06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3658 í B-deild Alþingistíðinda. (2571)

181. mál, stjórn fiskveiða

Alexander Stefánsson:

Herra forseti. Ég tel ástæðu til að koma aðeins inn á þessi mál. Ég hef ekki eytt ræðutíma í umræður um þessi mál til þessa, en tel ástæðu til að koma inn á örfá atriði.

É;g vil taka undir það, sem hér hefur komið fram, að þakka ágætt samstarf í sjútvn. Nd, og raunar báðum nefndum í sambandi við þetta mál, sem var rætt ítarlega, og einnig tek ég undir það að staðfesta að forusta formanns sjútvn. Nd., hv. 1. þm. Vestf., var góð og röggsamleg eins og hann á vanda til og að sjálfsögðu þykir mér mjög miður að okkur sem myndum meiri hl. og erum þm. stjórnarliðsins skyldi ekki auðnast að ná saman um afgreiðslu þessa máls, en við því er að sjálfsögðu ekkert að gera.

Ég vil taka fram að mér finnst að umræða um stöðu og framtíð sjávarútvegs á Íslandi eigi sífellt að vera í gangi í þjóðfélaginu þar sem hér er um að ræða mikilvægustu atvinnugrein þjóðarinnar sem er raunar undirstaða efnahagslífsins a flestum sviðum, undirstaða útflutningsframleiðslunnar og er um leið traustasta stoðin í frumframleiðslu og úrvinnslu í landinu öllu. Ekki hvað síst er það mitt mat að sjávarútvegurinn sé aðalundirstaða byggðaþróunar í landinu og hafi verið það frá fyrstu tíð og erfiðleikar í útgerð og vinnslu hafa samstundis bein áhrif á atvinnulíf og afkomu fólks í fjölda byggðarlaga um allt land. Það er því mjög eðlilegt að umræður um stjórn fiskveiða og ákvörðunartaka um þessi mál á hv. Alþingi séu fyrirferðarmiklar og misjöfn sjónarmið komi fram.

Það þarf ekki að rifja upp hvers vegna brýn nauðsyn var að setja ákveðna stjórn á fiskveiðar. Það nægir að minna á svörtu skýrsluna um ástand fiskistofna þar sem augljós hætta var á ferðum. En sem betur fer náðist með samstilltu átaki jákvæð þróun í þessum málum miðað við það sem þessi skýrsla bar með sér. Verndunaraðgerðir og uppbygging fiskistofnanna eru í raun aðalatriði þessara mála og um það eru að mínu mati allir landsmenn sammála.

Ég tel að fiskveiðistjórn liðinna ára hafi náð ótrúlegum árangri og komið mörgu jákvæðu til leiðar til hagsbóta ekki aðeins í íslenskum sjávarútvegi heldur ekki síður stuðlað að uppbyggingu á sem flestum sviðum í þjóðfélaginu. Stjórn fiskveiða hefur örugglega komið í veg fyrir ofveiði og mörg óbætanleg mistök sem hefðu getað haft alvarlegar afleiðingar fyrir þjóðarbúskap okkar í heild. Að mínu mati er einn mikilvægasti þáttur þessarar stjórnunar bein tengsl og afskipti hagsmunaaðila í sjávarútvegi, samtök allra þessara aðila, sem ávallt hafa tekið virkan þátt í öllum aðgerðum og gert mögulegt með samstöðu sinni að þessi víðtæka stjórnun hefur verið virt af svo til öllum aðilum í landinu.

Þýðingarmikill þáttur þessarar stjórnunar byggir á Hafrannsóknastofnun og fiskifræðingum. Þessi stofnun og fiskifræðingar hafa unnið ómetanlegt starf fyrir sjávarútveginn og gert mögulegt, og það vil ég undirstrika, að móta stefnu í þessum málum. Það er skoðun mín að allt of lítill gaumur sé gefinn að mikilvægi þessa þáttar fyrir þjóðarbúskapinn í heild og ég tel það hörmulegt í raun og veru að bæði ríkisstjórnir og þm. almennt hafa ekki náð saman um að efla Hafrannsóknastofnun og allt rannsóknastarf á hennar vegum meira en gert hefur verið. Það er mín skoðun að framtíð sjávarútvegs á Íslandi sé í veði ef ekki verður þarna um stefnubreytingu að ræða því að á þessu starfi hvílir ákvörðun um skynsamlega nýtingu fiskistofna við landið. Ég undirstrika þetta vegna þess að það hefur komið fram oftar en einu sinni að menn hafa skipst á skoðunum um að leggja meira fjármagn til Hafrannsóknastofnunarinnar, en um það hefur hvorki verið forusta frá ríkisstjórn né meðferð mála á hv. Alþingi sú að ná samstöðu um mikilvægi þessa umfram það sem niðurstaða hefur verið um. Vegna umræðna sem hér hafa orðið um þetta atriði tel ég ástæðu til að undirstrika þetta um leið og ég lýsi yfir þeirri skoðun minni að á þessu þarf að verða breyting. Hvað sem við segjum um þessi mál er það þessi stofnun sem á að segja til um verndun og uppbyggingu fiskistofna og er um leið leiðsögn okkar um samskipti við aðrar þjóðir hvað áhrærir þessa mestu auðlegð sem við búum við. Þess vegna eru Hafrannsóknastofnunin og fiskifræðingar svo mikilvæg í mínum huga.

Herra forseti. Ég get vísað til nál. á þskj. 477 og framsögu fyrir málinu og get því stytt mál mitt þar sem ég á þar fulla aðild. Ég vil þó segja það vegna umræðna sem hér hafa komið upp að ég tel að í meðferð sjútvn. á hv. Alþingi hafi náðst fram veruleg leiðrétting á frv. sem hér er til umræðu og ég tel, og ég hef leitað álits margra aðila sem eru í þessari grein og ekki síst smábátaútgerðarmanna, að það hafi náðst leiðrétting sem er til mikilla bóta í sambandi við meðferð málsins á hv. Alþingi.

Auðvitað eru gallar á lögum um stjórn fiskveiða og skiptar skoðanir um mörg atriði sem verður að telja eðlilegt í svo víðtæku máli sem snertir raunar hvert einasta mannsbarn í okkar landi. Hér togast á mismunandi hagsmunir, en íslenska sjómannastéttin og útvegsmenn almennt skilja nauðsyn stjórnar í þessari mikilvægu atvinnugrein og ég tel að Alþingi beri að virða það. Það væri hægt að hafa langt mál um það og spyrja og ég geri ráð fyrir því að flestir geri það í þessum málaflokki: Hvaða samtök er um að ræða þegar talað er um hagsmunasamtök í sambandi við sjávarútveginn? Það eru Landssamband ísl. útvegsmanna, Sjómannasamband Íslands, Farmanna- og fiskimannasambandið, samtök vélstjóra í landinu, samtök skipstjóra og stýrimanna, samtök smábátaeigenda, Verkamannasamband Íslands, sölusamtökin í fiskiðnaðinum, SÍF, SH og SÍS, og fiskiþing, sem samanstendur af fulltrúum sjávarútvegsins úr öllum landshlutum, og svo mætti lengi telja. Ég spyr: Eru þetta einhverjir aðilar úti í bæ?

Mér hefur oft fundist umræðan, bæði á hv. Alþingi og raunar víðar, vera óeðlileg og menn tali þannig að hér séu einhverjir þrýstihópar, einhverjir sérhagsmunahópar að ota sínum tota. Í mínum huga eru þetta málsvarar og fulltrúar allra þeirra sem starfa í sjávarútvegi á Íslandi og í þeim greinum sem honum tengjast og vita því best hverjir eru helst hagsmunir heildarinnar og hvað kemur þessari atvinnugrein best. Þess vegna tel ég þýðingarmikið að allir þessir aðilar séu beinir þátttakendur í stjórn og stefnumörkun um fiskveiðar á Íslandi. Ég geri ráð fyrir að um þetta séu skiptar skoðanir, en þetta er mín bjargföst skoðun og hún byggist einnig á því að ég kem frá svæði þar sem allt snýst um sjóinn, fiskveiðar og fiskvinnslu og hagsmunir þessara greina eru samofnir öllum þáttum í mannlegum samskiptum á þessum svæðum.

Hins vegar get ég tekið undir þá gagnrýni að kerfið sem við búum við og erum nú að lögsetja þurfi að innihalda meiri sveigjanleika vegna mismunandi aðstæðna sem alltaf eru að koma upp og þarf að bregðast við hvað sem menn annars segja um lög og reglur.

Ég hef gagnrýnt t.d. það ákvæði, sem fylgir þessari stjórn, að menn geti verið að selja óveiddan fisk í sjónum. Ég tel að útgerðarmaður skips sem ekki getur veitt samkvæmt úthlutuðum kvóta eigi ekki að hafa ótakmarkaða heimild til að selja þennan fisk samkvæmt þessu leyfi hæstbjóðanda. Ég hef lengi talið að þessu þyrfti að breyta, en þarna er um að ræða atriði sem hefur aldrei verið hægt að nálgast neitt samkomulag um. Þetta er eigi að síður mikilvægt atriði sem gagnrýni er vert í mínum huga.

Ég get einnig sagt það hér að ég tel að það hefði átt í upphafi, og sé ekki hægt að draga það lengur, að marka stefnu um uppbyggingu frystitogara í landinu. Það þarf að koma til sem skilyrði númer eitt að fullnýta allt hráefni sem slík skip afla. Þetta gera nágrannaþjóðir okkar og er talið alveg sjálfsagt. Við höfum ekki efni á því að láta slík stórvirk skip aðeins vinna hluta af afla, þ.e. þann afla fyrst og fremst sem flökunarvélar um borð vinna. Hér þarf til að koma uppbygging sem þýðir 100% nýtingu aflans sem þessi skip veiða. Ég geri mér fulla grein fyrir því að hér er um stórt mál að ræða sem kostar mikið fjármagn og breytingar á því kerfi sem núna er, en ég tel að hún sé hættuleg sú sjálfkrafa þróun um fjölgun slíkra skipa sem á sér stað hjá okkur í dag.

Á sl. ári munu þessi skip hafa fiskað, miðað við þann afla sem þau skila frystum í land í öskjum, um 40 þús. tonn og það er aukning í sjónmáli. Auðvitað þarf að taka þessi mál fastari tökum, ekki síst með tilliti til takmarkandi sóknar í verðmætasta fiskinn. Við hljótum að geta verið sammála um að nýta tækni til að öll fiskiskip skili 100% afla að landi til fullvinnslu. Við höfum bókstaflega ekki efni á öðru sem fiskveiðiþjóð. Það er alveg ljóst.

Ég tel ástæðu til að vitna í nál. meiri hl. sjútvn. sem lagði áherslu á þennan punkt í sínu áliti, en þar stendur, með leyfi forseta. „Þá telur meiri hl. að stórauka beri eftirlit með veiðum og vinnslu afla um borð í frystiskipum og að stefna beri að fullnýtingu afla. Ber að gera kröfur til þess að fiskiskip, og þá fyrst frystitogarar, komi með allan afla að landi jafnskjótt og forsendur eru til slíks.“ Þetta tel ég mikilvægt atriði og leyfi mér að vænta þess að í þeirri endurskoðun fiskveiðilaga sem fram undan er verði þetta mál tekið föstum tökum og nú þegar verði beitt þeim heimildum sem reglugerðir gefa til þess að hefja a.m.k. einhverja stefnu í þessum málum eða aðgerðir.

Ég hef einnig þá skoðun að það verði að auka bein afskipti af ísfisksölu á erlendum markaði. Til hvers? Til að koma í veg fyrir offramboð á fiski sem hefur hvað eftir annað orsakað verðfall og stórtjón fyrir íslenskan sjávarútveg. Svona lagað á ekki að koma fyrir ár eftir ár. Það hlýtur að vera einhver ábyrgur fyrir slíkri óstjórn öllum til tjóns. Við höfum næg dæmi sem sanna þetta og við megum ekki láta það henda að svona lagað gerist fyrir opnum tjöldum sem allir fordæma í orði. Það verður að gera eitthvað raunhæft í þessum málum.

Frá því að stjórn fiskveiði hófst höfum við sem búum á Snæfellsnesi, útgerðarstöðunum þar, barist fyrir því að svæðismörk væru miðuð við Öndverðarnes. Við teljum að Breiðafjarðarsvæðið eigi að fylgja Vestfjarðasvæði með tilliti til stjórnar fiskveiða. Bátar og togarar á þessu svæði fiska hlið við hlið á nákvæmlega sömu fiskimiðum. Því höfum við talið óeðlilegt að mismuna þessum skipum í veiðikvóta og ekki síst þar sem þorskveiði er uppistaða veiða á þessu svæði. Því miður hefur okkur ekki tekist að fá þessu framgengt. Við munum halda þessari baráttu áfram sem við teljum réttlætismál ef á annað borð á að skipta fiskimiðum við landið á þennan hátt sem ég hef ásamt fleirum verið í vafa um. Við á þessu svæði munum leggja málið formlega fyrir laganefnd í þessu máli til að fá leiðréttingu.

Ég tel einnig ástæðu til að vekja athygli a og taka undir þann mikla vanda sem skapast hefur víða um land á undanförnum árum vegna skipa sem seld eru með veiðiheimild úr byggðarlögum sem að mestu byggja á fiskveiðum og fiskvinnslu. Slík tilfelli hafa skapað neyðarástand í atvinnumálum viðkomandi byggðarlaga og hættu á byggðaröskun. Þetta mál kom upp í umræðunum í gær. Í athugasemdum, sem komu frá hv. 1. þm. Vestf., kom fram að ég sérstaklega hafi ekki viljað fylgja fram þeirri tillögu sem hann hefur hér um þetta mál. Mér þykir rétt að upplýsa að í síðustu ríkisstjórn komu upp svona atriði. Ég nefni þar sérstaklega vandamál sem skapaðist í Grundarfirði, þeim útgerðarstað sem missti annað sitt aðalatvinnutæki burtu með 3–4 þús. tonna kvóta. Það skapaðist þar gífurlegt vandamál sem var reynt að leysa. Ég lagði þetta mál formlega fyrir í fyrrv. ríkisstjórn og reyndi að fá um það samstöðu hvernig ætti að leysa það mál. Ég get að sjálfsögðu vottað að hv. 1. þm. Vestf. var á sömu skoðun í þessu máli, enda með vandamál frá Patreksfirði sem voru svipaðs eðlis, en niðurstaðan var sú þrátt fyrir hörku okkar beggja, sem ég held að við höfum ekki dregið af í þessu máli, að okkur tókst ekki að fá stuðning í fyrrv. ríkisstjórn til lausnar þessu máli. Þá gerðum við hvað? Við lögðum málið fyrir Alþingi þannig að við fórum í alla þingflokka og inntum eftir því hvort menn vildu styðja frv. um málið ef það væri takmarkað við lausn á þessum tilteknu dæmum. En niðurstaðan varð sú að það fékkst ekki samstaða á hv. Alþingi til að leysa þetta mál fyrir þessa tvo staði. Þannig urðum við að þola að ekki var hægt að leysa það á þann veg.

Ég held að það sé alveg ljóst að finna verður möguleika til að bregðast við slíkum vandamálum á viðunandi hátt. Það má vel vera að óeðlilegt sé að tengja þetta stjórnun fiskveiða. Það muni skapa þau vandamál önnur sem ekki verður hægt að ráða við. Ég get vel tekið undir að það muni skapa slíka örðugleika. En alla vega tel ég að þetta eigi að vera eitt af meginverkefnum þeirrar laganefndar sem skipuð verður í sambandi við frv. Þetta mál þolir ekki langa bið, að það sé einhver ákvörðun tekin, hvort sem það verður gert í gegnum stjórnun fiskveiða eða að menn lýsi yfir ákveðnum vilja til að leysa það í gegnum Byggðastofnun eða á einhvern annan máta. Svona löguð tilfelli geta alltaf komið upp og það hafa skeð efnahagsleg slys víða um land í sambandi við svona mál og má ekki verða svo áfram.

Í nál. meiri hl. var farið inn á þetta mál og talið að sú nefnd, sem hefur störf um þessi mál, sem við leggjum áherslu á að taki til starfa nú þegar, ætti að fjalla sérstaklega um með hvaða hætti unnt væri að taka tillit til byggðasjónarmiða við stjórn fiskveiða og úthlutun veiðiheimilda sem gætu verið þáttur í því að jafna aðstöðumun sem upp getur komið.

Herra forseti. Við erum að ræða eitt stærsta mál þjóðarinnar. Fiskimiðin og fiskistofnar eru okkar stærsta auðlegð sem afkoma þjóðarinnar byggir á og byggir á nýtingu þessarar auðlegðar. Okkur ber því skylda til að stuðla að skynsamlegri meðferð þessara mála. Okkur ber skylda til að fara vel með þessi auðæfi, fullnýta aflann og fullvinna aflann og leggja höfuðáherslu á vöruvöndun og að hagnýta okkur nýjustu tækni á öllum sviðum til að ná því markmiði að fá hæsta verð á erlendum mörkuðum með viðurkennda gæðavöru. Um þessi sjónarmið þarf að nást samstaða, bæði á hv. Alþingi og með þjóðinni allri, og ég efast ekkert um að svo verði því að það er held ég sú besta trygging sem við getum fengið fyrir velgengni þessarar þjóðar ef vel tekst til á þessu sviði.

Í sambandi við það frv. sem hér er til lokaafgreiðslu er ljóst að afgreiðsla þess má ekki dragast öllu lengur ef ekki á af að hljótast verulegt tjón og vandræði í þjóðfélaginu. Hagsmunasamtök sjómanna og útvegsmanna víðs vegar um landið senda okkur núna kröfu um afgreiðslu málsins. Ég hef fengið upphringingar utan af miðunum þar sem þeir spyrja hvað við séum að gera á hv. Alþingi, hvort við ætlum að láta sjómannastéttina vera í óvissu um sín mál öllu lengur. Enda þótt ég viðurkenni að lengri tíma hefði þurft til að fjalla um þetta stóra mál er alveg augljóst að hagsmunir sjómanna, byggðarlaga og þjóðarbúsins í heild krefjast afgreiðslu málsins nú þegar.

Ég vil einnig í lokaorðum mínum leggja á það áherslu að sú nefnd, sem skipa á til áframhaldandi endurskoðunar á stefnunni og raunar stefnumörkun í sambandi við þessi lög, taki þegar til starfa og reynt verði að móta stefnu sem tryggi enn betur réttláta stjórn þessa stærsta máls þjóðarinnar.