05.01.1988
Neðri deild: 46. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3630 í B-deild Alþingistíðinda. (2550)

181. mál, stjórn fiskveiða

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Ég vil í upphafi máls míns þakka nefndarmönnum í sjútvn. fyrir samstarfið og formanninum sérstaklega þó það hafi verið stutt því ég kom ekki inn í þessa nefnd fyrr en milli jóla og nýárs þannig að samstarfið var stutt en ánægjulegt.

Þetta frv. um stjórn fiskveiða á næstu árum tekur til viðamikilla þátta sem snerta daglegt líf allra Íslendinga. Auðlindirnar í hafinu umhverfis landið eru sameign allrar þjóðarinnar. Það er því ljóst að taka verður tillit til margra sjónarmiða þegar tekin er ákvörðun um svo veigamikið mál sem skipulag og stjórn á nýtingu þessarar dýrmætu auðlindar.

Í 1. gr. frv. segir að fiskistofnarnir á Íslandsmiðum séu sameign þjóðarinnar. Í stefnuskrá Kvennalistans segir svo, með leyfi forseta:

„Lífríki hafsins er ein dýrmætasta auðlindin sem við Íslendingar höfum aðgang að. Þessa auðlind, sem er eign allrar þjóðarinnar, verðum við að umgangast þannig að ekki sé hætta á ofnýtingu.“

Kvennalistinn getur því vel tekið undir þá stefnumarkandi yfirlýsingu sem fram kemur í 1. gr. frv., en þá er líka nánast allt upp talið sem hægt er að taka undir í frv.

Sú tilhögun að úthluta veiðiheimildum gefins beint til einstaklinga og útgerðarfélaga, sem geta ráðskast með þær í eigin hagsmunaskyni, hlýtur hins vegar að vera í mótsögn við yfirlýsinguna um þjóðareign. Þannig eru allar aðrar greinar frv. í mótsögn við 1. gr.

En það er ekki bara þetta í frv. sem vekur athygli því að ef flett er í gegnum þetta frv. er nánast í hverri einustu grein fyrir utan þá fyrstu talað um annaðhvort að sjútvrh. skal, ráðherra er heimilt, ráðherra má ákveða í reglugerð, ráðherra getur ákveðið, ráðherra skal með reglugerð, nánari ákvörðun ráðherra o.s.frv. Þannig að það er nánast sama hvert litið er í þessu frv. Allt vald er flutt til ráðherra.

Hv. 5. þm. Norðurl. v. Jón Sæmundur Sigurjónsson talaði um í sinni ræðu við 1. umr. að heimild til ráðherra væri 25 sinnum nefnd í álitinu. Ég taldi nú enn þá fleiri skipti, en ég læt liggja á milli hluta að fara nánar út í það. En þetta er langt frá því að vera nokkuð í líkingu við það sem Kvennalistinn telur vera við hæfi því að þarna er verið að boða mikla miðstýringu.

Tillögur Kvennalistans ganga hins vegar út á það að veiðiheimildum verði úthlutað til byggðarlaga sem úthluta síðan veiðileyfum eftir aðstæðum á hverjum stað. Þetta mundi þýða mikla valddreifingu. Þannig yrðu sveitarfélögin sjálf látin meta hverjir ættu helst að fá veiðileyfi og hversu mikið því að valddreifing er ekki fólgin í því að ráðherra segi öðrum hvað þeir eiga að gera. Þetta mundi líka auka sjálfstæði sveitarfélaganna sem hefur verið talað heilmikið um hér. Er m.a. verið að ræða í deildinni frv. til l. um breytingu á verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga. Þar er talað um að markmið með því frv. sé að auka sjálfstæði sveitarfélaganna. En þó að ég sé ekki sammála því að það sé gert með því frv. sem þá var lagt fram er frv. um stjórn fiskveiða a.m.k. mjög langt frá því að vera neitt í líkingu við það sem hægt er að kalla aukna valddreifingu eða aukið sjálfstæði sveitarfélaga.

Tillögur Kvennalistans ganga líka út á að klippa á sambandið milli veiðiheimilda og skips. Nú er það þannig að skip seljast fyrir svimandi upphæðir vegna veiðiheimildanna en ekki vegna þess að skipin þurfi endilega að vera svo góð. Það er sem sagt verið að selja fiskinn sem enn syndir í sjónum og er eign okkar allra. Er því mjög undarlegt að þetta skuli vera heimilt þegar tekið er mið af 1. gr. í þessu frv. eins og ég sagði áðan.

Salan á þessum skipum eða réttara sagt fiskinum í sjónum getur þess vegna valdið mikilli byggðaröskun og hefur reyndar nú þegar gert það. Það er ákvörðun einstakra manna hvort heilu byggðarlögin missa e.t.v. sitt eina atvinnutæki. Það er eiginlega flest sem mælir á móti því að hafa veiðiheimildirnar eingöngu tengdar skipunum. Það hefur líka heyrst, og ég sel það ekki dýrara en ég keypti, að þeir sem hafi fengið veiðiheimildir án endurgjalds hafi síðan getað selt þær, hætt við útgerð og lifi síðan góðu lífi af því sem þeir hafa fengið fyrir kvótann.

Ég velti því fyrir mér hvernig skattlagningu er háttað á afrakstri þessa kvóta og get beint því til fjmrh. að það sé ein leið til að auka tekjurnar í ríkiskassann að athuga aðeins hvernig er háttað þessari kvótasölu. Það má spyrja að því hvort lagður sé söluskattur á kvótann.

Sú grein sem hefur langmest verið fjallað um er núverandi 10. gr. í frv. eins og það kemur frá Ed. og hefur hún langmest verið til umræðu bæði í þinginu og eins fyrir utan. Í sjútvn. var hún líka langmest til umræðu. Þær breytingar sem nú er lagt til að gerðar verði á henni eru kannski í áttina, en sú till. sem kemur fram frá meiri hl. nefndarinnar er hálfgerð magalending eftir þær umræður sem voru þó í nefndinni og maður hélt að mundu leiða til einhvers, ekki síður með tilliti til þeirra umræðna sem fóru fram við 1. umr. um þessa grein þar sem margir, ekki bara stjórnarandstaðan heldur margir stjórnarliðar, lýstu sig andvíga greininni eins og hún var. Hún er nú lítið breytt þannig að hún er undarleg sú niðurstaða sem varð hjá meiri hl. nefndarinnar.

Það má líka spyrja: Hvers vegna þurfa smæstu bátarnir endilega að falla undir kvóta? Af hverju þurfa þeir endilega að vera líka með? Það er mjög lítill hluti af aflanum sem þeir veiða og hlutdeild þeirra í auknum afla hefur heldur ekki aukist þrátt fyrir aukinn fjölda báta eftir þeim upplýsingum sem við höfum undir höndum. Í gögnum frá ráðuneytinu kemur greinilega fram að hlutdeild þeirra hefur ekki aukist þó bátafjöldinn hafi aukist mikið.

Það er talið að þessi útgerð sé miklu hagkvæmari en önnur og að betri afli komi á land úr þessum bátum. Ekki er hægt að sjá að þarna sé um verndunarsjónarmið að ræða. Það er ekkert sem styður það. Þannig er erfitt að sjá neitt sem mælir með kvóta á þessa báta. Ekki er hægt að sjá að þarna sé verið að hugsa um aukið öryggi. Það er frekar hið gagnstæða, að það sé miklu meiri hætta á því að þeir sem er núna bannað að róa á ákveðnum dögum, sem hefur fjölgað mjög mikið frá núgildandi lögum, fari þá frekar að róa í slæmum veðrum. Má benda á það sem kom fram í samtali við Harald Jóhannsson, trillukarl úr Grímsey, í Morgunblaðinu 3. janúar, en þar segir hann, með leyfi forseta, þegar hann er að tala um banndagana:

„Þetta kemur mjög harkalega út í Grímsey. Í gegnum tíðina hefur veðráttan sett á okkur 270–280 banndaga á ári á handfærum. Okkur hefur fundist óþarfi að bæta á þessa banndaga af ráðuneytinu úr Reykjavík. Mikill hluti þessara daga kemur á versta tíma fyrir okkur.“

Það er mikil hætta á því að úr því að þessir banndagar koma að auki fari menn að fara frekar út í viðsjárverðum veðrum.

Það er líka annað, að það er meiri hætta á því að þeir fari að róa einir sem hafa þó verið tveir eða fleiri saman á báti. Og það er líka slæm aðstaða í höfnum víða um land. Hún er þannig sums staðar að það er eingöngu hægt að hafa smábáta. Við getum tekið sem dæmi Arnarstapa, Grímsey, Bakkafjörð og Borgarfjörð eystri þar sem hafnaraðstaða er þannig að þar er ekki möguleiki að vera með annað en smábáta. Það eru litlar horfur á því að þetta muni batna. Þó það sé örlítil aukning til hafna í fjárlögum er alls ekki nein von til þess að aðstaðan batni á þessum stöðum.

Það hefur stundum verið talað um að við sem erum andvíg 10. gr. séum að daðra við trillukarlana. En þegar betur er að gáð er spurningin: Hver er að daðra við hvern og hverra hagsmuna er verið að gæta? Eru það kannski „hákarlarnir“ í málinu sem verið er að reyna að koma til móts við fremur en „smáfiskana“?

Ef tekið verður tillit til tillagna Kvennalistans í málinu væri þetta ekkert vandamál. Byggðarlögin yrðu sjálfráð um hvernig veiðiheimildunum yrði deilt út, allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Þá yrði að taka tillit til allra hagsmunaaðila. Það gleymist nefnilega stundum að fleiri eiga hagsmuna að gæta en útgerðarmenn og sjómenn. Þeir sem fiskinn vinna í landi vilja oft gleymast í þessu sambandi. Ráðstöfun aflans er ekki mál útgerðar- og sjómanna einna heldur líka fiskvinnslufólksins.

Í frétt í Morgunblaðinu 31. des. 1987 um verðmæti sjávarafla kemur fram að það hefur aldrei verið meira en nú og talað er um að hækkunin sé um 20% í krónum talið. Og hver hefur notið þessarar aukningar? Eflaust má rekja þetta að einhverju leyti til bættrar meðferðar og vinnslu og aukinnar menntunar fiskvinnslufólks sem þrátt fyrir allt þetta býr við alls óviðunandi launakjör og starfsskilyrði. Fiskvinnslan og þeir sem að henni starfa vilja oft gleymast í umræðunni. En það er einmitt þetta fólk, sem að stærstum hluta eru konur, sem vinnur það mikilvæga starf að auka verðmæti aflans. Þrátt fyrir aukinn útflutning með ferskan fisk og hærra verð fyrir hann en nokkru sinni fyrr er sá markaður, sem byggður hefur verið upp vestan hafs, okkar öruggi og tryggi markaður, ekki hvað síst vegna sífellt betri og vandaðri vinnubragða í fiskvinnslunni. Þetta er engan veginn metið og umræðan um fiskveiðistefnuna snýst allt of mikið um þá sem veiða fiskinn og þá sem er afhentur fiskurinn gefins og ráðskast með hann að eigin vild og geta siglt og selt í vinnslu eða hreinlega selt fiskinn sem enn þá syndir í sjónum eins og ég sagði áðan. Er ekki kominn tími til að meta störf fólksins í fiskvinnslunni, bæði með því að tryggja því ávallt hráefni og þar með atvinnuöryggi og mannsæmandi laun og starfsskilyrði? Það er því út í hött að tala um hagsmunaaðila og meina aðeins þröngan hóp manna. Öll íslenska þjóðin á hagsmuna að gæfa í þessu máli.

Ef ekki verður fallist á brtt. Kvennalistans mun ég styðja flestar af þeim brtt. sem fram koma á þskj. 479., brtt. hv. 1. þm. Vestf. Ef ég tek aðeins till. nr. 3 á því blaði hljóðar hún svo, með leyfi forseta:

„Sé skip með veiðiheimild selt úr byggðarlagi, sem að mestu byggir á fiskveiðum og fiskvinnslu, skal ráðherra heimilt að bæta viðkomandi byggðarlagi aflatapið þannig að veiðiheimildir þeirra skipa sem eftir eru verði auknar. Heimild þessari má þó því aðeins beita að sala skips valdi straumhvörfum í atvinnulífi og hætta sé á byggðaröskun af þeirri ástæðu.“

Þó mér finnist till. ganga aðeins of skammt og það geti reynst erfitt að meta hvort sala á skipi valdi straumhvörfum í atvinnulífi og hætta sé á byggðaröskun af þeirri ástæðu finnst mér þó þessi till. vera mjög í þeim anda, sem Kvennalistinn hefur viljað, að taka meira tillit til byggðarlaganna og þar af leiðandi munum við styðja þessa till. ef ekki verður fallist á okkar till. sem ég tel frekar ólíklegt núna. Ég tel þessa till. þess vegna mjög nauðsynlega inn í frv. sem hér liggur fyrir.

Ég vil einnig minnast á gildistíma laganna sem kemur fram í 5. till. á sama þskj. Eins og fram kemur í okkar till. höfum við talað um fimm ára gildistíma, en það er að sjálfsögðu miðað við að till. okkar verði samþykktar. En frv., sem við erum að fjalla um núna, er nánast það sama eða kannski heldur verra en núgildandi lög og þess vegna mun ég styðja till. um eins árs gildistíma eins og gert er ráð fyrir á till. hv. 1. þm. Vestf.

Í ákvæði til bráðabirgða með frv. er talað um að skipa nefnd samkvæmt tilnefningu þingflokka og helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi. Ef litið er aðeins nánar á þetta og litið á núgildandi lög kemur í ljós að í ákvæði til bráðabirgða stendur, með leyfi forseta:

„Sjútvn. skal fyrir 1. nóv. 1986 láta endurskoða lög þessi. Hafa skal samráð við sjútvn. Alþingis og samtök helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi við þá endurskoðun.“

Þetta var ekki gert. Þess vegna finnst mér ekkert líklegra — þó maður geti alltaf vonað — að sjútvrh. þurfi endilega að fara eftir þessu bráðabirgðaákvæði þó ég sé jákvæð ef það er meiningin að gera þetta og gera það fljótt. Þess vegna styð ég frekar þá brtt. sem kemur frá 1. þm. Vestf. þar sem segir í 6. till. um ákvæði til bráðabirgða, með leyfi forseta:

„Alþingi kýs hlutfallskosningu nefnd níu manna til að undirbúa tillögur um fyrirkomulag fiskveiðistjórnar og nýtingu fiskstofna að loknum gildistíma laga þessara. Sjútvrh. skipar formann nefndarinnar.

Að ári liðnu skal nefndin leggja fyrir Alþingi bráðabirgðaálit á fiskveiðistefnunni ásamt tillögum um breytingar á lögum þessum telji hún það nauðsynlegt. Nefndin skal kanna eftirfarandi:

Áhrif laga þessara á afkomu einstakra byggðarlaga, byggðaþróun í landinu og sjávarútveg.

Áhrif gildandi stjórnar á fiskstofnana, afrakstur þeirra og hagkvæmni veiða.

Í starfi sínu skal nefndin kynna sér rækilega hvaða áhrif fiskveiðistefna undanfarinna ára hefur haft á byggðarlög, fiskstofna og sjávarútveg.

Nefndin skal kynna sér eftir því sem föng eru reynslu annarra þjóða af þeirra eigin fiskveiðistjórn.“

Það er líka gert ráð fyrir hérna, ég hirði ekki að lesa það, að hafa samráð við sérfræðinga og hagsmunaaðila.

Ég tel að þetta sé bæði miklu betra orðalag á greininni og líka gert ráð fyrir að Alþingi kjósi níu manna nefnd þannig að allir þingflokkar ættu þá að eiga aðild að henni og hún mundi eiga að skila áliti eftir eitt ár. Ég er líka ánægð með það sem á að taka tillit til, eins og að taka tillit til byggðarlaganna og byggðaþróunar í landinu. Það er því miklu fyllra og betra að samþykkja ákvæði til bráðabirgða eins og það er orðað þarna en eins og það er í frv. eins og það liggur fyrir. Ég vænti þess að það verði reynt að sameinast um það og tel það vera mikið til bóta ef þessi nefnd verður kosin eins og þarna er gert ráð fyrir.

Það kom m.a.s. fram í útvarpsþætti, ég man ekki reyndar nákvæmlega hvaða dag það var, að einn af fulltrúum þessara svokölluðu helstu hagsmunaaðila eða líklega allra helsti hagsmunaaðili, Kristján Ragnarsson, sagði að hann væri á móti því að það væri blandað saman hagsmunaaðilum og þingmönnum. Ég held því að það geti allir fallist á að breyta skipan nefndarinnar eins og gert er ráð fyrir í þessari till.

Það hafa komið fram ýmsar hugmyndir til lagfæringa og breytinga á núgildandi kerfi án þess að á það hafi verið hlustað. Það er eitt af því sem maður hefur einhverjar efasemdir um varðandi nefndaskipan ef það er fyrir fram ákveðið að engu skuli breytt og að það skuli vera líka ákveðið að það sé einn ákveðinn maður sem hafi svo mikið vald að engu skuli breytt nema hans samþykki liggi fyrir eins og ég hef á tilfinningunni. Því var haldið fram í einu dagblaðanna af hæstv. utanrrh. að engu skuli breytt í þessu nema með samþykki hæstv. sjútvrh. Það þykir mér ansi hastarlegt og spyr: Hvers vegna er þá yfirleitt verið að reyna að hafa áhrif til bóta ef það má ekki gera það nema einn maður, þá líklega einhver einræðisherra, sé því samþykkur? Ég vona að það sé ekki rétt, en hef það á tilfinningunni. Ég held þó að þetta hljóti að hafa verið einhver misskilningur og vona að svo hafi verið og það verður þá væntanlega leiðrétt ef vitlaust er eftir haft í þessu dagblaði.

Mér þykir leitt, herra forseti, ef við þurfum enn að ræða eitt svo mikilvægt mál, mesta hagsmunamál þjóðarinnar, án þess að hæstv. ríkisstjórn sé nærri, að undanteknum hæstv. sjútvrh., og ekki virðast heldur margir aðrir hv. þm. stjórnarflokkanna ætla að slíta sér út á að hlusta á það sem sagt er í deildinni um þetta mái. Það eru að vísu nokkrir hér núna, mjög ánægjulegt að sjá þá. Hvar eru allir sem þóttust vera óánægðir með frv. þegar það var lagt fram í deildinni og kemur nú fram nærri því óbreytt? Eru þeir kannski týndir eða eru þeir einhvers staðar úti í horni að ákveða að greiða þessu frv. atkvæði þó þeir hafi lýst sig mjög óánægða með það? Það voru nokkrir þm. stjórnarflokkanna sem lýstu sig andsnúna frv. við 1. umr. Þeir virðast vera horfnir nema einn héðan úr þingsalnum. Ég vonast til að heyra betur álit þeirra, en ætla ekki að hafa þetta mál lengra núna.