05.01.1988
Neðri deild: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3592 í B-deild Alþingistíðinda. (2546)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. meiri hl. sjútvn. (Kjartan Jóhannsson):

Herra forseti. Það þarf víst ekki að segja neinum að það mál sem hér er til umræðu er býsna flókið og erfitt, enda hefur umfjöllun þess í þinginu ekki gengið alveg þrautalaust. Sjútvn. Nd. klofnaði í fjóra hluta við umfjöllun þessa máls og hefur skilað af sér nál., misþykkum eins og menn hafa sjálfsagt tekið eftir. Það eru þrír minni hlutar, þ.e. Hjörleifur Guttormsson í einum, Hreggviður Jónsson í öðrum og formaður nefndarinnar, Matthías Bjarnason, í þeim þriðja. Ég vil nota þetta tækifæri til að þakka formanni nefndarinnar, Matthíasi Bjarnasyni, fyrir ágæta og rösklega stjórn á fundum nefndarinnar þó að leiðir skildi undir það lauk við álitsgerð og tillögusmíð.

Þann meiri hl. sem ég er frsm. fyrir skipa auk mín Ólafur G. Einarsson, Alexander Stefánsson og Guðni Ágústsson. Nál. er á þskj. 477 og brtt. eru á þskj. 478.

Nefndin ræddi þetta frv. ítarlega á sex fundum, kvaddi á sinn fund Jakob Jakobsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, og einnig kom Arthur Bogason, formaður Landssambands smábátaeigenda, til fundar við nefndina. Nefndin naut aðstoðar sjútvrn. Ráðuneytisstjóri sjútvrn., Árni Kolbeinsson, sat suma fundi nefndarinnar. En áður, eins og kunnugt er, höfðu allmargir aðilar verið kallaðir á sameiginlega fundi sjávarútvegsnefnda Ed. og Nd. og þar fóru fram ítarleg skoðanaskipti um málið.

Ég sagði áðan að afgreiðsla þessa máls hefði ekki gengið alveg þrautalaust og það fór væntanlega ekki fram hjá neinum að í þeim umræðum sem áður fóru fram í þessari hv. deild urðu mestar umræður um 10. gr. frv. eins og það kom frá Ed. og sætti sú grein harðastri gagnrýni hér í deildinni. Af því leiddi að verulegur hluti af störfum nefndarinnar snerist um að skoða þá grein sérstaklega. Í þeim brtt. sem nefndin flytur er sú breyting sem varðar 10. gr. veigamest.

Þær brtt. sem nefndin flytur eru af þrennu tagi. Það er í fyrsta lagi um fisk sem er undir tiltekinni stærð. Sú regla hefur gilt að hann hefur verið undanþeginn kvóta, undirmálsfiskur. Nefndin er þeirrar skoðunar að hann eigi helst að teljast að fullu til kvóta. Ekki er þó skrefið stigið til fulls í þeirri brtt. sem hér er flutt af hálfu nefndarinnar en tekin af sú heimild sem áður var til að undanþiggja hann að öllu leyti og gert ráð fyrir að hann verði einungis undanskilinn að hluta.

Annar þáttur brtt. fjallar um veiðar smábáta sem eru minni en 10 brl. Þessari grein hefur reyndar áður verið breytt í Ed. og rýmkað þá nokkuð frá því sem verið hafði í frv. eins og það kom frá ríkisstjórninni. En í meðferð nefndarinnar hefur átt sér stað veruleg breyting á þessari grein sem meiri hl. telur að komi verulega til móts við þau sjónarmið sem varða hag og hagsmuni smábátaeigenda og þeirra sem þá útgerð stunda.

Það má segja að í lagagreininni eins og hún stendur nú og í þeim reglugerðardrögum sem hafa verið til sýnis í nefndinni séu heimildir allar rýmri og hliðstæðari því sem hefur verið í eldri reglugerðum. Þessi rýmkun ætti því að vera þó nokkurs virði fyrir þá sem þessa atvinnugrein stunda.

Eins og málin standa nú er það þó þannig skv. till. meiri hl. að veiðar báta sem eru minni en 6 brl. og eru eingöngu á handfærum eru mjög frjálsar, en hins vegar skulu veiðar báta sem eru stærri en 6 brl. háðar sérstökum veiðileyfum og enn fremur botnfiskveiðar þeirra báta sem eru undir 6 brl. og fá heimild til netaveiða.

Það er sem sagt gert ráð fyrir því, sem hefur nú áður verið, að útgerðir smábáta sem sæta aflahámarki, og það eru þá þær sem eru í netaveiðum, geti valið milli aflahámarks sem byggist á eigin reynslu og meðalaflahámarks fyrir báta í þeim stærðarflokki sem við á.

Það var áður svo í fyrri reglugerðardrögum að miðað var við aflahámark sem var byggt á eigin reynslu og að það yrði 90% af meðalafla þriggja ára, áranna 1985–1987, en þó aldrei hærra en 135 lestir. Nú er gert ráð fyrir að það verði miðað við aflahámark sem er byggt á eigin reynslu og verði 90% af meðalafla tveggja bestu áranna á þessu tímabili. Í reglugerðardrögunum var gert ráð fyrir því að það væri þó aldrei hærra en 175 lestir, en nefndin telur að því eigi að breyta í 200 lestir og mundi það rýmka nokkuð um. Það er vitaskuld augljóst hagræði í að miða við tvö bestu árin, enda sveiflast afli smábáta oft nokkuð ört á milli ára og hámarkið er sem sagt verulega hærra en var í fyrri hugmyndum og kemur þannig til móts við afkastamestu smábátana.

Hafi útgerðaraðilar hins vegar ekki reynslu til að byggja á er gert ráð fyrir því að meðalaflahámark verði sett fyrir einstaka stærðarflokka. Í reglugerðardrögunum var gert ráð fyrir 50 lestum fyrir báta sem eru minni en 6 lestir, en nefndin telur að þetta hámark eigi að hækka í 55 lestir og er gert ráð fyrir 75 lestum fyrir þá sem eru milli 6 og 8 brl. að stærð, en 100 lestum fyrir þá sem eru yfir 8 rúmlestir og loks verði búinn til nýr flokkur fyrir alla stærstu bátana með 125 lesta meðalafla að hámarki. Þetta eru þeir bátar sem hafa stundum verið kenndir við 9,9 tonn.

Í lögunum sjálfum eða tillögunni til breytinga á lögunum koma fram nokkrar efnisbreytingar. Í fyrsta lagi er banndögum á línu- og handfærabáta fækkað á sumar- og haustmánuðum þannig að banndagar verði sjö í júní og október eins og verið hefur sl. tvö ár.

Í öðru lagi er lagt til að þeim bátum sem stunda færa- og línuveiðar verði gefinn kostur á að sæta veiðitakmörkunum með aflahámarki í stað banndaga ef þeir óska þess sjálfir. Þarna er þá kominn valkostur fyrir þá sem telja að hagstæðara sé fyrir sig að vera með tiltekið aflahámark. Aflahámark þeirra sem það kysu mundi í þessum tilvikum byggjast á eigin reynslu.

Í þriðja lagi er gert ráð fyrir því um allar þær útgerðir sem þorsknetaveiðar hafa stundað á árunum 1986 og 1987, að bátar undir 6 lestum eigi kost á leyfi til slíkra veiða áfram í stað þess að miðað sé einungis við þá sem leyfi fengu til netaveiða á árunum 1986–1987 eins og var gert ráð fyrir í frv. eins og það kom til deildarinnar. Hér munar allverulegu því að þorsknetaveiði smábáta var leyfisbundin frá 10. febrúar til 15. maí á sl. tveimur árum, en vitaskuld mun eitthvað um það að menn hafi stundað netaveiðar eingöngu utan þess tímabils og þeir hljóta þá samkvæmt þessu réttindi til þess að halda áfram að stunda netaveiðar. Skoðun nefndarinnar er sem sagt sú að þessir aðilar sitji við sama borð og hinir sem leyfis hafa aflað sér.

Þriðji þátturinn í brtt. varðar gildistímann. Umfjöllun um þetta frv. er ekki lokið enn og varð ekki lokið fyrir áramót eins og gert hafði verið ráð fyrir þegar frv. var lagt fram og þess vegna er nauðsynlegt að skýrt verði kveðið á um hvaða áhrif veiðar eftir áramót hafa. Leggur meiri hl. til breytingar á 21. gr. í þessu skyni sem gera ráð fyrir að sú veiði sem menn hafa náð fyrir gildistíma laganna verði innifalin í þeim aflamörkum sem um er að ræða.

Í nál. koma líka fram nokkur önnur viðhorf nefndarinnar sem ég tel rétt að skýra stuttlega frá. Í reglugerðardrögum sjútvrn. er við það miðað að þorskaflahámark báta sem velja sóknarmark og ekki byggja á eigin reynslu verði mishátt eftir útgerðarflokkum og stærðarflokkum innan útgerðarflokkanna með svipuðum hætti og verið hefur og hv. deildarmönnum er kunnugt. Meiri hl. telur að bátum sem eru 10–50 lestir að stærð í útgerðarflokki 2 sé ekki skipt niður í nægilega marga stærðarflokka og því geti lítill stærðarmunur valdið allt of miklum mun í þorskaflahámarki. Þannig hefur bátur sem er 49 lestir 200 tonna þorskaflahámark skv. reglugerðardrögunum, en bátur sem er stærri en 50 lestir 335 tonna þorskaflahámark og munar mjög verulega á þessum skurðpunkti. Minni hl. telur rétt að bæta úr þessu með því að fjölga stærðarflokkunum innan þessa útgerðarflokks og verði þeir þannig að 1. flokkurinn sé 10–15 lestir, sá næsti 15–20, síðan 20–25, 25–30, 30–40,40–50,50–90, 90–110, 110–200 og loks 200 og stærri. Það er skoðun meiri hl. nefndarinnar a.m.k. að þetta mundi vera mjög til bóta og auka sanngirni, eða draga úr ósanngirni ef menn vilja svo láta heita.

Meiri hl. tekur líka fram að hann telur að það beri að auka mjög eftirlit með veiðum og vinnslu á afla um borð í frystiskipum og stefna að fullnýtingu aflans þar. Stefnan eigi að vera sú að gera kröfur til þess að frystitogarar og reyndar öll fiskiskip komi með allan afla að landi. Að vísu verður það kannski að eiga sér nokkurn aðdraganda og ekki hægt að gera þær kröfur fyrr en fullar forsendur eru fyrir því, en þessi er sem sagt stefnumörkun meiri hl. nefndarinnar og vill hún koma því á framfæri.

Þá ræddi nefndin nokkuð ákvæði til bráðabirgða og atriði sem varða framkvæmd þessara laga, svokallaða samráðsnefnd. Meiri hl. er þeirrar skoðunar að við skipun þingflokka í endurskoðunarnefnd skv. ákvæðum til bráðabirgða sé rétt að fullt tillit sé tekið til þingstyrks þannig að þetta nálgist það að því er fulltrúatölu varðar að um sérstaka kosningu hefði verið að ræða. Í annan stað telur nefndin að þeir fulltrúar sem tilnefndir eru af þingflokkunum eigi að starfa sjálfstætt innan nefndarinnar, en slík viðhorf hafa komið fram hjá ýmsum innan deildarinnar.

Það er jafnframt skoðun meiri hl. að það sé nauðsynlegt að nefndin hefji störf þegar í stað, verði þegar skipuð og það sé æskilegt að hún skili áfangaáliti sem allra fyrst og helst þá innan árs. Meðal verkefna nefndarinnar er vitanlega að taka til skoðunar með hvaða hætti sé unnt að taka tillit til byggðasjónarmiða við stjórn fiskveiða og úthlutun veiðiheimilda, eins og fram kemur í greininni sjálfri og athugasemdum með henni, en góð vísa verður aldrei of oft kveðin. Þar á meðal koma þau atriði að dómi meiri hl. nefndarinnar til skoðunar sem hér hafa nokkuð verið til umræðu og umfjöllunar, það hve mjög geti þrengt að ákveðnum byggðarlögum ef skip eru seld úr þeim. Það eru vissulega atriði sem þarfnast sérstakrar skoðunar og meiri hl. bendir á það sjónarmið.

Að því er svokallaða samráðsnefnd varðar er meiri hl. þeirrar skoðunar að það sé nauðsynlegt að koma því formi á að samráðsnefndin eða ákvarðanir samráðsnefndarinnar komist til sjútvn. þingsins reglulega og meiri hl. telur að sjútvrh. eigi að skila árlega skýrslu til sjávarútvegsnefnda Alþingis um störf samráðsnefndanna eins og þau eru skilgreind í 15. gr.

Þetta, herra forseti, eru helstu atriðin í áliti meiri hl. sjútvn. og helstu atriðin í þeim brtt. sem meiri hl. nefndarinnar gerir.

Ég sagði í upphafi að þetta væri erfitt mál og flókið og ekki gengi kannski alveg þrautalaust að afgreiða það frá þinginu, en það er hins vegar held ég að allra okkar dómi orðið brýnt að málið fái afgreiðslu og skipað þeim lögum sem eiga að gilda um stjórn fiskveiðanna. En það er auðvitað eins og gerist og gengur þegar skoðanir eru skiptar og tekist á um mikla hagsmuni að ekki fá allir allar sínar óskir uppfylltar. Það gildir hvorki í þjóðfélaginu né innan þingsins. Þeir sem að meiri hl. standa hafa auðvitað teygt sig til samkomulags og ekki fengið sínar ýtrustu óskir samþykktar. En það er nú einu sinni vegur lýðræðisins að menn verða að ná saman höndum. Ég ætla að vona það, herra forseti, að menn nái nú höndum saman um þetta mál og það megi fá farsælar lyktir í þinginu.