06.01.1988
Neðri deild: 47. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3720 í B-deild Alþingistíðinda. (2592)

181. mál, stjórn fiskveiða

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið, en vegna orðaskipta okkar hæstv. sjútvrh. varðandi samráðsnefnd og 15. gr. og ýmis ummæli sem féllu bæði fyrr og síðar í þessari umræðu í því sambandi vil ég segja í fyrsta lagi að hæstv. ráðherra tók ólíkt skynsamlegar til orða nú þegar hann skýrði afstöðu sína til þessarar nefndar en hann gerði í morgun, að mínu mati, þegar hann notaði þau orð um að Alþingi kysi slíka samráðsnefnd að það væri fullkomlega óeðlilegt. Ég tel að ráðherra hafi hins vegar nú fært sín rök fyrir því að hann teldi þetta ekki heppilegt. Ég meðtek þau að sjálfsögðu þó að ég sé honum ekki sammála.

Ég bendi hæstv. ráðherra á að hér er eingöngu spurningin um hvernig svona samráðsnefnd skuli skipuð því að í frv. hans eru ákvæði um samráðsnefnd sem á að hafa nánast nákvæmlega sömu verkefni með höndum, en eingöngu öðruvísi skipuð, þ.e. tilnefnd af hagsmunaaðilunum og einum manni frá ráðherra sem jafnframt skal vera formaður nefndarinnar. Tillaga Matthíasar Bjarnasonar og aðrar brtt. sem að þessu lúta felast eingöngu í því að breyta samsetningu og skipan nefndarinnar þannig að það er nákvæmlega jafnknýjandi spurning hvort ráðherrann sé ekki óþarfur ef hans eigin hugmynd um 15. gr. verður samþykkt. Er þá ekki búið að fela þessum fulltrúum í samráðsnefndinni, sem hagsmunaaðilarnir tilnefna, þessi verk þannig að það sé alveg nákvæmlega eins hægt að leggja hæstv. ráðherra niður þó að hans eigin hugmynd verði samþykkt eins og þó að hugmynd hv. 1. þm. Vestf. Matthíasar Bjarnasonar yrði samþykkt?

Staðreyndin er sú að hér er eingöngu um það að ræða að þessi nefnd fjalli um álita- og ágreiningsmál sem upp koma og hæstv. ráðherra á vel að merkja eftir sem áður að kveða upp úrskurð ef nefndin nær ekki sameiginlegri niðurstöðu þannig að það fellur alveg um sjálft sig að þessi álitamál vakni eingöngu við það ef brtt. hv. 1. þm. Vestf. yrði samþykkt. Þau eru nákvæmlega eins uppi þó að frv. sjálft gangi í gildi að mínu mati.

Ég vil taka það skýrt fram, herra forseti, að ég hef ekki boðist til að verða uppfræðari á námskeiðum um stjórnskipun. Ég tók það einmitt fram að ég væri ekki lögfræðingur eða sérfræðingur í stjórnskipun landsins þó ég leyfði mér að hafa á því máli ákveðnar skoðanir eftir að hafa kynnt mér það eins og öllum hv. alþm. er að sjálfsögðu kunnugt. Ég setti hins vegar fram þá skoðun að það væri greinilega nauðsynlegt að halda slíkt námskeið. Til þess eru aðrir miklu færari en ég að halda þar uppi fræðslu. Það tekur hins vegar ekki af mér réttinn til að ræða þetta mál á hinu háa Alþingi og hafa á því skoðun.

Ég nefndi nafn hv. fyrrv. þm. Ólafs heitins Jóhannessonar vegna þess að sá maður var doktor og prófessor í þessum málum og til hans er oft og iðulega vitnað og hlýtur að vera heimilt hér eftir sem hingað til, enda ástæða til þar sem hann hefur öðrum mönnum fremur sent frá sér á prenti gögn sem unnt er að styðjast við í þessum efnum og þarf ég ekki í sjálfu sér að hafa fleiri orð um það.

Ég undirstrika að ég tel að það sé fyllilega í samræmi við venju í þessum efnum, enda alsiða, að Alþingi skipi málum með þeim hætti að kjósa hér nefndir, stjórnir og ráð til þess að annast tiltekna hluti stjórnsýslunnar eða framkvæmdarvaldsins. Það úir og grúir af slíkum hlutum í íslenskri löggjöf.

Menn geta haft á því skoðanir, eins og hæstv. sjútvrh. greinilega hefur, að það sé ekki heppilegt. Það eru skoðanir sem sjálfsagt er að hlusta á, en það breytir ekki hinu að venjan er sú að þetta er fyrir hendi út um allt. Fæstir hæstv. ráðherrar hafa litið svo á að slík nefndar- eða stjórnarskipan væri eitthvert vantraust eða atlaga að þeirra valdi og þeirra starfi og það vöknuðu upp efasemdir um hvort þeir væru þá ekki orðnir óþarfir. Ég hef aldrei heyrt ráðherra halda því fram áður, þó að Alþingi ætli að kjósa einhverja nefnd til að annast einhverja afmarkaða hluta málaflokka sem heyra undir viðkomandi ráðuneyti eða eitt ráðuneyti, að ráðherra komi þá með þau rök í málinu að þar með séu þeir orðnir óþarfir og allra síst jafnmikilvægur ráðherra og hæstv. sjútvrh. er. Það er alveg fyrir ofan markið að koma því hér að. Þetta er spurning um skipan samráðsnefndarinar. Ég tel eðlilegt, rökrétt að Alþingi hafi hönd í bagga með skipan þeirrar nefndar úr því að hún á að vera til á annað borð, með því að kjósa inn í hana fulltrúa. Ég tel það fyllilega rökrétt. Og ég tel það stjórnarfarslega betra og frá sjónarhóli þingræðisins heppilegra að Alþingi gangi þannig frá málunum þegar það er að afgreiða lagaheimildir af því tagi sem hér eru á ferðinni og margoft hefur verið vitnað til sem fela í sér gífurlega mikið framsal á ýmiss konar ákvörðunarvaldi í hendur ráðherrans. Ég tel betra fyrir þingið að ganga þá þannig frá hlutunum að sú samráðsnefnd um framkvæmdina og sú sérstaklega um álita- og ágreiningsmálin, sem á að starfa, sé að hluta til skipuð beint af fulltrúum sem Alþingi velur.