07.01.1988
Neðri deild: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3735 í B-deild Alþingistíðinda. (2601)

Fréttir í Sjónvarpinu

Forseti (Jón Kristjánsson):

Í þessu sambandi vil ég geta þess að það hefur enginn fréttamaður haft samband við forseta Nd. um gang þingmála og ekki talað við forseta þessarar deildar aukatekið orð um það efni, hvorki í gær né síðan þetta þinghald hófst.

Ég vil sérstaklega láta þetta koma fram að forsetar þingsins hafa ekki verið inntir af fjölmiðlum aukatekið orð um þetta þinghald. Heimildir fjölmiðlanna eru frá einhverjum öðrum komnar. Mér er ekki kunnugt um frá hverjum þessi frétt er komin eða hverjir eru heimildarmenn að henni sem var í Ríkissjónvarpinu í gær. Hún er ekki komin frá forseta þessarar deildar af þeim ástæðum sem ég hef þegar rakið.

Ég er að sjálfsögðu tilbúinn, ef ég er inntur eftir, að skýra frá gangi mála í þingdeildum því að ég tel mig vera því kunnugan því að ég hef verið löngum fundarstjóri og verkstjóri hér, en ég hef ekki verið inntur eftir því.

Ég tók það fram í ræðustól í gær, a.m.k. í tvígang, að umræður í þessari hv. deild í gær hefðu verið fullkomlega eðlilegar og með eðlilegum hætti og málefnalegar og það er skjalfest hér þannig að þessar fréttir eru alls ekki frá mér komnar. Það get ég upplýst. En mér er ekki kunnugt um heimildarmenn að þessum fréttum.