05.01.1988
Efri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3644 í B-deild Alþingistíðinda. (2563)

196. mál, söluskattur

Frsm. fjh.- og viðskn. (Halldór Blöndal):

Herra forseti. Ég er að vísu ekki eins vel að mér í fjárlögum og hæstv. fjmrh. og hef raunar ekki áður heyrt talað um hvað átt sé við með því að fjárhæðir séu verðtryggðar í fjárlögum, en hitt þykist ég vita að ákveðinn reikningur sé lagður til grundvallar þegar settar eru inn fjárhæðir í fjárlög og þá lagt til grundvallar að ákveðin verðþróun og launaþróun eigi sér stað í landinu. Ég geri ráð fyrir því, vegna þess að ég hef ekki heyrt annað og ég hef kynnt mér það hjá nefndarmönnum í fjvn., að svo sé um þessar tölur einnig, að þær séu ákveðnar með hliðsjón af líklegri verðþróun á árinu hvað varðar landbúnaðarvörur. Ef það er hins vegar rétt hjá hæstv. fjmrh. að hugsunin sé sú að krónutala í niðurgreiðslum sé þegar í stað ákveðin og verði í hans huga óbreytt það sem eftir lifir ársins eru það gagnlegar upplýsingar, en það er ekki þar með sagt að víst sé að öllum þeim þm. sem lýst hafa stuðningi við stjórnina þyki það hollar eða góðar upplýsingar. Ég fullyrði að ekki fer einum sögum um þetta efni. Ég sætti mig ekki við þann skilning sem hæstv. fjmrh. hefur hér lýst og segi það alveg hiklaust sem mína skoðun að stuðningur minn við þetta frv. var m.a. bundinn því að þessar greiðslur mundu hækka í takt við verðlagningu almennt á þeim vörum sem hér um ræðir. Ég vil að þetta komi skýrt fram við þessa umræðu til þess að menn þurfi ekki að vera í vafa um mína afstöðu.