07.01.1988
Neðri deild: 48. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3737 í B-deild Alþingistíðinda. (2604)

Fréttir í Sjónvarpinu

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég kveð mér sérstaklega hljóðs um þingsköp til að þakka forseta deildarinnar fyrir þau ummæli sem hann lét hér falla um umræðuna í gær. Ég tel mjög mikilvægt að forseti gaf slíka yfirlýsingu af forsetastóli um sitt mat á þeirri umræðu sem hér fór fram. Það svarar að mínu mati best þeim sjálfskipaða sleggjudómara sem tók að sér að kveða upp úr um það frammi fyrir þjóðinni hvers eðlis umræður á Alþingi hefðu verið í gær.

Ég verð að segja alveg eins og er að frétt af þessu tagi er fyrir neðan allar hellur og dæmir best þennan málflutning. Það er ekki reynt að miðla einu einasta efnisatriði til þjóðarinnar úr þeirri umræðu sem fór fram. Það er ekki nefnt að mál þetta hefur verið að taka breytingum allan tímann sem það hefur verið í meðförum Alþingis og að undir umræðunni í gær birtust brtt. Það er ekki nefnt að þessi umræða samanstóð af þátttöku jafnt stjórnarliða sem stjórnarandstæðinga. Öllu þessu er sleppt en kveðið upp úr um eðli umræðunnar með þeim hætti að algerlega óviðunandi er. Ég tel að fréttaflutning Sjónvarpsins hafi í þessu efni sem reyndar áður sett svo stórlega niður að verulegt áfall hljóti að teljast fyrir metnað þeirrar stofnunar.

Ég leyfi mér að segja úr þessum stóli að það verður ekki horft fram hjá því að fréttaflutningur ríkissjónvarpsins af störfum hér á Alþingi er óviðunandi og stórlega lakari en flestra annarra fjölmiðla. Þar vil ég t.d. sérstaklega nefna fréttastofu hljóðvarpsins sem leggur mun meiri metnað og meiri vinnu í að miðla efnislegum upplýsingum um störf Alþingis til þjóðarinnar. Ég tel að hér verði og hljóti að þurfa að verða breyting á og hún verður að gerast strax, sú breyting, hvað sem til þarf.