22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 323 í B-deild Alþingistíðinda. (265)

27. mál, ráðstefna í Reykjavík um afvopnun á norðurhöfum

Flm. (Ólafur Ragnar Grímsson):

Herra forseti. Viðræður Bandaríkjanna og Sovétríkjanna um fækkun kjarnorkuvopna á meginlandi Evrópu virðast nú hafa skilað þeim árangri að í höfn er nánast fullbúinn samningur sem marka mun tímamót í sögu kjarnorkuvígbúnaðar. Í fyrsta sinn yrði samið um fækkun kjarnorkuvopna þar eð allir fyrri samningar hafa eingöngu fjallað um stjórn á aukningu kjarnorkuvígbúnaðarins.

Á sama tíma og mikil ánægja ríkir víða um heim með þennan árangur er nauðsynlegt að gera sér grein fyrir því að engu að síður er haldið áfram að framleiða kjarnorkuvopn sem beita skal á öðrum vettvangi, m.a. mikinn fjölda nýrra kjarnorkuvopna sem staðsetja á í kafbátum í höfunum í kringum Ísland eða á skipum sem sigla eiga á helstu siglingaleiðum í kringum land okkar. Það er því sérstaklega brýnt að Íslendingar og aðrar þjóðir sem búa við norðurhöf geri sér grein fyrir þeirri hættu sem fækkun kjarnorkuvopna á meginlandi Evrópu getur skapað, þ.e. þeirri hættu að hún leiði til þess að verulega verði fjölgað kjarnorkuvopnum í kafbátum og skipum sem haldið er úti á úthöfum í kringum Ísland og helstu nágrannalönd okkar. Kjarnorkuveldin fjögur, Bandaríkin, Sovétríkin, Bretland og Frakkland eru nú að hrinda í framkvæmd áætlunum um að auka verulega þann kjarnorkuvígbúnað sem staðsetja á í kafbátum og á skipum sem sigla eiga í höfunum í kringum Ísland.

Þótt víðtækar viðræður eigi sér stað um fækkun kjarnorkuvopna á meginlandi Evrópu þá er það því miður staðreynd að engar viðræður hafa farið fram eða fara nú fram um fækkun kjarnorkuvopna á norðurhöfum. Nánast öll athyglin hefur beinst að fækkun kjarnorkuvopna á meginlandi Evrópu. Það er hins vegar mjög brýnt fyrir okkur og aðrar þjóðir í okkar heimshluta að reynt verði að koma hið fyrsta á viðræðum sem snúast um fækkun kjarnorkuvopna í höfunum í kringum Ísland.

Ef slíkar viðræður fara ekki í gang þá blasir sú hætta við okkur Íslendingum að á næstu árum muni verulega aukast kjarnorkuvígbúnaðurinn í höfunum í kringum Ísland. Þessi hætta er einkum og sér í lagi alvarleg vegna þess að fjölmargar nýjar skýrslur og rannsóknir hafa leitt í ljós að bilanir og slys í kjarnorkukafbátum hafa hvað eftir annað skapað verulega hættu á geislavirkni hafanna í kringum Ísland. Slík geislavirkni, jafnvel þótt aðeins um minni háttar slys eða bilun væri að ræða, mundi eyðileggja markaðsstöðu sjávarafurða okkar í einni sjónhendingu. Það er því ekki aðeins frá sjónarmiði vígbúnaðarins sem það er mikilvægt fyrir Íslendinga að koma í gang viðræðum um fækkun kjarnorkuvopna á höfunum, heldur er það í reynd brýnt efnahagslegt öryggismál að við reynum að stuðla að því að dregið verði úr þeirri hættu, sem felst í þessari miklu umferð kjarnorkukafbáta og kjarnorkuknúinna kafbáta og skipa með kjarnorkuskeyti í höfunum í kringum Ísland, að úr þeirri umferð verði dregið.

Það er rétt að vekja athygli hæstv. Alþingis á því að þó nokkur hluti þeirra sovésku kjarnorkukafbáta sem sigla hér meðfram ströndum Íslands eru knúnir sams konar kjarnakljúfum og voru notaðir við Tsjernóbíl. Það er hins vegar enn meiri hætta á því, vegna eðlis kjarnakljúfanna sem notaðir eru í kjarnorkukafbátum, að þeir geti leitt til bilunar og geislavirkni. Á sama hátt hafa skýrslur, sem birtar hafa verið á síðustu árum um bilanir og slys og geislaúrgang í bandarískum kafbátum, leitt það í ljós að nokkur hundruð slíkra tilvika hafa átt sér stað á undanförnum áratugum. Það er þó nokkur fjöldi kjarnorkukafbáta sem farist hefur með þeim hætti að veruleg hætta hefur skapast á því að lífríki sjávarins í kringum slysstaðina væri mengað vegna geislavirkni. Það eru einnig, því miður, nokkur hundruð hermanna í flota Bandaríkjanna og Sovétríkjanna sem látið hafa lífið á undanförnum áratugum vegna slíkra bilana og slysa í kjarnorkukafbátum. Og á dvalarheimilum sjómanna, t.d. í Sovétríkjunum, er að finna þó nokkurn fjölda einstaklinga sem hlotið hafa geislavirkni af völdum starfa sinna við kjarnorkukafbátana. Einnig er hægt að nefna fjölmörg atvik, þar sem bandarískir eða breskir kjarnorkukafbátar hafa átt í hlut, þar sem við hefur legið að mörg hundruð manna ýmist létu lífið eða biðu verulegt tjón á heilsu sinni vegna hættu á geislavirkni.

Ég vil í þessu sambandi vekja athygli þingheims á mjög ítarlegum greinum sem Vigfús Geirdal skrifaði fyrir nokkrum mánuðum síðan þar sem hann rakti mjög ítarlega rannsóknir bandarískra og sovéskra fræðimanna á þessum hættum, greindi frá opinberum skýrslum í Bandaríkjunum og Sovétríkjunum.

Það er þess vegna nauðsynlegt fyrir okkur Íslendinga að gera okkur grein fyrir því að sú mikla umferð kjarnorkukafbáta og skipa með kjarnorkuvopn í höfunum í kringum Ísland, milli Grænlands og Íslands og Íslands og Noregs, gæti hæglega á næstu árum leitt til þess að okkar dýrmætasta umhverfisauðlind, fiskistofnarnir í hafinu, yrðu eyðilagðir. Ég vil segja við hv. þm. Eyjólf Konráð Jónsson, formann utanrmn., sem á undanförnum árum og áratugum hefur helgað verulegan hluta stjórnmálastarfs síns baráttunni fyrir auknum réttindum Íslendinga til efnahagslögsögu og fiskveiðilögsögu í höfunum í kringum Ísland, að sú barátta yrði til einskis eða lítils ef hér yrðu í höfunum í kring sams konar slys og urðu við Tsjernóbíl, sams konar óhöpp og orðið hafa hjá fjölmörgum bandarískum kafbátum.

Hér er þess vegna, herra forseti, hreyft máli sem er ekki aðeins þáttur í hinni alþjóðlegu afvopnunarumræðu í heiminum, heldur mál sem líkt og landhelgismálið snertir mjög öryggi og grundvöll dýrmætustu efnahagslegu auðlindar okkar Íslendinga. Ég vona því að sú tillaga, sem hér er flutt og flutt er í þeim anda að reynt er að skapa grundvöll fyrir því að allir flokkar hér á Alþingi geti í sameiningu skoðað málið í fullri alvöru, verði til þess að Alþingi og ríkisstjórn nái samstöðu um að beita sér fyrir ráðstefnu af því tagi sem hér er gerð tillaga um.

Ráðstefnan yrði eins og till. ber með sér ekki vettvangur formlegra samningaviðræðna heldur vettvangur til þess að ræða með hvaða hætti væri hægt að koma slíkum viðræðum á, hvert ætti efni þeirra að vera, áfangar og verklag. Jafnframt er kveðið á um það að ríkisstjórn Íslands mundi bjóða að Reykjavík yrði heimkynni þeirra viðræðna á líkan hátt og Genf hefur verið heimkynni viðræðnanna um fækkun kjarnorkuvopna í Evrópu og Stokkhólmur og Helsinki hafa verið vettvangur mjög mikilvægra viðræðna um samninga í mannréttindamálum og vígbúnaðarmálum með góðum árangri á undanförnum áratugum.

Í tillögunni er kveðið á um að til þessarar ráðstefnu yrði boðið:

1. Fulltrúum þeirra fjögurra kjarnorkuvelda sem halda úti kjarnorkukafbátum á norðurhöfum.

2. Fulltrúum ríkisstjórna og þjóðþinga á Norðurlöndum til þess að tryggja að fulltrúar allra skoðana helstu nágrannalanda okkar fái að koma fram á slíkri undirbúningsráðstefnu.

3. Formlegum fulltrúum Atlantshafsbandalagsins og Varsjárbandalagsins en einnig fulltrúum ríkisstjórna og þjóðþinga í Kanada og á Írlandi. Er rétt í því sambandi að vekja sérstaka athygli á því að í Kanada fara nú fram heitar og miklar umræður um það hvort Kanada eigi að koma sér upp nýjum flota kjarnorkukafbáta til þess að nota í höfunum þar í kring. Að vísu ekki kafbáta sem ætlað er að bera kjarnorkuvopn en sem knúnir eiga að vera með kjarnorku. Einnig fulltrúum annarra ríkja í Evrópu innan og utan hernaðarbandalaga, sem áhuga hefðu á að sækja slíka ráðstefnu.

Viðfangsefni ráðstefnunnar yrði að fjalla um eðli hernaðarstarfseminnar í norðurhöfum, að ræða hvernig koma mætti í veg fyrir að fækkun kjarnorkuvopna á meginlandi Evrópu leiddi til fjölgunar þeirra í höfunum hér í kring, að gera tillögur um hvernig formlegum viðræðum yrði komið á og að ræða leiðir til að draga úr þeim hættum sem fiskistofnum og lífríki sjávar stafar frá geislavirkni vegna hugsanlegra bilana, kjarnorkuleka og slysa í kjarnorkukafbátum.

Í till. er einnig kveðið á um að Alþingi feli hæstv. utanrrh. að eiga formlegar undirbúningsviðræður við fulltrúa þeirra ríkja sem boðið yrði til slíkrar ráðstefnu. Þess er ekki að vænta að slíkt boð mundi bera árangur ef það yrði einhliða sett fram hér af hálfu Íslands, heldur er nauðsynlegt að fulltrúi ríkisstjórnarinnar eigi um það undirbúningsviðræður við fulltrúa þessara ríkja. Málið sé þannig einnig undirbúið eftir diplomatískum leiðum til þess að efla skilning og velvild þessara aðila á hagsmunum okkar í þessu máli. Auk þess verði utanrrn., utanrmn. Alþingis, Öryggismálanefnd og Háskóla Íslands falið að vinna að þeim faglegu greinargerðum og þeirri gagnaöflun sem óhjákvæmilega er nauðsynleg til að þessi ráðstefna verði sem vandlegast undirbúin.

Herra forseti. Ég vænti þess að þessi till. geti í hv. utanrmn. fengið vandlega umfjöllun. Ég ber þó þá ósk í brjósti að utanrmn. geti lokið umfjöllun um hana á þessu ári, í síðasta lagi í upphafi arsins 1988, vegna þess að um þessar mundir og einkum og sér í lagi í kjölfar væntanlegs leiðtogafundar forseta Bandaríkjanna og leiðtoga Sovétríkjanna munu fara fram á alþjóðavettvangi umræður um það hverjir eiga að vera næstu áfangarnir í afvopnunarviðræðum milli kjarnorkuveldanna og risaveldanna. Það er þess vegna mjög mikilvægt að við Íslendingar setjum fram það sjónarmið okkar í tæka tíð að við teljum að afvopnun á höfunum — ekki bara vegna vígbúnaðarins heldur einnig vegna hins efnahagslega öryggis þar eð fiskistofnunum og lífríkinu er stefnt í hættu með vaxandi umferð slíkra skipa hér í höfunum í kring — að þessi þáttur eigi að vera þar mjög ofarlega á dagskrá.

Reynslan kennir okkur því miður að slíkir samningar geta tekið langan tíma. Reynslan kennir okkur einnig að það skapast oft augnablik, nokkrar vikur, nokkrir mánuðir þar sem ráðin er dagskrá þessara viðfangsefna til margra ára, jafnvel eins til tveggja áratuga, og ef menn grípa ekki nægilega fljótt og vel inn í þá atburðarás, þá er hætta á að menn þurfi að bíða ærið lengi, jafnvel árum saman ef ekki áratugum saman til þess að koma sínum hagsmunamálum á framfæri. Nú virðist hins vegar vera kominn rétti tíminn fyrir okkur Íslendinga til þess að tefla fram okkar sjónarmiðum og okkar hagsmunum í þessu máli.

Ég vænti þess, herra forseti, um leið og ég óska eftir því að þessari till. verði vísað til hv. utanrmn., að hún hugleiði málið einnig með tilliti til þeirra miklu tímamóta sem eru að gerast í þessum málum og þeirra tækifæra sem nú eru að skapast til þess að hafa áhrif á dagskrá og viðfangsefni alþjóðlegra viðræðna um þessi efni á næstu árum og áratugum.