06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3666 í B-deild Alþingistíðinda. (2573)

181. mál, stjórn fiskveiða

Málmfríður Sigurðardóttir:

Herra forseti. Hér hefur verið gerð grein fyrir tillögum Kvennalistans um stjórn fiskveiða svo ég ætla ekki að fjölyrða frekar um þær. Þær hafa verið skýrðar. Ég vil aðeins í almennum orðum lýsa viðhorfi mínu til þessa máls eins og það liggur fyrir nú.

Þegar stjórn fiskveiða, kvótakerfið, var tekin upp þá studdu kvennalistakonur þá tilhögun þar sem markmiðið var að hindra ofveiði og stuðla að verndun og uppbyggingu fiskistofna og auka hagkvæmni við veiðar og vinnslu. Þessi markmið studdum við. En hafa þau náðst á þeim tíma sem lögin hafa verið í gildi? Ég held ekki. Afli hefur árlega farið langt fram úr því sem fiskifræðingar hafa talið ráðlegt og hagkvæmni við veiðar hefur ekki orðið slík sem vonir stóðu til og fiskiskipum hefur fjölgað. Meðferð sjávarafla hefur að vísu batnað en þó má enn gera betur, en nýting hans er langt frá því að vera viðunandi og kjör þeirra sem vinna að sjávarútvegi eru sömuleiðis langt frá að vera viðunandi, hvorki hvað varðar laun né aðbúnað, og um sanngjarna dreifingu atvinnuarðs held ég að menn greini á. (Forseti: Ég vil beina því til ræðumanns að þm. hafa kvartað yfir því að það heyrist ekki, ef hún gæti brýnt aðeins raustina.) Ég skal reyna það, herra forseti.

Það er því augljóst að þessi lagasetning hefur ekki skilað tilætluðum árangri. En er þá það lagafrv. sem hér er til umræðu líklegt til að gera betur? Hafa einhverjar þær breytingar verið gerðar frá fyrri lögum sem gera líklegt að sá árangur náist fremur nú en fyrr sem ætlast er til með stjórnun fiskveiða? Ég fæ ekki séð að svo sé. Þeim lögum um stjórnun fiskveiða sem nú eru nýfallin úr gildi var mjög fundið það til foráttu hvað þau væru miðstýrð og þunglamaleg. Þetta frv. virðist mér að gangi jafnvel lengra í þeim efnum, auk þess sem ráðherra er gefið allt að því einræðisvald á víðtækum sviðum. Alvarlegast er þó að ekki skuli vera gerð nein markviss tilraun til að hefta sölu á kvóta, t.d. með því að binda kvóta að einhverju leyti við byggðarlög eða fiskvinnsluhús. Það þarf ekki að orðlengja neitt um það áfall sem það er fyrir atvinnulíf í því byggðarlagi sem byggir aðallega á útgerð og fiskvinnu þegar allt í einu er búið að svipta það lífsbjörginni. Sala á kvóta ætti ekki að vera leyfileg eins og hún hefur viðgengist. Þetta frv. sýnir ekki í neinu verulegu að leitað sé nýrra leiða til að ná þeim markmiðum sem ætlað er með stjórn fiskveiða.

Þær breytingar sem eru á frv. frá fyrri lögum varðandi smábátaútgerð eru þess eðlis að engin leið er að fallast á þær. Að vísu hafa verið gerðar breytingar til batnaðar á þeirri grein í frv. í meðförum nefndar, en þær ganga engan veginn nógu langt. Þeir sem gera út smábáta í atvinnuskyni verða að geta lifað á sinni útgerð, svo einfalt er það, annars hætta þeir. Og þá geta menn nú fyrir alvöru farið að tala um byggðaröskun. Ef þarf að skerða afla einhverra verður að gera það við þá sem meira hafa, stærri skipin, þar sem hluturinn er það hár að hann þolir að vera skertur án þess að það þýði nokkurn háska fyrir lífsafkomu þeirra sem þar vinna.

Sé litið á hlut smábáta í aflaaukningu síðari ára sést að þrátt fyrir stórfellda fjölgun báta eykst ekki aflamagn þeirra að sama skapi. Raunar eykst afli smábátanna sáralítið sem er af því að náttúran og veðurfarið setja því takmörk hvað hver bátur getur veitt og fjölmargir af þeim bátum sem bæst hafa í flotann eru hinir svokölluðu sunnudagsbátar sem eru eigendum sínum fremur til afþreyingar og skemmtunar en að þeir séu mikilvirk aflatæki. Það hlýtur að læðast að grunur um að einhverjir þeirra sem verða að sæta aflatakmörkunum geti ekki þolað eða sætt sig við að smábátaútgerðin sé ekki heft.

Víða um land eru byggðarlög sem segja má að standi og falli með því hvernig smábátaútgerðinni vegnar. Verði umtalsverð skerðing á aflanum þá er byggðin í voða vegna þess að engin önnur atvinna er fyrir hendi. Hafa menn hugsað um það í alvöru, hugsað um daglegt líf og afkomu fólksins þar, hugsað um fólkið sem mannlegar verur, ekki sem tölur á pappír, 100 manns hér og 200 þar? Og hvað vilja þessar hræður upp á dekk? segja menn. Þetta eru bara tölur á blaði sem skipta stjórnvöld engu. Hafa menn á hv. Alþingi hugleitt hvernig smábátaeigendur muni bregðast við aflaskerðingu og fjölgun banndaga, þ.e. þeir sem treysta sér þá til að halda útgerð áfram? Þeir fara að róa í verri veðrum en áður og þeir fara að róa einir á bát í stað þess að venjulega eru tveir eða fleiri um bátinn. Hvernig er þá komið öryggi manna í glímunni við úfinn sjó og ill veður? Býður þetta ekki heim fleiri slysum á sjó en verið hefur og þykir þó flestum þegar ærinn tollurinn sem Ægi er goldinn. Hvað um líðan þeirra sem í landi bíða vitandi ástvini sína eina á sjónum, oftlega í tvísýnu tafli við höfuðskepnurnar? Það er ábyrgð, herra forseti, mikil ábyrgð sem þeir taka á sig sem ætla að knýja þetta mál fram í þessu formi og með þessum hætti.

Ég vil víkja að því hvernig aflastjórn getur komið við einstök byggðarlög og mismunað einstaklingum þar að því er virðist algjörlega út í hött. Ég vil þá, með leyfi hæstv. forseta, lesa úr blaðaviðtali við trillubátasjómann úr Grímsey, Harald Jóhannsson, þann 3. jan. sl. þar sem hann sýnir fram á hvernig framtíðin blasir við Grímseyingum verði þetta frv. að lögum eins og það er, og ég minni á í leiðinni að þetta byggðarlag, Grímsey, á allt sitt undir smábátaútgerð því þar er enga aðra atvinnu að hafa. Haraldur segir, með leyfi hæstv. forseta:

"„Það er ekki alls kostar rétt, að minni bátarnir hafi rýmri heimildir til veiða en stærri bátarnir. Til Grímseyjar var keyptur 8 tonna bátur í haust. Hann ætti að fá 135 tonn af óslægðum fiski, en fyrir eru þrír 11 tonna bátar í Grímsey. Þeir eru þrír af fimm hæstu af 10–12 tonna bátum yfir landið. 8 tonna báturinn mun sækja sjó jafnt og hinir, en fá mun minni aflaheimildir. Hinir hafa á sex ára tímabili að meðaltali tekið 310 tonn á ári hver um sig. Verði þetta frv. að lögum verður mismununin á bátum rétt um 10 tonn því allt of mikil“, segir Haraldur Jóhannsson trillukarl í Grímsey í viðtali við Morgunblaðið.

Haraldur sagði að ekki væri allt sem sýndist hvað varðaði veiðar smábáta og í raun væri furðulegt hve mikið væri rætt um veiðar báta sem tækju innan við 10% af þorskaflanum. Jafnframt virtist vera um of af villandi upplýsingum á ferli. Sjútvrh. segði að veiðar línu- og handfærabáta skyldu vera frjálsar enn um sinn. „Hann ætlar hins vegar að banna okkur veiðar í 86 daga á ári, nærri þrjá mánuði. Það er ekkert frelsi," sagði Haraldur. „Þetta kemur mjög harkalega út í Grímsey. Í gegnum tíðina hefur veðráttan sett á okkur 270–280 banndaga á ári á handfærunum. Okkur hefur fundist óþarfi að bæta á þessa banndaga af ráðuneytinu úr Reykjavík. Mikill hluti þessara daga kemur á versta tíma fyrir okkur.

Netabátarnir í Grímsey eru allir fyrir neðan 5 tonn nema fjórir. Þetta er hinn svokallaði stórhættulegi skipastóll og ég hef getið þess að vegna hafnleysis eru Grímseyingar dæmdir til að vera með minnstu bátana. Það er misskilningur haldi menn að það sé ósk þeirra sjálfra.“ Og ég tek fram að Grímsey er ekkert einsdæmi með þetta.

„Í fyrra og 1986 höfðu þessir bátar möguleika á 100 tonnum af óslægðum þorski frá 10. febrúar til 15. maí, en frá 15. janúar og til 10. febrúar og eftir 15. maí máttu þeir fiska frjálst í netin. Nú er boðið upp á 50 tonn allt árið fyrir þessa báta, að vísu á að taka eitthvert tillit til aflareynslu, en við vitum ekki með hvaða hætti það verður. Þetta er það sem blasir við okkur í Grímsey. Við skiljum ekki að ráðaherra skuli leggja allt að veði okkar vegna. Afli hefur ekki aukist milli ára nú. Hann lækkar frá árinu 1986 til 1987 og hefur ekki aukist í samræmi við fjölgun smábátanna. Það er nauðsynlegt að hafa veiðar þessara báta frjálsar. Veiðar smábátanna verða aldrei hættulegar þorskstofninum og skila bestu hráefni með minnstum tilkostnaði“, sagði Haraldur Jóhannsson.“

Ég vil líka minna á að langt er frá að Grímsey sé eina byggðarlagið sem er algjörlega háð smábátaútgerð um atvinnu. Þau eru fjölmörg og líklega er enginn eða sárafáir af hv. þm. landsbyggðarinnar sem ekki vita af einu eða fleiri slíkum byggðarlögum innan síns kjördæmis. Og því gegnir það furðu ef þeir hv. þm. treysta sér ekki til að standa vörð um hagsmuni þessara byggðarlaga, vitandi að það er ekki neitt frá neinum tekið þó að smábátaútgerðin fái áfram að búa við þau kjör sem hún hefur haft og annað er ekki farið fram á.

Smábátaútgerð er einn elsti atvinnuvegur okkar þjóðar. Þar fá sjómannsefnin enn í dag uppeldi sitt. Á smábátunum læra menn frá barnæsku að virða höfuðskepnurnar,læra að þekkja veðurtákn, læra að taka tillit til náttúrunnar. Á smábátum róa feður með sonum sínum og jafnvel dætrum. Oft og tíðum eru það einu tækifæri sjómanna til að vera samvistum við börn sín og taka virkan þátt í uppeldi þeirra og sjá þau breytast úr börnum í fullorðið og dugandi fólk. Er ekki viðurhlutamikið að standa að ráðstöfunum sem kunna að valda því að þetta verði úr sögunni? Það blasir við þeim sem stunda þessa útgerð að ef aflamöguleikar þeirra eru skertir að ráði leggja þeir árar í bát í orðsins fyllstu merkingu. Þá fá forráðamenn stóru skipanna óskir sínar uppfylltar um nóg framboð af æfðum og dugandi sjómönnum í bili, en ekki þegar til lengri tíma er litið því þá hafa uppeldisstöðvarnar verið eyðilagðar.