06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3655 í B-deild Alþingistíðinda. (2570)

181. mál, stjórn fiskveiða

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Ég fyrir mitt leyti tel að það hafi verið staðið öðruvísi að þessu máli í sambandi við umfjöllunina en þau mál sem við höfum verið að ræða um undanfarna daga. A.m.k. sá sem hér stendur fékk ekki að fylgjast með þeim málum, en hins vegar fékk ég eins og aðrir þm. drög að frv. einhvern tíma í nóvembermánuði og ég tel að þó að hér sé eitt mikilvægasta mál sem þingið fjallar um megi færa rök að því að það sé búið að fjalla um það og þm. hafi getað fjallað um málið nokkuð langan tíma. Hins vegar hef ég ekki séð drög að reglugerð með þessu frv. og þar af leiðir að ég stend verr að vígi en aðrir að ræða þessi mál.

Eins og ég sagði eru hv. þm. sammála um að þetta sé eitt veigamesta mál sem er fjallað um á hv. Alþingi. Það er nauðsynlegt að ræða það frá ýmsum sjónarhornum vegna þess að eins og hæstv. sjútvrh. sagði er ekki sjálfsagt neitt í þessu frekar en í öðru. Það er t.d. spurning í mínum huga hver á fiskinn í sjónum eða hverjir eiga að hafa rétt til þess einir að veiða fisk. Eru það þeir sem áttu skip? Eru það þeir sem vinna fiskinn? Eða hverjir eru hagsmunaaðilar í raun og veru í sjávarútvegi? Ég er hræddur um að það sé nokkuð stór hópur ef að er gáð. Er það sjálfgefið að ef skip er selt fylgi aflinn, að byggðarlagið missi þannig af aflanum? Það fer sjálfsagt dálítið eftir því hvernig menn finna til í þessum málum. Er það fjármagnið sem á að della og drottna í þessu sem í öðru eins og mér sýnist nú að sé verið að stefna að í vaxandi mæli? Er það réttlætistilfinning okkar sem hér eigum sæti og eigum að gæta hagsmuna landsmanna í heild og sérstaklega þó okkar kjördæma? Teljum við að það eigi að standa þannig að málum?

Það er enn fremur umhugsunar vert hvernig á því stendur að nú er talið að þurfi að draga úr afla. Ef mig skortir ekki minni til stend ég í þeirri trú að það hafi komið fram í umræðum fyrir tveimur árum að að meðaltali undanfarinna áratuga hafi verið óhætt að veiða um 400 þús. tonn af þorski og hafi verið gert. Hefur eitthvað breyst í náttúrunni, ef þetta er rétt, sem skýrir að nú telja sérfræðingar að það verði að draga úr sókninni? Hefur eitthvað gerst? Ég hefði viljað beina þeirri spurningu að hæstv. sjútvrh., sem hefur aðgang að sérfræðingum í þessu efni, hvað þeir telji að valdi þessari breytingu ef ég fer með rétt mál. Getur það verið að þeir sem stunda veiðarnar drepi svo mikið af seiðum og smáfiski sem kemur ekki til lands, það sé að einhverju leyti skýring? Getur verið að t.d. sjófuglar, sem er enginn vafi er á að hefur fjölgað mjög mikið, hafi þarna áhrif og getur það verið að fjölgun þeirra stafi af því að það er kastað í sjóinn bæði smáfiski og slógi, jafnvel lifur? Þannig gætu menn haldið áfram að spyrja.

En þetta er alvarlegt mál. Þetta mál þarf að brjóta til mergjar. Er meira nú t.d. af hrefnu og sel en áður var? Er að einhverju leyti þar skýring? Og hvað veldur þessu?

Ég man ekki betur en talið væri að Bretar tækju hér um 200 þús. tonn af botnfiskafla áður en þeir voru hraktir héðan burtu. Þjóðverjar tóku líka mikið og fleiri þjóðir. Þessu vildi ég fá a.m.k. skýringar við. Ég er enginn sérfræðingur á þessu sviði og því spyr ég og það koma slíkar spurningar upp í huga fleiri en mín þessa dagana. Þess varð ég a.m.k. var í gærkvöld.

Ég hef horft á m.a.s. kríuna taka gönguseiði af laxi sem nýbúið er að sleppa. Ég hef séð fleiri sjávarfugla taka vilt seiði í göngustærð. Hvað gerist ef fuglinum heldur áfram að fjölga svo og öðrum sjávardýrum sem lifa á þessu að einhverju leyti a.m.k.? Það hlýtur að koma upp í hugann í sambandi við umfjöllun um þessi mál hvort það sé lífsnauðsynlegt fyrir þessa þjóð að minnka nú aflann, sem tekinn er, um 10% eða því sem næst.

Það sem hefur verið deilt mest um í þessu efni eru smábátarnir. Ef hv. alþm. eru sammála um að það sé ekkert um annað að ræða en draga úr afla erum við komnir að því hvernig á að standa að því máli. Það kann að vera að ég sé einn um það að efast um að þetta sé brýn þörf og við þurfum að snúa okkur að því að kanna alla þætti þess, en sé það skoðun flestra hér að það verði að gera þarf að athuga þau mál vel. Það sem hefur verið að gerast er fyrst og fremst það að smábátunum hefur fjölgað. Það er ýmislegt sem hefur komið upp sem veldur því að viðmiðunin hjá þeim sem hafa stundað t.d. grásleppuveiðar, hrefnuveiðar, þar sem hefur verið annaðhvort lítill afli á grunnslóð eða veður hamlað veiðum á hinum smærri bátum, er að ég tel ekki viðunandi. Það má hugleiða t.d. hvað verður um þá sem hafa verið að kaupa báta undanfarin 2–3 ár og skulda frá 21/2 millj. upp í 31/2 og það bátar sem eru ekki 6 tonn, þar eru veiðarfæri meðtalin, en eigendur slíkra báta veit ég um. Það er sýnilegt, miðað við þann fjármagnskostnað sem er í landinu, að þeir geri ekki út í marga mánuði miðað við þessi aflamörk. Hvernig fer þá fyrir sumum byggðarlögum sem byggja fyrst og fremst á afla smábáta? Það hlýtur að verða okkur mörgum umhugsunarvert.

Hæstv. sjútvrh. sagðist telja að eigendur smábáta mættu vel við una. Ég stend í annarri trú, a.m.k. um þá sem skulda nokkuð að ráði. Ég held að það sé algerlega vonlaust dæmi. Það er alveg rétt að ef á ekki að taka nema 345 þús. tonn af þorski verður það að koma einhvers staðar niður.

Svo stendur á í sambandi við grásleppuveiðarnar að það er ekki útlit fyrir að þær verði stundaðar nokkuð að ráði á næsta vori vegna þess að það er svo mikið af birgðum af hrognum í landinu að mér er tjáð.

Það er talað um netaveiðar smábáta. Við sem höfum verið að reyna að fylgjast með afla þessara smáu báta höfum orðið vitni að því að netafiskurinn er miklu stærri en sá sem veiðist á línu eða handfæri. Ég sé ekki annað en það sé verið að vernda smáfiskinn með slíkri veiðiaðferð. Þetta hlýtur að verða umhugsunarefni a.m.k. á þeim tíma ársins þegar minni hætta er á að fiskurinn skemmist þó að hann liggi einn sólarhring eða svo í sjó án þess að það sé hægt að vitja. Þegar fer að hitna á vorin eru slíkar veiðar ekki heppilegar á smábátum. En það er ekkert sjálfgefið í þessum málum frekar en í öðrum.

Hæstv. sjútvrh. sagði að það væri fullkomlega óeðlilegt að það yrði kosin nefnd þm. til að fjalla um þessi lög þegar þau verða sett og vera nokkurs konar umsagnaraðili við hlið ráðuneytis. Það er rétt að það hefur yfirleitt ekki verið gert. Hitt er annað mál að hér er um nokkuð óvenjulega löggjöf að ræða þar sem eru um 30 heimildir í þessum lögum fyrir ráðherra og ráðuneyti. Það verður að hafa það í huga þegar fjallað er um hvernig skuli standa að þessum málum. Ég hygg að þm., ekki síst þeir sem eru í sjávarútvegsnefndum Alþingis, séu mjög vel kunnugir þessum málum. Aðrir veljast tæpast í þessar nefndir. Ég get því ekki verið sammála hæstv. raðherra í því að það sé fullkomlega óeðlilegt. Það má þá segja með sanni að það sé fullkomlega óeðlilegt að hafa allar þessar heimildir eins og þær eru settar inn í frv. þó að ég sé ekki maður til að benda á að það sé í öllum tilvikum hægt að setja skýr ákvæði í lög um hvernig hvert atriði eigi að standa þannig að það sé enginn sveigjanleiki í því. En af því að lögin eru svona og af því að þessi atvinnuvegur er eins og hann er finnst mér fullkomlega óeðlilegt af hæstv. ráðherra að hafa þessi ummæli. Það er mitt viðhorf.

Ég er svolítið hræddur við gildistíma laganna, þrjú ár, vegna þess hvernig lögin eru. Ég get þó sagt að ef ég væri öruggur um að hæstv. sjútvrh. sem nú situr væri þessi þrjú ár trúi ég því að hann mundi taka þannig á málum að það væri þolanlegt. En ég er ekki sannfærður um að það sé öruggt ef, og mér sýnist að það sé hægt að segja meira en ef, hann verði ekki í þessu sæti næstu þrjú árin. Mér kæmi það á óvart, miðað við þá helstefnu í vaxtamálum sem ríkir, að þessi ríkisstjórn sitji marga mánuði eftir að gjaldþrot eru orðin ekki einu sinni daglegur viðburður heldur kannski mörg á dag og atvinnurekstur að gefast upp. Hvað þýðir það? Það yrði auðvitað atvinnuleysi á þeim stöðum og þá er ég hræddur um að færi að hitna undir stólunum eftir því sem lengra líður á þennan vetur.

Það er af þeim ástæðum sem ég mun greiða atkvæði með tillögu hv. 1. þm. Vestf. um að það sé óbreytt að þetta sé til tveggja ára. Ég get raunar tekið undir það með hv. 2. þm. Austurl. að það sé dálítið sérstakt að hafa svona ákvæði. Það eru þó nokkur dæmi um önnur lög að það eigi að endurskoða þau innan ákveðins árafjölda. En eins og fram hefur komið hjá held ég öllum þeim sem hafa fjallað um þetta mál er hér um óvenjulega löggjöf að ræða, óvenjulegar aðstæður og þess vegna sjálfsagt verða það ýmsir sem hika við að samþykkja gildistíma lengur en var gert fyrir tveimur árum.

Ég ætla ekki að ræða þessi mál frekar að þessu sinni. Það kann að vera að ég telji ástæðu til að bæta einhverju við síðar í þessari umræðu eða við 3. umr. Það fer eftir því hvernig mál þróast, en ég sé ekki ástæðu til að halda lengri ræðu.