06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3669 í B-deild Alþingistíðinda. (2574)

181. mál, stjórn fiskveiða

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég ætla ekki að blanda mér í umræður um fundartíma hér, en ég skil það svo að það eigi að veita hv. þingdeildarmönnum smáhlé sem hæfilegt telst væntanlega til að gleypa í sig mat og er það vel að menn þurfi ekki að standa í þingstörfunum banhungraðir.

Ég ætlaði að sjá til hverju fram yndi um þessa umræðu og hafði ekki ráðgert sérstaklega að taka þátt í henni. Ég kom afstöðu minni á framfæri við 1. umr. málsins og það hefur ekki tekið þeim breytingum að það sé efni til mikils innleggs af minni hálfu til viðbótar við það sem áður var. Ég tek í öllum greinum undir framsögu hv. 2. þm. Austurl. fyrir nál. 2. minni hl. þar sem afstaða Alþb. er tíunduð og svo vitnað í framsöguræðu hans. Ég held að það sé að vísu gert meira úr en efni standa til, bæði í máli hæstv. ráðherra og víðar, þeim lagfæringum svokölluðum sem felast í brtt. meiri hl. sjútvn. A.m.k. stendur það eftir óbreytt í mínum huga hvað smábátagreinina varðar að eftir sem áður er enginn rekstrargrundvöllur fyrir nýlegum smábátum eða nýjum smábátum undir 6 tonnum miðað við þær veiðiheimildir sem greinin og reglugerðir sem boðaðar hafa verið eða kynntar hafa verið í tengslum við hana ætla. Ég held að það sé alveg borin von að einn sjómaður eða ein fjölskylda, svo ekki sé nú talað um tvo eins og oft er um að ræða, geti ráðið við að reka sjálfan sig og bát, kannski 5,5 tonna bát, nýlega keyptan bát, á þeim veiðiheimildum sem þar eru boðaðar. Það er ósköp einfaldlega enginn grundvöllur fyrir því og ætti öllum að vera ljóst og ummæli um að þarna hafi komið til lagfæringar og smábátasjómenn geti vel við unað, borið saman við aðra, breyta ekki þessari staðreynd. Hún liggur fyrir og þarf ekkert um hana að þrátta. Það er þá einhver hyldýpis vanþekking sem liggur þar að baki ef menn bera annað á borð. A.m.k. hef ég, af því sem ég hef kynnt mér og rætt við menn, alveg sannfærst um að sá hópur smábátasjómanna sem er þa ekki á algjörlega afskrifuðum bátum í þessum stærðarflokki hefur ekki mikla afkomumöguleika verði þessar takmarkanir á settar.

En erindi mitt aðallega í þennan ræðustól eru ákveðin ummæli hv. þm. og hæstv. ráðherra Framsfl. sem fallið hafa í tengslum við þessa lagasetningu, sum utan þings og önnur innan þings. Hæstv. utanrrh. lét svo lítið að tala við dagblaðið Tímann fyrir nokkrum dögum og lét hafa þar eftir sér ákveðin ummæli sem ég verð að segja að hneyksla mig meira en flest annað sem ég hef séð á prenti undanfarin ár. Ég tel að ummælin sem hæstv. sjútvrh. lét falla úr þessum ræðustóli fyrir stundu hafi verið býsna óheppileg einnig í sambandi við sambúð og samskipti löggjafarvalds og framkvæmdarvalds. Ég held að það sé alveg nauðsynlegt, herra forseti, að rifja upp ákveðnar grundvallarstaðreyndir um stjórnskipun Íslands fyrir þessum hæstv. ráðherrum Framsfl. og má þá sá mæti prófessor Ólafur heitinn Jóhannesson þakka fyrir að vera ekki uppi á meðal þeirra þegar þeir taka til máls með þeim hætti sem þeir gera, hæstv. ráðherrarnir, um þessa hluti. Það mætti segja mér að sá ágæti stjórnskipunarfræðingur hefði orðið heldur undirleitur ef hann hefði heyrt lesin þau ummæli sem hæstv. utanrrh. viðhafði í Tímanum fyrir nokkrum dögum.

Ég er að vísu ekki lögfróður eða sérfróður um stjórnskipunarrétt en hef þó reynt auðvitað, eins og öllum hv. alþm. ber, að hafa þar ákveðnar grundvallarstaðreyndir sæmilega á hreinu hvað varðar sambúð hinna mismunandi valdstiga í þjóðfélaginu. Það er að mínu mati alveg morgunljóst að samsetning löggjafarsamkundunnar og störf þingmanna þau eru þess eðlis að stjórnarskráin ætlar þeim að taka afstöðu út frá sannfæringu sinni og ekki öðru. Stuðningur við ríkisstjórn bindur ekki þm. með þeim hætti að einstakir ráðherrar úti í bæ geti talað um það eins og sjálfsagðan og sjálfgefinn hlut að vilji þeirra nái fram að ganga. Það gerist ekki. Það væri stjórnarskrárbrot ef stuðningur við ríkisstjórn innifæli að menn yrðu að greiða atkvæði eins og einhver ríkisstjórn ætlast til, burt séð frá samvisku sinni. Það gengur ekki. Þannig er þetta ekki. Auðvitað ekki.

Það kom hér fram þegar hv. fyrrv. þm. Ingvar Gíslason, þáverandi forseti Nd., flutti frv. til l. ásamt undirrituðum o.fl. sem gekk á skjön við vilja ákveðinna ráðherra í þáverandi ríkisstjórn. Þá ruku þeir upp til handa og fóta og fóru að tala um það að það samrýmdist ekki stuðningi þingmannsins við ríkisstjórnina að flytja svona frv. Þá rifjaði þessi ágæti fyrrverandi forseti Nd. upp fyrir ráðherrunum hvað felst í því þegar þm. gerast stuðningsmenn ríkisstjórnar. Í raun og veru felst ekkert annað í því en að þm. skuldbinda sig til að greiða ekki atkvæði með vantrausti á þá ríkisstjórn. Þeir skuldbinda sig til að verja ríkisstjórn vantrausti. Stjórnskipulega séð er í raun og veru fyrst og fremst um það að ræða þegar þm. kalla sig stuðningsmenn ríkisstjórna. Þannig má út af fyrir sig segja að hver og einn þm. geti talið sig stuðningsmann ríkisstjórnarinnar þó að hann greiði ekki atkvæði með hverju einasta máli sem hún ber fram svo fremi sem það liggi ljóst fyrir að hann mundi verja þá ríkisstjórn vantrausti.

Þessi var röksemdafærsla þessa virðulega fyrrv. forseta Nd. þegar hann útskýrði það fyrir hæstv. ráðherrum fyrrv. ríkisstjórnar í hverju stuðningur þm. við ríkisstjórn væri fólginn.

Herra forseti. Ég hefði talið æskilegt að formaður Framsfl. og núverandi hæstv. utanrrh. mætti til þessarar umræðu. Ég hef áhuga á að inna hann eftir hvað felist í og hvað sé á bak við þau ummæli sem Tíminn hefur eftir honum nú fyrir fáeinum dögum og ég gæti fundið út úr dagatalinu. Það mun hafa verið miðvikudaginn 30. des. 1987 sem hæstv. utanrrh. greindi frá því sem ég skildi og skil sem einhvers konar samkomulag stjórnarflokkanna og fer um það mörgum orðum að undirstaða þess samkomulags sé að vilji sjútvrh. nái fram að ganga í einu og öllu og ekkert verði gert sem sá hæstv. ráðherra sætti sig ekki við í þessum efnum. Það væri e.t.v. formlega réttara að bera spurningu upp við hæstv. forsrh. sem fundarstjóra á fundum ríkisstjórnarinnar um þessi efni, en þar sem ummælin eru höfð eftir hæstv. utanrrh. hefði ég a.m.k. talið æskilegt að sá hæstv. ráðherra kæmi til þessarar umræðu. (Forseti: Hæstv. utanrrh. mun ekki vera í húsinu og það er tæplega hægt að nálgast hann til þessarar umræðu fyrir matarhlé, en ég mun gera ráðstafanir til þess að hafa samband við hann í hléinu.) Óskar forseti þá eftir að ég geri hlé á máli mínu þangað til að hæstv. utanrrh. er kominn? (Forseti: Ef ekki er annað sem hv. þm. hefur að segja. Ég reikna ekki með að hæstv. utanrrh. nái til hússins á þessum mínútum sem eftir eru. En ef þm. hefur ekki neina ræðu að öðru leyti hér að flytja mun ég biðja hann að halda áfram eftir hlé vegna þess að nokkrar mínútur skipta ekki höfuðmáli í þessu sambandi.) Ég tel það heppilegast, þó ég kunni að ætla mér að segja ýmislegt í tengslum við það aðalefni sem ég átti í ræðustólinn, að geyma ræðu mína þangað til hæstv. utanrrh. er hingað kominn. Það væri út af fyrir sig gaman að sjá einnig einhverja hæstv. ráðherra Sjálfstfl. hér endrum og sinnum þegar verið er að ræða þetta kvótafrv. Það hlýtur að vekja nokkra eftirtekt sá áhugi sem stjórnarliðið sýnir þessu máli, hæstv. ráðherrar, að frádregnum að sjálfsögðu hæstv. viðskrh. sem oft og iðulega heiðrar okkur með nærveru sinni hér öðrum mönnum fremur úr hæstv. ríkisstjórn. En hér sjást ekki aðrir ráðherrar en hæstv. sjútvrh. og þá hæstv. viðskrh. Ráðherrar Sjálfstfl. virðast ekki hafa á þessu máli hinn minnsta áhuga — eða er fjarvera þeirra e.t.v. af einhverjum öðrum rótum runnin? Er hugsanlegt að þeir hafi ekki mikinn áhuga á því eins og núv. hæstv. menntmrh. sem ekki var mikill stuðningsmaður kvótakerfisins og mun úr þessum ræðustóli á einni tíð hafa lýst því yfir að hann mundi ekki oftar greiða atkvæði með svona frv. Ég hygg að það hafi verið 1985. Það gæti verið gaman að hafa hæstv. menntmrh. hér. Ég beini því þá til virðulegs forseta að hann noti hádegisverðarhléið sem hann ætlar að veita okkur þm. til að athuga með störf hæstv. ríkisstjórnar, hverjir af ráðherrunum geta tekið þingskyldur sínar svo alvarlega að þeir geti þá heiðrað okkur með nærveru sinni þegar fundinum heldur fram.