22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 321 í B-deild Alþingistíðinda. (264)

Sala Útvegsbankans

Dómsmálaráðherra (Jón Sigurðsson):

Hæstv. forseti. Síðasti ræðumaður, málshefjandi, vék réttilega að því að ástæðan fyrir sameiningarstefnunni, samrunastefnunni í bankamálum, er einmitt sú að okkar bankakerfi er dýrara en það þyrfti að vera. Það er líka rétt hjá honum að salan á Útvegsbankabréfunum hefur í sér fólgna möguleika til þess að ná skynsamlegri og hagkvæmari bankaþjónustu í þessu landi. Það er hins vegar ekki rétt hjá honum að þessu tækifæri hafi verið glatað. Það er svo sannarlega í höndum okkar enn og verður nýtt. Ég get fullvissað hann um það. Vandinn er einmitt sá að finna lag til að leysa málið. Þetta er ekki mál sem er til þess fallið að höggva á hnúta. Hér þarf að leysa hnúta og það verður líka gert. Ég þakka málshefjandanum fyrir að hafa endað á því sem vit er í af því sem hann hefur sagt, að vandinn sé hinn mikli vaxtamunur, innláns- og útlánsvaxta. Þar birtist kostnaðurinn við bankakerfið, hann þurfum við að lækka. Það verður ekki gert með dagskipun. Það verður gert með skipulagsumbótum í bankakerfinu og að því vinnur ríkisstjórnin nú.

Ég ætla að víkja örfáum orðum að því sem fram kom í máli þriggja þm. Borgarafl. háttvirtra. Þeir höfðu eiginlega tvennt að segja: Að viðskrh. þyrði ekki að selja bankann, enda væri SÍS eiginlega búið að kaupa hann, og hins vegar að þetta þyrfti að gerast strax og að Sambandið ætti bankann í raun og veru þótt best væri að ríkið ætti hann. Hvorugt er þetta rétt. Það er ástæða til þess að víkja dálítið að því hvernig þetta gekk fyrir sig.

Föstudaginn 14. ágúst sl. gerði Samband ísi. samvinnufélaga ásamt þremur samstarfsfyrirtækjum sínum tilboð í 67% af öllu hlutafé í Útvegsbankanum. Þessu tilboði fylgdi yfirlýsing um fyrirhugaðan samruna Samvinnubankans við Útvegsbankann og líka var getið um áhuga hjá tilboðsgjafanum á því að innlánsdeildir kaupfélaganna og Alþýðubankinn, ef hann vildi vera með, tækju þátt í slíkri sameiningu. Ég tók þetta tilboð til athugunar m.a. með fyrirvara um samþykki þar sem það samrýmdist ekki markmiðum um dreifingu eignarhalds í bönkum en í auglýsingu viðskrn. frá því í júní var einmitt tekið fram að einstakir aðilar gætu ekki keypt hlutafé fyrir meira en 50 millj. króna nema með samþykki ráðherrans. Þetta er mjög einfalt mál. Á því var leitað álits hjá virtum lögfræðingi, prófessor Stefáni Má Stefánssyni, sem lét það álit í té að alveg skýlaust væri og óyggjandi að ráðherranum væri rétt að taka hvaða tilboði sem væri eða hafna ef það væri yfir 50 millj. króna markinu. Tilboð sambandsmanna ýtti við öðrum aðilum sem hafa haft hug á að kaupa hlutafé í Útvegsbankanum og mánudaginn 17. ágúst, þrem dögum eftir að tilboð Sambandsins kom fram, gerðu fulltrúar 33 aðila eitt, sameiginlegt tilboð í öll hlutabréfin. Þetta tilboð var því líka yfir 50 millj. kr. Meðal tilboðsgjafanna voru bæði Iðnaðarbankinn og Verslunarbankinn og fylgdu yfirlýsingar um áhuga á samruna. Þetta tilboð tók ég líka til athugunar í viðskrn. Það gerðist svo loks fyrir lok ágúst að Sambandið lýsti því yfir að það vildi kaupa öll hlutabréf ríkisins í bankanum. Þessi tilboð bæði eru enn til athugunar og ég á enn í viðræðum við þessa aðila. Hvers vegna er ég að því? Einfaldlega af því að í þessum tilboðum eru fólgnir möguleikar til samruna en sá böggull fylgir skammrifi frá sjónarmiði tilboðsgjafanna að ég hef ekki hug á því að afhenda annarri hvorri þessara „blokka“ allsherjaryfirráð í Útvegsbankanum né í öðrum banka. Það eru nefnilega fleiri sjónarmið í málinu og ég vil vekja athygli á því sem fram kom í minni fyrri ræðu að þau lúta að því að dreifa valdi og eignarhaldi yfir bönkum, að tryggja viðskiptaleg sjónarmið, að tryggja það að ríkið endurheimti fjármuni sína og um leið verði stuðlað að samruna í bankakerfinu. Þetta eru allt sjónarmið sem enn eru í gildi og ég tek það fram að lokum, svo að ég svari beinum fyrirspurnum hv. 6. þm. Reykv., að sameiningarleiðin hefur vissulega verið rædd og könnuð og verður áfram könnuð. Það lýtur líka að því sem hv. 7. þm. Reykv. vék að í sínu máli.

Það kom líka fram spurning hjá hv. 5. þm. Reykn. um það hvort Samband ísl, samvinnufélaga hefði lýst því yfir í samtölum við mig eða annars staðar að það teldi sig hafa keypt hlutabréf ríkisins í bankanum. Já, það er öllum kunnugt. Því hafa þeir lýst yfir í heyranda hljóði, en ég er ekki sammála þeim. Sá sem er að selja þennan hlut hefur ekki selt þeim hann. Síðan var spurt hvort þeir hefðu hótað málshöfðun. Nei, það hafa þeir ekki gert. Þeir hafa engri málshöfðun hótað.

Að endingu, hæstv. forseti, ég lýk máli mínu með því að segja að ég hafi leitast við að finna lausn á máli sölunnar á Útvegsbankabréfunum á grundvelli laganna sem sett voru sl. vetur en lausn sem líka væri í samræmi við stefnu núverandi ríkisstjórnar í bankamálum og víðtækt samkomulag gæti tekist um. Ég hef m.a. efnt til viðræðna við fulltrúa tilboðsgjafanna og lagt að þeim að kaupa hluti í bankanum sem væru minna en meiri hluti um leið og hann verði efldur með sameiningu við aðrar bankastofnanir. Þessum viðræðum er ekki lokið og að svo stöddu ætla ég ekki að leiða neinum getum að því til hvaða niðurstöðu þær muni leiða en eitt er víst að þessu máli verður lokið farsællega.