaldinu sé ljóst að Alþingi er á verði. Það skipti miklu máli að það sé ljóst að þm. taka ekki hlutunum þegjandi og sofandi heldur taka við sér þegar komið er að grundvallaratriðinu í stjórnskipuninni, eins og lögum um Stjórnarráð Íslands. Ég tel að það skipti mjög miklu máli.

Ég vek athygli á því að í þessum spurningum okkar förum við fram á álit Lagastofnunar Háskólans á því hver sé munurinn a úrskurði annars vegar og reglugerð hins vegar, en um það efni mætti margt segja. Munurinn er formlega sá að þjóðhöfðinginn gefur út úrskurðinn en ráðherrann reglugerðina og úrskurðurinn er gefinn út af þjóðhöfðingjanum að tillögu ráðherrans. Það sem hins vegar er um þetta mál að segja er það að innihaldið er líkt. Munurinn birtist þó þannig að úrskurðirnir eru gefnir út í A-deild Stjórnartíðinda og þeir eru prentaðir í lagasafninu, þ.e. úrskurðurinn um verkaskiptingu í Stjórnarráði Íslands. Hins vegar eru önnur dæmi um slíka úrskurði varðandi reglurnar um Háskóla Íslands þar sem þjóðhöfðinginn gefur út úrskurð um breytingu á reglum um Háskóla Íslands. Mér er tjáð að það séu ekki önnur dæmi finnanleg um úrskurði af þessu tagi í okkar stjórnskipun. Upphaflega var munurinn hins vegar sá að þjóðhöfðinginn gaf út úrskurðinn og hann hafði annað gildi en reglugerðin og meira vægi. Þetta minnir okkur á að stjórnskipun okkar grundast á stjórnarskrá sem er að verða á annað hundrað ára gömul og inni í henni eru margvíslegir þættir, eins og t.d. þessi ákvæði um úrskurði, sem hafa á síðari áratugum ekki haft sama gildi og þeir höfðu þegar ákvæðin um úrskurðina voru sett upphaflega fyrir 120 árum eða svo.

Ég endurtek það, sem segir í bréfi okkar þriggja, að við munum birta þingheimi svar Lagastofnunar Háskólans strax og það birtist þannig að unnt verði að taka það til umræðu ef ástæða þykir til síðar.

Við 2. umr. málsins gáfum við út nál. um málið. Ég gaf út nál. sem minni hl. og held mig við það álit. Ég flutti þá þrjár brtt. varðandi þetta mál sem ég dró þá til baka vegna þessarar umræðu. Ég held mig við það og endurflyt þær ekki við þessa 3. umr., en mun greiða atkvæði gegn 1. gr. þessa frv. svo og frv. til l. um Útflutningsráð Íslands sem liggur einnig fyrir og kemur á dagskrá síðar á þessum fundi, herra forseti.