22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (253)

Sala Útvegsbankans

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Hefjandi þessarar umræðu, hv. 7. þm. Reykv., virðist halda því fram að óeðlilegur dráttur hafi orðið á því að endanleg niðurstaða fengist í sölumáli hlutabréfa ríkisins í Útvegsbanka Íslands. Hann heldur því líka fram að þetta mál sé nú í klúðri. Ég er ósammála honum um hvort tveggja. Átti að skilja orð hans svo að hann vildi að meirihlutayfirráð í þessum banka, öll óseld hlutabréf ríkisins, skyldu afhent öðrum hvorum þeirra tilboðsgjafa sem alþjóð veit að hafa gert slík tilboð í hlutabréf ríkisins í bankanum? Ég vinn enn að því að finna lausn sem tryggir almannahagsmuni betur en slík niðurstaða mundi gera. Meðan slík lausn er ófundin mun ég ekki selja bréf ríkisins í bankanum. Við höfum nógan tíma. Það er ekkert sem rekur á eftir. Útvegsbankinn er ekki í neinni hættu. Þvert á móti gengur hann vel og er nú eftirsóttur. Innlán aukast þar meira en í öðrum bönkum og útlán heldur minna. Ég tek undir eitt af þeim atriðum sem hv. umræðuhefjandi nefndi: Það er að e.t.v. sé skynsamlegt að bíða eftir niðurstöðu matsnefndarinnar og endurmeta sölugengi bréfanna í ljósi þeirrar niðurstöðu og fyrstu reikninga hins nýja banka.

Með þessu svara ég því sem hv. 7. þm. Reykv. spurði um. Ég mun að sjálfsögðu birta Alþingi niðurstöður matsnefndarinnar þegar þær liggja fyrir. Það verður á tilsettum tíma um næstu áramót.

Það hvernig málefnum Útvegsbankans verður ráðið til lykta getur haft mikil áhrif á skipan íslenskra bankamála til frambúðar. Það er vissulega þörf á því að taka þar til hendinni við gagngera endurskipulagningu. Bankakerfið gegnir svo mikilvægu hlutverki í okkar þjóðarbúskap að þar má gjarnan taka til nokkurn tíma. Ríkisstjórnin hefur markað skýra stefnu í bankamálum. Markmið þessarar stefnu eru einkum þrjú:

Í fyrsta lagi: Að draga úr ábyrgð ríkisins á rekstri bankanna þannig að stjórnendur þeirra séu ábyrgir gagnvart hlutafjáreigendum og hafi því fyrst og fremst viðskiptaleg sjónarmið að leiðarljósi.

Í öðru lagi: Að stuðla að samruna banka og sparisjóða í stærri og öflugri heildir sem geti veitt viðskiptavinum sínum alhliða þjónustu á sem ódýrastan hátt, en gæta þess þó að eðlileg samkeppni ríki á milli þeirra.

Í þriðja lagi: Að dreifa eignarhaldi á hlutafé í bönkunum eftir föngum þannig að enginn einn aðili fái einokunaraðstöðu í bankakerfinu.

Ég lít á það sem mikilvægt verkefni viðskrn. að vinna að framgangi þessarar stefnu á kjörtímabilinu. Ef okkur tekst vel við það er lagður grunnur að öflugu bankakerfi í landinu sem getur átt sinn drjúga þátt í efnahagslegum framförum í þessu landi.

Varðandi Útvegsbankann sérstaklega skiptir það líka máli að endurheimta það fé sem ríkissjóður hefur til hans lagt. Ég hef mótað afstöðu mína í málefnum Útvegsbankans í ljósi þessara markmiða. Sala á hlutafé ríkisins er tækifæri til þess að hrinda stefnu stjórnarinnar í framkvæmd. Þannig mun ég nota þetta tækifæri.

Ég tel að ágreininginn og erfiðleikana sem upp hafa komið í þessu máli megi,að nokkru leyti rekja til laganna um Útvegsbanka Íslands hf. Að mínum dómi fólu lögin um stofnun hlutafélags um bankann ekki í sér fullnægjandi lausn á skipulagsvanda bankanna því þau ná eingöngu til hans sjálfs. Til að hægt sé að standa skynsamlega að endurskipulagningu bankakerfisins þarf víðtækari aðgerðir á sviði bankamála, víðtækari en lögin um Útvegsbankann gefa færi á. Ég benti á þetta í ræðu og riti á síðasta vetri og ítreka það nú. Þessar aðgerðir þurfa að vera þannig úr garði gerðar að hægt sé að taka á skipulagsvanda bankanna í samhengi. Ég vinn nú að undirbúningi slíkra aðgerða, en það þarf reyndar fleira til.

Eins og kunnugt er hefur hér á landi fyrst og fremst verið litið á hlutafjáreign sem leið til þess að komast til valda og áhrifa í fyrirtækjum fremur en í beinni arðsvon. Skattlagning hlutafjár og arðs af því á sinn þátt í þessu. Ég tel að e.t.v. sé helsta ástæðan fyrir því hve dræman áhuga almenningur hefur sýnt á kaupum hlutabréfa í bankanum megi rekja til þessa.

Sú samræming sem stjórnin hefur nú boðað á skattlagningu tekna af eignum getur greitt því leið að Útvegsbanki Íslands verði almenningshlutafélag þegar fram líða stundir.

Þetta er mitt svar við spurningum hv. málshefjanda.