05.01.1988
Efri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3645 í B-deild Alþingistíðinda. (2568)

196. mál, söluskattur

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Matarskatturinn er í fyrsta lagi ranglátur skattur, skattur sem er í fullkominni andstöðu við sjónarmið og grundvallarforsendur jafnaðarstefnunnar. Í öðru lagi tekur frv. ekki á hinum raunverulega vanda sem uppi er varðandi söluskattssvik í landinu. Í þriðja lagi felur frv. í sér staðfestingu á þeirri skattpíningarstefnu á almenning í stað stórfyrirtækja og stóreignamanna sem núverandi ríkisstjórn hefur innleitt. Alþb. hefur lýst því yfir við meðferð þessa máls í þinginu að við munum strax og við fáum tækifæri til breyta þessum lagaákvæðum. Ég tel mikilvægt, herra forseti, að láta það einnig koma fram í atkvæðaskýringu að ég fyrir mitt leyti tek undir þau sjónarmið sem fram komu varðandi endurgreiðslu söluskatts af tilteknum landbúnaðarafurðum sem hv. þm. Halldór Blöndal og hæstv. landbrh. gerðu grein fyrir fyrr í þessari umræðu.

Herra forseti. Þetta er vondur skattur. Ég segi nei.