05.01.1988
Neðri deild: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3596 í B-deild Alþingistíðinda. (2547)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 1. minni hl. sjútvn. (Matthías Bjarnason):

Herra forseti. Hv. 4. þm. Reykn. hafði framsögu fyrir meiri hl. sjútvn. og skýrði frá þeim breytingum sem meiri hl. leggur til að gerðar verði á frv. eins og það kom frá Ed. Ég mun til viðbótar við það sem frsm. sagði skýra frá því að öll nefndin átti aðild að því að ræða hugsanlegar brtt. og ég tel að ég sem formaður nefndarinnar hafi ekkert lagt minna af mörkum en meiri hl. nefndarinnar með allri virðingu fyrir honum í að fá þessum breytingum framgengt. Í viðræðum við ráðherra og ráðuneytisstjóra var rætt um drög að reglugerðum sem nauðsynlegt væri að leggja fram og sem hafa tekið breytingum eftir því sem frv. hefur tekið breytingum í meðferð þingsins. Allar þessar breytingar eru tilkomnar vegna eindreginna óska nefndarmanna. Það sem hér er prentað í áliti meiri hl. um breytingar á reglugerðinni eða um fleiri flokka í stærðarflokkum er gert af ráðuneytinu, komið til móts við eindregnar óskir nefndarmanna allra. Ég tel að þær breytingar sem ráðuneytið féllst á séu til bóta. Ég tel líka að breytingin á veiðum smábáta sé til verulegra bóta þó ég hefði viljað ganga nokkru lengra.

Eins og fram kemur í mínu nál. hef ég marglýst því yfir að ég væri fjarri því að vera talsmaður eða fylgjandi almennu kvótakerfi í fiskveiðum. Hins vegar hafði ég áhuga á því að allt yrði gert til að skapa sem víðtækast samstarf um afgreiðslu þessa mikilvæga máls hér á Alþingi. Ég var tilleiðanlegur til þess að ljá samþykki mitt við þetta frv., en þó að því tilskildu að komið væri til móts við skoðanir mínar og fjölmargra annarra varðandi gildistíma laganna, skýr ákvæði um endurskoðun um veiðar smábáta sem að nokkru leyti er tekið tillit til, veiðar á úthafsrækju, samráðsnefnd, aðstoð við byggðarlag þegar hætta er á byggðaröskun við sölu fiskiskipa úr byggðarlaginu o.fl. Þar sem meiri hluti nefndarinnar, sem hv. 4. þm. Reykn. var að tala fyrir, gat ekki komið til móts við mínar skoðanir sá ég mig tilneyddan til þess að slíta þessum „selskap“ með meiri hluta nefndarinnar og gefa út sérstakt nál. ásamt brtt. sem í meginatriðum eru samhljóða þeim brtt. sem formaður nefndarinnar í Ed. flutti þar, en þó hafa á einstaka tillögum verið gerðar breytingar vegna þess sem síðar hefur gerst.

Ég ætla að fara nokkuð yfir þau lög sem féllu úr gildi núna um áramótin og frv. eins og það liggur fyrir núna ásamt brtt. meiri hl. sjútvn. hv. Nd.

Við höfum margir verið á því að það ætti að draga eins og hægt er úr miðstýringu, m.ö.o. að minnka miðstýringu. Það ætti ekki að ákvarða stjórn fiskveiða með þessum hætti nema til skamms tíma í senn. Við setningu síðustu löggjafar lét Alþingi sig hafa það að láta þessa stjórnun og kvótafyrirkomulag gilda í tvö ár. Með þessu frv. eins og það er gert hefur þeim kvótamönnum tekist að knýja fram meiri hl. í Ed. og meiri hl. sjútvn. þessarar deildar til að ganga inn á þrjú ár. M.ö.o. það er búið að lengja þessar kvaðir og þessa skömmtun um 50% frá því að síðasta löggjöf var sett. Það er tekið inn mun strangara skömmtunarfyrirkomulag á mörgum sviðum en áður var. Það er tekið inn nýmæli um að fara skömmtunarhöndum um fleira en áður var. Litlu bátarnir voru frjálsir fram til þessa. Nú eru þessar kvaðir á þá settar. Í sjálfu sér get ég fallist á að nauðsynlegt hafi verið að setja á samdrátt víðast hvar, en ég held að þegar á heildina er litið sé það Alþingi sem á að setja lögin og bera ábyrgð á lögunum og í jafnmikilsverðu máli og þessu máli er brýn nauðsyn að reyna eftir fremsta megni að leita breiðrar samvinnu og samstöðu á hv. Alþingi en ekki knýja fram slíkt mál með meira eða minna bundnum höndum stjórnarliða gegn atkvæðum stjórnarandstæðinga.

Ég minnist þess sem ég gerði að umræðuefni við 1. umr. þessa máls að þegar frv. um fiskveiðilandhelgi Íslands var til umræðu hér var ég sjútvrh. og lagði það frv. fram. Ég taldi þá mjög þýðingarmikið að gera mjög verulegar breytingar á því frv., ekki af því að ég væri á því að gera þær líkt því allar heldur með tilliti til þess að fá aukna samstöðu í þinginu, ekki eingöngu á milli stjórnarþm. heldur á milli þm. almennt, bæði stjórnar og stjórnarandstöðu. Það tókst að koma þeirri löggjöf fram með næstum því fullri samstöðu á hv. Alþingi. Það tókst fyrir tveimur árum að koma fram frv. um stjórn fiskveiða með það fyrir augum að þetta ætti að gilda í takmarkaðan tíma og það ætti að endurskoða þessi lög að ári liðnu. Í lögunum sem féllu úr gildi um síðustu áramót voru mjög afgerandi endurskoðunaráform uppi þannig að það var skylt að endurskoða þessi lög innan eins árs og eins og segir, þá skal sjútvrn. fyrir 1, nóv. 1986 láta endurskoða lög þessi og hafa skal samráð við sjávarútvegsnefndir Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi við þá endurskoðun.

Þetta lá ekki fyrir og það er ekki fyrr en á sl. hausti sem farið er að tala um þessa endurskoðun og það í mjög fjölmennri ráðgjafarnefnd sem var ákaflega erfitt að vinna í bæði sakir fjölmennis í nefndinni og sömuleiðis að þar voru mjög skiptar skoðanir og tíðir árekstrar hinna ýmsu hagsmunahópa.

Það verður að segja eins og er að Alþingi hefur haft afar takmarkaðan tíma til að afgreiða þetta mál og þó var reynt að samstilla vinnu í nefndum Ed. og Nd. til að byrja með, en síðan tóku Ed.-nefndarmenn á sig mikla rögg sumir hverjir og afgreiddu málið frá sér og þurftu lítið og í sumum tilfellum ekkert við nefndarmenn í Nd. að tala. Það hefur ekki öllum þótt nauðsyn á að Alþingi hefði tíma til athugunar á þessu mikilvæga hagsmunamáli þjóðarinnar því að undir miðnætti á fyrsta degi sem Alþingi starfaði hér á milli hátíða þá sá Landssamband ísl. útvegsmanna nauðsyn á því að skrifa Alþingi svohljóðandi bréf:

„Stjórn Landssambands ísl. útvegsmanna vill vekja athygli yðar á því að fiskiskipaflotinn lætur úr höfn 2. janúar við eðlilegar aðstæður. Brýnt er að þá liggi fyrir á hvern veg fiskveiðistjórnun verði háttað. Í því frv. að lögum sem nú liggur fyrir Alþingi er gert ráð fyrir að útgerðarmönnum verði gert að velja milli sóknarmarks og aflamarks. Til þess að það val geti farið fram þarf að liggja fyrir reglugerð byggð á þeim lögum sem sett verða.

Með hliðsjón af ofansögðu leyfum vér oss að óska eftir að þér beitið yður sérstaklega fyrir því að það frv. um stjórnun fiskveiða, sem nú er til meðferðar á Alþingi, verði afgreitt sem lög fyrir áramót.

Virðingarfyllst,

f.h. Landssambands ísl. útvegsmanna.

Kristján Ragnarsson.

Til sjútvn. Nd. Alþingis.“

Með öðrum orðum er til þess ætlast af samtökum sjávarútvegsins að Alþingi afgreiði þetta viðamikla frv. á tveimur dögum sem þá voru til ráðstöfunar við vinnu hér á hv. Alþingi. Því var vísað til sjútvn. að morgni 29. des. og, eins og fram hefur komið, þá voru haldnir tveir fundir í nefndinni þann dag og næsta dag, síðasta starfsdag Alþingis fyrir nýár, var áfram haldið fundum í nefndinni. Eins og fram kom í máli frsm. meiri hl. hafa verið haldnir á þessum þremur starfsdögum sex fundir í nefndinni svo að ekki er hægt að segja að það hafi verið reynt að tefja fyrir málum, enda voru margir þessir fundir mjög langir.

Ég les þetta bréf Landssambands ísl. útvegsmanna upp til þess að sýna þingheimi og láta birta í þingtíðindum hversu ýmsir hagsmunaaðilar ætlast til að Alþingi geri og hvað þeir ætlast til að mikið mark sé tekið á Alþingi. M.ö.o.: Gjörið þið svo vel, afgreiðið flókið og mikilvægt mál á tveimur dögum og verið ekkert að kjafta um þetta og blaðra því að hér tölum við sem höfum valdið. Þetta finnst mér móðgun við löggjafarsamkomu þjóðarinnar, en hitt vildi ég reyna, og gerði, að hraða afgreiðslu þessa máls eins og kostur var á, enda hefði það engu breytt þó að nefndarmenn í sjútvn. Nd. hefðu bundið fyrir augun strax 29. des. og skrifað blindandi undir nál. Það hefði aldrei farið í gegnum þessa hv. þingdeild og því síður aftur til Ed. svo að það var algjörlega útilokað að verða við þessum hóflegu óskum Landssambands ísl. útvegsmanna.

Á þskj. 479 hef ég leyft mér að flytja brtt. við frv. og er 1. brtt. við 12. gr. um að þar bætist við tvær nýjar mgr. er verði 3. og 4. mgr. og orðist svo:

„Ráðherra getur ákveðið að rækjuafli, sem fluttur er óunninn til pillunar erlendis, skuli reiknaður með allt að 15% álagi þegar metið er hversu miklu af aflamarki eða aflahámarki skips er náð hverju sinni.

Ráðherra skal setja ákvæði í reglugerð um skiptingu á leyfðum úthafsrækjuafla á milli vinnslustöðva að höfðu samráði við Félag rækju- og hörpudiskframleiðenda.“

Fyrri tillagan er í samræmi við það álag sem er hægt að leggja á ísaðan fisk eða ferskan fisk sem fluttur er úr landi, að það komi sama álag á rækjuna og á ferskan fisk til þess m.a. að ef erlendir aðilar fara að kaupa hér ópillaða rækju, þá verði þeir að borga þennan skatt alveg eins og er með ísaða fiskinn. Varðandi svo reglugerðarákvæði um skiptingu á leyfðum úthafsrækjuafla á milli vinnslustöðva þá tel ég sjálfsagt og eðlilegt að slíkt sé gert. Það eru ákveðnir staðir á landinu sem eiga mjög mikið komið undir þessari vinnslu og hafa byggt sig upp á síðustu árum og sumir staðir á síðustu áratugum. Á ákveðnum stöðum hefur vinna úr úthafsrækju verið tekin upp áður en útgerð var tekin upp að neinu marki því að þá var flutt og keypt rækja af sovéskum skipum sem unnin var á þessum stöðum. Með tilkomu veiða okkar Íslendinga á úthafsrækju hafa ákveðnir staðir byggt sig upp til að vinna þessa framleiðslu. Þeir eru fyrst og fremst á Vestfjörðum og Norðurl. v., þar næst á Norðurl. e., lítillega á Reykjanesi og við Breiðafjörð, en sáralítið á öðrum stöðum. Það er því eðlilegt að tekið sé tillit til þeirrar sérstöðu sem þessi fyrirtæki öll hafa.

Ég tel að það sé að mörgu leyti gengið of langt í að tryggja loðnuskipum ákveðna hlutdeild í rækjuveiðinni eða allt að 12 þús. tonnum. Það er reiknað með að ráðuneytið heimili veiðar á allt að 36 þús. tonnum af úthafsrækju, en fiskifræðingar telja að það sé óvarlegt að reikna með meiri veiði en 30 þús. tonnum. Fari svo að ekki verði hægt að veiða meira magn en það sem fiskifræðingar leggja til, þá er búið að binda þriðjung af hugsanlegri veiði, sem fer þetta langt fram úr tillögu fiskifræðinga, til ákveðinna skipa. Ég tel því eðlilegt að þessar tillögur báðar, hvor á sína vísu, séu samþykktar. Ég tel líka mjög mikilvægt að með því næst gífurlega mikill árangur og nokkurn veginn mjög góð samstaða við alla þá aðila sem hér eiga hlut að máli.

Önnur brtt. mín á þskj. 479 er breyting við 4. mgr. 13. gr. frv., um að hún orðist svo:

„Heimilt er að flytja aflahámark sóknarmarksskipa milli skipa.“ — En í frv. er þetta óheimilt.

Búið er að gera afar mikla skerðingu á sóknarmarksskipum, þannig að ég tel að það sé ekki nema sjálfsagt og eðlilegt að þau fái heimild til þess að flytja aflahámark sín á milli alveg eins og aflamarksskipin mega gera. Ég vísa í þessu sambandi til þings Farmanna- og fiskimannasambands Íslands þar sem þingið leggur til að sóknarmarksskip fái að flytja til sín afla með óbreyttum sóknarmarksdögum án þess að það hafi áhrif á eigin aflareynslu eða aukningu á heildarafla.

Síðari tillaga mín við 13. gr., sem er 3. brtt. á þskj. 479, er að við bætist ný mgr. sem orðist svo:

„Sé skip með veiðiheimild selt úr byggðarlagi, sem að mestu byggir á fiskveiðum og fiskvinnslu, skal ráðherra heimilt að bæta viðkomandi byggðarlagi aflatapið þannig að veiðiheimildir þeirra skipa sem eftir eru verði auknar. Heimild þessari má þó því aðeins beita að sala skips valdi straumhvörfum í atvinnulífi og hætta sé á byggðaröskun af þeirri ástæðu.“

Það kom mér mjög á óvart að meiri hl. nefndarinnar skyldi ekki ganga inn á þessa sjálfsögðu og þröngu tillögu eins og hún er orðuð. Sérstaklega urðu mér það vonbrigði varðandi hv. 1. þm. Vesturl. sem átti sæti ásamt mér í síðustu ríkisstjórn. Við vorum þar alltaf sammála um það að þegar slíkar aðstæður kæmu upp í einstökum byggðarlögum væri nauðsyn að hafa slíka heimild, því að svarið sem við fengum þá og þeir aðrir sem vildu koma til móts við gífurlega erfiðleika í ákveðnum byggðarlögum, var það að heimild væri ekki fyrir hendi. Því hélt ég að það væri auðsótt og auðskilið að slík heimild yrði sett í löggjöfina. En einhverra hluta vegna brást þessi styrki liðsmaður. Hins vegar var farið nokkrum orðum um nauðsyn þess að athuga þær hugmyndir að einhverju leyti. M.ö.o. það átti að ganga frá þessum lögum með nákvæmlega sama hætti, þannig að þegar slíkt ástand skapaðist í einhverju ákveðnu byggðarlagi þá væri hægt að segja nákvæmlega það sama og sagt var á ríkisstjórnarfundi hjá fyrri ríkisstjórn, sem og annars staðar: að heimild væri ekki fyrir hendi. Nú virðist það nægja til þess að friða samvisku einhverra manna að það sé japlað á þessu í framsögu.

Hv. þm. vita aldrei hvenær röðin kann að koma að einhverju ákveðnu byggðarlagi í kjördæmi hvers og eins. Ég ætla því að vona að það losni um bönd á höndum einhverra þm. þegar þessi tillaga kemur til atkvæða og menn láti ekki bjóða sér það að hafa enga slíka heimild lengur.

Fjórða brtt. mín er við 15. gr., um að hún orðist svo:

„Sérstök samráðsnefnd skal fjalla um álita- og ágreiningsmál varðandi veiðileyfi, aflamark og sóknarmark samkvæmt lögum þessum og reglugerð settri samkvæmt þeim. Í nefndinni eiga sæti fimm menn. Þrír skulu kosnir af Alþingi, einn tilnefndur sameiginlega af samtökum sjómanna og einn tilnefndur af samtökum útvegsmanna. Ráðherra skipar formann nefndarinnar. Samráðsnefnd skal kappkosta að leysa öll ágreiningsefni sem til hennar er vísað. Verði nefndarmenn ekki á eitt sáttir skal deiluefnið borið undir ráðherra til úrskurðar.“

Hér er um breytingu að ræða frá því sem var í löggjöfinni sem rann sitt skeið á enda á gamlársdag á þann veg að í staðinn fyrir nefnd þriggja manna verði þeim fjölgað í fimm. Það verði óbreytt ákvæði um fulltrúa sjómanna og útvegsmanna, sem eru tveir í nefndinni, en sá þriðji, sem er skipaður af sjútvrh., verði ásamt tveimur nefndarmönnum til viðbótar kjörinn af Alþingi.

Ég vil benda á það hér að Alþingi er að framselja mikið vald til framkvæmdarvaldsins, mjög mikið vald og í vaxandi mæli. Það hefur oft verið umdeilt bæði í tíð þessarar ríkisstjórnar sem og annarra ríkisstjórna. Mér finnst því ekkert óeðlilegt við það að löggjafinn, sem er að framselja slíkt vald, vilji tryggja sér aðild að því hvernig þessu valdi er framfylgt. Það er enginn að draga í efa eða falla frá því að yfirstjórn þessara mála heyri undir sjútvrh. sem fer með yfirframkvæmd þessara laga.

Fimmta brtt. er við 21. gr. og felur í sér að lög þessi öðlist þegar gildi og gildi til 31. des. 1989 í staðinn fyrir það sem er í frv., til 31. des. 1990. Að öðru leyti er þessi brtt. frá orði til orðs samhljóða brtt. þeirri sem meiri hl. nefndarinnar flytur, enda er viðbótin, sem kom frá sjútvrn. vegna þess að málið var ekki afgreitt fyrir áramót, eðlileg og sjálfsögð í alla staði.

Frsm. meiri hl. sjútvn. ræddi um að það væri nauðsynlegt að skipa nefnd til þess að endurskoða lögin og sú endurskoðun lægi sem fyrst fyrir. Ég spyr: Hver er munurinn á afstöðu minni og meiri hl. í þessu efni? Ég vil bara setja það fram skýrt og skorinort hvernig þessi nefnd á að vera og að hverju hún á að vinna. Þess vegna flyt ég tillögu um að ákvæði til bráðabirgða I sé svohljóðandi:

„Alþingi kýs hlutfallskosningu nefnd níu manna til að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar og nýtingu fiskstofna að loknum gildistíma laga þessara. Sjávarútvegsráðherra skipar formann nefndarinnar.

Að ári liðnu skal nefndin leggja fyrir Alþingi bráðabirgðaálit á fiskveiðistefnunni ásamt tillögum um breytingar á lögum þessum telji hún það nauðsynlegt. Nefndin skal kanna eftirfarandi:

1. Áhrif laga þessara á afkomu einstakra byggðarlaga; byggðaþróun í landinu og sjávarútveg.

2. Áhrif gildandi stjórnar á fiskstofnana, afrakstur þeirra og hagkvæmni veiða.

Í starfi sínu skal nefndin kynna sér rækilega hvaða áhrif fiskveiðistefna undanfarinna ára hefur haft á byggðarlög, fiskstofna og sjávarútveg.

Nefndin skal kynna sér eftir því sem föng eru reynslu annarra þjóða af þeirra eigin fiskveiðistjórn. Hún skal leita álits og ráðgjafar hjá þeim sérfræðingum, stofnunum og hagsmunaaðilum, innan lands sem utan, sem hún telur þörf á þannig að starf hennar skili sem bestum árangri við mótun sveigjanlegrar fiskveiðistefnu til framtíðar.“

Hvað er á móti því að setja ákveðin ákvæði sem þessi? Með kosningu níu manna í nefnd er það tryggt að allir þingflokkar eigi fulltrúa í þessari nefnd. Það eru engin ákvæði um það að það þurfi endilega alþm. að vera í nefndinni. Flokkarnir hafa þar frjálst val um val á hæfustu mönnum til þess að móta slíka stefnu til frambúðar. Því á að hafa þetta í lausu lofti? Því á að hafa þetta eins og það er núna í ákvæðum til bráðabirgða að það geti verið að það sé í hendi eins og sama manns, sjútvrh., að skipa eins marga menn í nefnd og honum sýnist? Maður veit ekkert eftir eitt ár, tvö ár, þrjú ár hvort þessi ríkisstjórn situr eða ekki. Það getur margt gerst í þeim efnum. Því held ég að það sé hyggilegast af því Alþingi sem setur þessi lög að það búi þannig um hnútana að það sé öruggt að endurskoðun fari fram og þá með líkum hætti sem þessum. Ég bauð nefndarmönnum í sjútvn. Nd. að ráða frekara orðalagi bæði þessarar tillögu sem allra annarra tillagna ef þeir vildu finna eitthvert annað og betra orðalag. Ég ætlaði ekki að halda mér stíft við það orðalag sem ég og formaður nefndarinnar í Ed. komum okkur saman um. En allt kom fyrir ekki. Ástæðuna veit ég ekki. Þrátt fyrir góð orð í þessum efnum náði þetta ekki lengra og þessi atriði gerðu það að verkum að ég gat ekki staðið að áliti meiri hl. nefndarinnar.

7. brtt. mín er sú að á eftir ákvæði til bráðabirgða I komi nýtt ákvæði er orðist svo:

„Skip sem koma í stað eftirtalinna skipa, er fórust á árunum 1983–1984, skulu eiga rétt á veiðileyfi sem sé meðaltal aflamarks skipa í sama stærðarflokki: Brimnes SH-257, Haförn SH-122, Hafrún ÍS-400, Bakkavík ÁR-100, Ragnar Ben ÍS-210, Kári VE-95, Þórunn ÞH-255, Hellisey VE-503, Sæbjörg VE-56 og Sóley SK-8.“

Hér er um að ræða tvö loðnuskip. Annað fórst 2. mars 1983, 415 brl. en hitt fórst eða strandaði 17. des. 1984, 312 lestir. Af hinum átta skipunum eru fjögur frá 11 og upp í 30 tonn. Það eru nú öll ósköpin. Síðan er eitt 75 tonna, eitt 88 tonna og tvö eru 101 tonn og 103 tonn. M.ö.o.: Hér er um að ræða báta sem hafa orðið eiginlega á milli stafs og hurðar. Ég held að það sé rétt að rifja hér upp að allar ráðstafanir ráðuneytisins hafa orðið til að útiloka eigendur þeirra skipa sem fórust á þessum tíma, árin 1983 og 1984, þær ráðstafanir eru gerðar í skjóli reglugerða og með samþykki hagsmunaaðila sem vilja sitja einir að kvótanum og vísað er á samráðsnefnd um stjórn fiskveiða.

Fyrstu kvótalögin, nr. 82 frá 28. des. 1983, tóku gildi 1. jan. 1984. I þeim lögum fær ráðherra í fyrsta sinn í sögunni heimild til að binda botnfiskveiðileyfi við ákveðin skip. Áður en þau tóku gildi var auglýst að þeir aðilar sem misst höfðu skip sín yrðu að vera búnir að semja um nýsmíði eða kaup fyrir 1. jan. 1984. Á hvaða lögum byggðist þessi auglýsing? Var hún réttmæt? Aðilar höfðu aðeins fjóra daga, frá 28. des. til og með 31. des. 1983, til að ákveða sig með skipakaup eða nýsmíði. Reglugerð nr. 44/1984, gefin út 8. febr. það ár, var afturvirk. Í reglugerðinni er kveðið á um útilokun þeirra skipa, sem horfið höfðu úr rekstri, frá því að fá veiðileyfi. Eigendur þessara báta voru sviptir möguleika á að endurnýja sín skip þrátt fyrir að hafa verið í útgerð öll viðmiðunarárin. Hvernig áttu menn að semja á þessum stutta tíma? Hvernig var hægt að semja undir slíkum afarkostum? Á sínum tíma var innflutningur skipa bannaður og,engin lán veitt úr Fiskveiðasjóði.

Í 3. gr. reglugerðar um stjórn botnfiskveiða, nr. 1 frá 1985, er kveðið nánar á um að eigendur nefndra tíu skipa fái ekki rétt til endurnýjunar þar sem þau höfðu ekki botnfiskleyfi á árinu 1984 þrátt fyrir að hafa verið í útgerð öll viðmiðunarár kvótakerfisins. Enn er vitnað í samráðsnefnd af hálfu sjútvrn.

Í 3. gr. laga um stjórn fiskveiða 1986–1987 kveður enn nánar á um sviptingu heimilda til endurnýjunar og aðeins þau skip er höfðu leyfi 1985 fengu leyfi á árunum 1986 og 1987. Þar með voru nefndir bátar eða útgerðir þeirra endanlega útilokaðar frá fiskveiðum vegna bátanna.

Ég tel því fulla nauðsyn á því að eigendur þessara skipa, þ.e. þeir sem áhuga hafa á því að endurnýja skipin, fái slíka heimild inn í lögin, en láti ekki þetta ganga þannig lengur fyrir sig. Sumir þessir aðilar töluðu held ég við alla þingflokka eða a.m.k. flesta þingflokka, fengu að koma þar inn á fundi til að skýra sitt mál. Og þeir hafa sagt mér það að þeim hafi alls staðar verið tekið ljúfmannlega. En þeir byggja ekki eða kaupa skip út á ljúfmennskuna eina og því er þessi tillaga flutt að ég vil láta á það reyna hvort ljúfmennskan nær eitthvað lengra en þetta. Þá geta menn séð það svart á hvítu hverjir meina það þegar þeir eru ljúfir í máli og hverjir ekki.***

Síðasta brtt. leiðir af annarri brtt. Hún er um að fyrirsögnin breytist í „Frv. til l. um stjórn fiskveiða 1988–1989.“

En af því að hæstv. sjútvrh. er svo sem eðlilegt er viðstaddur þessa umræðu, þá láðist mér þegar ég var að skýra fyrstu brtt. að skýra frá því að ég hefði talið sanngjarnt að breyta um leið þeim reglugerðardrögum sem fjalla um veiðar á úthafsrækju í þá átt að ef tillaga mín yrði samþykkt, um það að allur rækjuafli, sem fluttur er erlendis og ætlaður til pillunar þar, reiknist til aflamarks og aflahámarks með 15% álagi, verði gerð sú breyting á 5. gr. reglugerðarinnar að í stað „stærri en 290 brúttólestir“ í lok a-liðar 1 mgr. komi: stærri en 230 brúttólestir. Það eru sennilega fjögur skip, sem að verulegu leyti stunduðu rækjuveiðar, sem hér eiga þá hlut að máli og mundu falla undir þetta. Það eru Haffari, sem er 230 rúmlestir, Sigurður Pálmason, 274, Stakkanes 250 og Gunnjón 275.

Ég ætta ekki að hafa þessi orð miklu fleira. Ég gæti auðvitað mikið um þessi mál talað og í löngu máli. Ég hef enga löngun til þess að tefja fyrir afgreiðslu málsins þó að ég sé mjög ósáttur við afgreiðslu meiri hl. sjútvn. deildarinnar.

Ég vil nota tækifærið til að þakka ráðuneytinu fyrir það að fulltrúi þess var alltaf reiðubúinn að koma á fund nefndarinnar og skýra þau reglugerðardrög sem hafa verið unnin. Það er mikil vinna á bak við þau drög öll og fyrir það vil ég þakka og þá samvinnu sem var bæði við starfsmenn ráðuneytis og ráðherra.