05.01.1988
Neðri deild: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3589 í B-deild Alþingistíðinda. (2536)

196. mál, söluskattur

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Það er rétt hjá hv. 1. þm. Norðurl. v. að 4. þm. Norðurl. e. lítur nokkuð stórt á sig og skammast sín ekkert fyrir það. Hann tekur starf sitt sem alþm. og nefndarmaður í þingnefndum Alþingis alvarlega og kann ekki við það ef menn eins og hv. 1. þm. Norðurl. v. ætla sér trekk í trekk að brjóta allar þinglegar hefðir og venjur í sambandi við vinnubrögð. Ég mótmæli formlega því að formaður nefndarinnar sé að krunka utan í einstaka nefndarmenn á hlaupum um efnisatriði sem koma upp. Auðvitað átti að gera fundarhlé og boða formlega til fundar í nefndinni. Það er smekkleysa og ekki við hæfi að hv. þm. skuli koma hér sem formaður viðkomandi nefndar og reyna að hafa hér áhrif í atkvæðagreiðslu með því að skýra frá því á fölskum forsendum að nefndin hafi starfað að þessu máli. Þetta er ósmekklegt og óhæfa og það liggur við að ég mótmæli allri málsmeðferðinni, þar með talið niðurstöðu atkvæðagreiðslunnar, vegna þess að það var greinilegt að hv. þm. var á fölskum forsendum að reyna að hafa áhrif á atkvæðagreiðsluna með því að láta líta svo út sem fjh.- og viðskn. hefði starfað að málinu sem var ekki rétt.