07.01.1988
Neðri deild: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3734 í B-deild Alþingistíðinda. (2600)

Fréttir í Sjónvarpinu

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Ég kveð mér hljóðs um þingsköp vegna fréttar í ríkissjónvarpinu í gær þar sem verið var að greina frá umræðum á þinginu. Þar var sagt m.a. að eini stjórnmálaflokkurinn sem gengur sameinaður til afgreiðslunnar, og þá er verið að ræða um það frv. sem nú er á dagskrá, kvótafrv. eins og það hefur verið kallað, sé Framsfl. Svo stendur aðeins síðar: „En aftur á móti vantar mikið á í Sjálfstfl. og Alþfl. að samstaða sé.“

Ég tók eftir þessu í gær og var að velta því fyrir mér hvort fréttamaðurinn gerði sér ekki grein fyrir því að það eru til fleiri stjórnmálaflokkar en þessir þrír og hvaðan hann hefur upplýsingar um hvernig þingflokkar ætla að greiða atkvæði yfirleitt á þinginu. Mig langar mikið til að vita það, herra forseti, hvaðan þessar upplýsingar eru komnar og finnst ástæða til þess að leiðrétta að það séu fleiri stjórnmálaflokkar en þessir þrír.

En það sem kannski var ástæða þess að ég kvaddi mér hljóðs hér var fyrst og fremst þar sem var sagt í fréttinni að á ýmsum stigum þessa máls hafi stjórnarandstaðan haldið uppi málþófi, en til viðbótar er það að stjórnarandstaðan hafi verið mjög ósamvinnuþýð í að greiða fyrir framgöngu mála á þinginu og sérstaklega kvarta stjórnarþm. undan Borgarafl. Ég skil þetta ekki og þætti fróðlegt að vita hvaðan þessar upplýsingar eru fengnar. Ef maður lítur yfir daginn í gær man ég ekki betur en þá hafi þm. úr öllum stjórnmálaflokkum, og þá tel ég alla með, bæði stjórnar- og stjórnarandstöðuflokka, tekið til máls hér og ég mótmæli því að við höfum verið með nokkurt einasta málþóf og vildi gjarnan að það væri athugað hvaðan þessar upplýsingar eru fengnar.

Síðan er því haldið fram að við séum mjög ósamvinnuþýð í stjórnarandstöðunni. Ég mótmæli því einnig vegna þess að við höfum látið yfir okkur ganga að vinna hér dag og nótt til að reyna að hjálpa til við að koma þessum málum, sem voru allt of seint lögð fram hér á þinginu, í gegnum þingið. Mér finnst einkennilegt að fréttamaður geti fullyrt að við séum ósamvinnuþýð og vonast til þess, herra forseti, að þitt álit á þessu komi fram þar sem forseti getur þá væntanlega leiðrétt þær staðhæfingar sem fréttamaður hefur þarna haldið fram.