07.01.1988
Neðri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3749 í B-deild Alþingistíðinda. (2658)

181. mál, stjórn fiskveiða

Sighvatur Björgvinsson:

Herra forseti. Ég lét svo ummælt við 2. umr. þessa máls að þótt ég væri í öllum meginefnisatriðum andvígur því stjórnunarfyrirkomulagi á fiskveiðum sem frv. þetta gerir ráð fyrir mundi ég engu að síður una niðurstöðu án mótatkvæðis ef menn féllust á að taka tillit til þorra þeirra till. sem hv. 1. þm. Vestf. flutti við 2. umr. Í atkvæðagreiðslunni gerðist það hins vegar að mikill meiri hluti sjálfstæðismanna snerist öndverður gegn þeim manni í þingflokki Sjálfstfl. sem áratugum saman hefur verið helsti talsmaður flokksins í sjávarútvegsmálum, og eru það út af fyrir sig mikil tíðindi, þannig að engin till. hv. þm. hlaut samþykki. Ég boðaði það þá einnig að ég mundi við 3. umr. málsins gera tilraun til að koma við enn nokkrum leiðréttingum þó svo þær yrðu mun færri og veigaminni en þær sem ég hafði lýst stuðningi við við 2. umr. Áður en ég geri grein fyrir þeim vil ég þó ítreka beiðni mína, sem kom fram í ræðu minni hér í gær, til hv. 1. þm. Vestf. og formanns sjútvn., hvort hann gæti fallist á að nefndin tæki í vetur að hans tillögu til gaumgæfilegrar skoðunar þau gögn og forsendur sem Hafrannsóknastofnun byggir spár sínar og tillögugerðir á sem ég hef rakið bæði við 1. og 2. umr. þessa máls í hv. deild að ekki hafa staðist og fer því víðs fjarri. Ég ítreka því þessa beiðni mína við hv. 1. þm. Vestf., að hann sem formaður sjútvn. fallist á að vinna þannig að málinu í vetur.

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa langt mál að þessu sinni, aðeins lýsa þeim fjórum brtt. í örstuttu máli sem ég flyt á þskj. 495.

1. brtt. varðar 13. gr. frv. og er um að aftan við 1. málsgr. þeirrar greinar komi nýr málsl. sem hljóði svo:

„Einnig er heimilt að flytja aflamark skips yfir á skip með sóknarmarki, enda sé um að ræða skip sömu útgerðar eða skip sem gerð eru út frá sömu verstöð.“

Hv. deild hefur áður fellt till. um breytingar frá ákvæðum frv. þess efnis að heimila flutning á sóknarmarki milli sóknarmarksskipa. Þessi till. gengur skemur en sú till. og er aðeins um það að ef hjá einni og sömu útgerð eða í einni og sömu verstöð sé um að ræða skip með aflamarki sem af einhverjum ástæðum, bilunar eða tjóns, getur ekki stundað veiðar sé viðkomandi útgerð eða verstöð heimilt að flytja aflamark þess skips yfir á skip með sóknarmarki án þess þó að sóknardögum sóknarmarksskipsins sé að neinu fjölgað heldur verði það skip þá að taka þennan viðbótarafla innan þess sóknarmarks sem það hefur fengið. Þetta er tiltölulega lítilvæg brtt., er eingöngu ætluð til þess að slíkar aðstæður eins og ég var að lýsa áðan verði ekki til þess, þá sérstaklega í minni verstöðvum, að aflamark, sem af einhverjum ástæðum er ekki hægt að nýta, falli gjörsamlega dautt niður eða verði að seljast út úr byggðarlaginu.

Ég held að ef menn skoða þetta mál af sanngirni ætti enginn að geta lagst á móti slíkri till. né heldur að þurfa að hafa minnstu áhyggjur af því að þetta muni breyta einhverju umtalsverðu frá þeim ákvæðum sem nú eru í frv. Þetta er einvörðungu til að tryggja, sérstaklega þó í litlum verstöðvum, að það gerist ekki að aflamark, sem menn eiga þar, verði að liggja ónýtt eða seljast út úr byggðarlaginu af því að heimild vanti til að flytja slíkt aflamark yfir á sóknarmarksskip á sama stað eða hjá sömu útgerð.

2. brtt. er við 14. gr. Áður hefur verið felld till. þess efnis sem heimilar hæstv. sjútvrh. að úthluta kvóta til byggðarlaga sem misst hafa mjög verulegan afla vegna sölu skipa úr viðkomandi plássi. Þessi till. hljóðar hins vegar svo, með leyfi forseta:

„Sé fyrirsjáanlegur afkomubrestur í tilteknu byggðarlagi vegna fyrirhugaðrar skipasölu þaðan er ráðherra heimilt að undanþiggja allt að 20% þess aflamarks, sem sölunni á að fylgja skv. ákvæðum 2. málsgr., og ráðstafa til annarra útgerðaraðila í byggðarlaginu að fengnum tillögum hlutaðeigandi sveitarstjórnar.“

Þetta ákvæði er mun þrengra en það sem þegar hefur verið fellt og lýtur aðeins að því að ef fyrirsjáanlegt er að afkomubrestur sé líklegur vegna þess að það sé verið að selja brott úr viðkomandi verstöð mikilvægustu atvinnutæki staðarins sé heimilt að halda eftir í verstöðinni 20% af aflamarki, e.t.v. síðasta skips sem í verstöðinni er gert út og verið er að selja í burtu, og úthluta því aflamarki síðan að tillögu viðkomandi sveitarstjórnar til annarra útgerðaraðila á staðnum. Þau eru ekki mörg dæmi um slíka staði á Íslandi, en þau eru örfá, þar sem svo háttar til að það eru horfur á að öll útgerð frá sjávarplássum leggist niður vegna þess að verið sé að selja atvinnutækin burt úr viðkomandi stöðum, engin skip séu þar eftir og ekkert bolmagn sé hjá aðilum heima fyrir til að festa kaup á nýjum skipum með því feiknalega verði sem kvótakerfið hefur skapað á skipum á Íslandi. Þetta er að mínu viti lokatilraun sem gerð er á hinu háa Alþingi til að fá fram samþykkt Alþingis sem gæti að einhverju leyti bjargað slíkum byggðarlögum frá því að missa allar veiðiheimildir sínar brott úr byggðarlaginu á kannski örfáum mánuðum eða jafnvel örfáum vikum.

3. brtt. er um að ákvæði til bráðabirgða I orðist eins og þar segir. Það er mín skoðun að endurskoðun á stefnumörkun á stjórnun fiskveiða eigi að vera í höndunum á þingkjörinni nefnd af þeirri einföldu ástæðu að það er Alþingi sem setur lögin. Það er að sjálfsögðu eðlilegt þegar tekin er ákvörðun um að endurskoða lög sem Alþingi setur eftir tiltekið árabil að þá sé það nefnd alþm. á vegum Alþingis sem að þeirri endurskoðun vinnur. Það mun greiða mjög mikið fyrir málum og flýta fyrir skynsamlegum niðurstöðum að þegar málin svo koma til kasta Alþingis, kannski með skömmum fyrirvara eins og hér hefur gerst, komi alþm. allflestir ekki alveg nýir að málinu heldur séu þingið og þingflokkarnir þá þegar búin að leggja mjög mikla vinnu í að endurskoða gildandi lög þannig að menn viti í fyrsta lagi hvað er verið að ræða um og í öðru lagi séu búnir að skoða ýmsar hugmyndir sem til greina koma, eins og ég tel vissulega að komi vel til greina í þeim tillögum sem hér hafa verið fluttar af hv. stjórnarandstöðu, atriði eins og byggðakvóti, atriði eins og það að taka ákveðið aflamagn út fyrir sviga áður en aflamarki er úthlutað á milli skipa eða annarra aðila. Þetta kemur að sjálfsögðu allt og á allt að koma til greina og þarf að skoða. Auðvitað er það sú nefnd sem kemur til með að endurskoða lögin sem á sérstaklega að fjalla um þetta. Þegar Alþingi ákveður í lagasetningu að lög skuli endurskoðuð innan tiltölulega skamms tíma er eðlilegt og sjálfsagt að Alþingi hafi einnig þann háttinn á að það eða fulltrúar á þess vegum sjái um þá endurskoðun, að sjálfsögðu undir forustu ráðherra í viðkomandi grein. Með þessari till. er síður en svo verið að gera því skóna að sjútvrh. eigi ekki að hafa alla forustu um slíka endurskoðun og hún að vera með hans þátttöku og undir hans stjórn, en það er eðlilegt að Alþingi eigi beina aðild að slíkri endurskoðun eins og þessi till. gerir ráð fyrir.

Ég tel að þau atriði sem nánar er lýst í till., um hvað eigi að skoða og hvernig, ættu að vera mjög ásættanleg fyrir a.m.k. allan meginþorra þingheims og jafnvel þm. alla og ég tel mjög nauðsynlegt að það sé fram tekið með sem greinarbestum hætti í sjálfri tillgr. hvernig þessi endurskoðun eigi fram að fara. Að mínu viti þarf endurskoðunin fram að fara. Hún hefur ekki farið fram með þessum hætti og því legg ég til að sú endurskoðun, sem er hvort eð er í bígerð, fari fram eins og tillgr. segir.

Að lokum, herra forseti, er það 4. brtt. sem ég flyt á þessu þskj. Nú þegar hefur verið felld brtt. frá hv. 1. þm. Vestf. um að heimila veiðileyfi vegna tiltekins fjölda skipa sem fórust á árunum 1983–1984 og ekki hafa fengist skip í staðinn fyrir. Við skulum gera okkur grein fyrir því að þegar þessi skip farast á árunum 1983–1984 eru þeir sem skipin eiga þess alls óvitandi að þau slys sem þarna hentu yrðu til þess að atvinnuréttindin yrðu frá þessum mönnum tekin ef þeir hefðu ekki hraðan á að útvega sér önnur skip í staðinn, skip sem þá raunar voru ekki til nema með slíku afarverði að enginn venjulegur útgerðar- og sjómaður réði við slíkt. Ef þessir menn hefðu vitað að sú ákvörðun þeirra að reyna að bíða með að kaupa sér skip í staðinn þangað til þeir gætu betur ráðið við slíkt fjárhagslega mundi kosta þá atvinnuréttindin, sem þeir höfðu haft sem sjómenn og útgerðarmenn, sumir hverjir í mörg ár áður en þessi slys urðu, hefðu þeir sjálfsagt gert tilraunir til að afla sér annaðhvort lánsfjár eða meðeiganda til að tryggja sér að þurfa ekki að glata þessum rétti sínum. En það sem gerðist var það að með seinni ákvörðunum sínum sviptu stjórnvöld þá einstaklinga sem þarna eiga hlut að máli og fjölskyldur þeirra þeim afkomumöguleikum og þeim atvinnuréttindum sem þeir höfðu áður haft án þess að þessum einstaklingum og þeirra fjölskyldum væri ljóst þegar það gerðist hvernig fara mundi ef fram héldi sem þá horfði.

Ég tel að Alþingi og löggjafarvaldið verði að bæta þessu fólki þann skaða sem síðari lagasetning Alþingis hefur valdið þessum aðilum sem urðu fyrir skaða í grandaleysi. Það verðum við að gera með þeim hætti að tryggja þessum mönnum að geta haldið áfram þeirri atvinnustarfsemi sem þeir stunduðu á árunum 1983–1984 og voru í góðri trú um að þeir mundu geta haldið áfram þó að þeir biðu um einhverja skamma hríð eftir því að geta keypt sér ný skip í staðinn fyrir þau sem sukku. Það er alveg nóg áfall fyrir skipseigenda, hvort sem um er að ræða sjómann eða útgerðarmann, að verða fyrir því að missa skip sitt í sjávarháska þó það bætist ekki við að kannski einu, einu og hálfu ári síðar uppgötvi hann að Alþingi hafi sett lög sem meina honum að halda áfram því starfi sem hann hafði kosið sér að ævistarfi sínu. Nóg áfallið var nú það fyrra, að missa skip í sjóslysi, svo ekki bætist það síðara ofan á. Mér er alveg ljóst að það eru nokkur vandkvæði á að bæta mönnum þennan skaða, en þann vanda verðum við að leysa. Það er skylda okkar að gera það. Í 4. brtt. er lagt til að hann sé leystur á þann hátt að á gildistíma laganna um fiskveiðistjórnun skuli ráðherra árlega veita a.m.k. þremur skipum, er komi í stað skipa er fórust á þessum árum, veiðileyfi sem sé meðaltal aflamarks skipa í sama stærðarflokki. Við val á þessum skipum, sem fái veiðileyfi skv. þessu ákvæði, skuli við það miðað að þau verði gerð út frá byggðarlögum þar sem sjávarútvegur er undirstaða atvinnulífs en afli hefur dregist saman vegna fækkunar skipa.

Herra forseti. Ég hef lýst þeim fjórum till. sem ég flyt við lokaumræðuna um málið í hv. deild. Þær till. sem fluttar hafa verið, jafnt af stjórnarsinnum sem stjórnarandstæðingum, við þessa afgreiðslu málsins eru margar hverjar mjög athugunarverðar. Þær sýna hversu mikið lá raunverulega við að menn hæfu þessa endurskoðun fiskveiðistefnunnar miklu fyrr en menn gerðu þannig að betri og meiri tími gæfist til að skoða þær athyglisverðu hugmyndir sem komið hafa fram í þessum tillöguflutningi. Það er enn ein röksemdin fyrir því að það er ekki bara nauðsynlegt heldur óhjákvæmilegt og mundi létta af hæstv. sjútvrh. miklum vanda ef menn tækju þann pól í hæðina að velja þá leið til endurskoðunar á lögunum að kjósa til þess sérstaka nefnd héðan úr þinginu, skipaða þm., fremur en að vera í viðræðum við hagsmunasamtökin mánuð inn og mánuð út og ætla sér síðan að afgreiða málin á örfáum vikum á hinu háa Alþingi án þess að þm. gefist kostur á að setja fram sínar ábendingar og skoðanir með öðrum hætti en með tillöguflutningi á Alþingi sem síðan fæst ekki samþykktur því menn eru búnir að binda sig í báða skó þegar að afgreiðslunni kemur.

Ég ætla ekki að segja fleira að sinni, herra forseti. En verði þessar till. samþykktar mun ég ekki gera frekari athugasemdir við frv. til laga um stjórn fiskveiða. Verði þær hins vegar felldar get ég ekki staðið að þeirri lagasetningu og mun greiða atkvæði gegn henni.