07.01.1988
Neðri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3766 í B-deild Alþingistíðinda. (2662)

181. mál, stjórn fiskveiða

Kristín Einarsdóttir:

Herra forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð við þessa þriðju og síðustu umræðu um frv. til laga um stjórn fiskveiða, enda hafa sjónarmið Kvennalistans komið fram við fyrri umræður málsins. Að vísu virðist vera um einhvern smámisskilning að ræða, sérstaklega með tilliti til ummæla hv. 2. þm. Vestf. Ólafs Þ. Þórðarsonar. Ég veit ekki almennilega hvort hann var að tala um tillögu Kvennalistans þegar hann var að tala um að ríkið mundi selja veiðiheimildir, en ég ætla að lesa þá til skýringar hluta af því sem er á þskj. 218, sem eru brtt. frá Kvennalistanum, en hann hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Heimildir til botnfiskveiða skulu vera tvenns konar:

a. 80% þess heildarafla, sem ákveðinn er skv. 2. gr., skal skipt milli byggðarlaga (útgerðarstaða) með hliðsjón af lönduðum afla síðustu fimm ára.

b. 20% heildaraflans skulu renna í sérstakan sameiginlegan sjóð, veiðileyfasjóð, og vera til sölu, leigu eða til sérstakrar ráðstöfunar til byggðarlaga.“

Ég vil vekja athygli hv. þm. á þessu því að við höfum gert ráð fyrir því að sveitarfélögin fengju úthlutað veiðiheimildum sem þau mundu síðan ráðstafa til aðila allt eftir aðstæðum á hverjum stað. Við gerum ráð fyrir því að sveitarfélögin muni alls ekki bera neinn skaða af þessu, frekar að þau gætu selt veiðileyfi, hvort sem það yrði til útgerðaraðila í þeirra héraði eða jafnvel til annarra útgerðaraðila fyrir utan, en þá yrði þeim skylt að taka fé fyrir. Ég held því að þarna hljóti að vera um einhvern misskilning að ræða vegna þess að þarna erum við að boða til valddreifingar, aukins valds sveitarfélaga og að hagur þeirra verði betri eftir en áður.

Ég vildi aðeins vekja athygli á þessu vegna þess að ég held að þarna hafi verið um misskilning að ræða af hálfu hv. þm.

Við höfum haft allt of stuttan tíma til að fjalla um þetta mál en við höfum verið mjög samvinnuþýð hérna og látið yfir okkur ganga að vinna hér bæði nótt og dag að þessum málum og þar af leiðandi hefur okkur tekist að afgreiða þetta frv. í gegnum 2. og nú bráðum 3. umr. frá deildinni á algjörum mettíma.

Ég lýsi stuðningi okkar kvennalistakvenna við brtt. á þskj. 495 frá hv. 5. þm. Vestf. Sighvati Björgvinssyni. Ég var reyndar búin að lýsa skoðun minni á svipuðum tillögum sem komu fram við 2. umr. Ég vil þó lýsa ánægju minni með það að það skyldi hafa verið prentvilla í skjalinu og að það eigi að kjósa níu manna nefnd en ekki bara sjö manna, eins og var á fyrsta plagginu, vegna þess að ég tel mikilvægt að allir þingflokkar fái aðild að þessari nefnd sem brtt. gerir ráð fyrir að verði skipuð. Í frv. sem er til umræðu er gert ráð fyrir í ákvæði til bráðabirgða að sjútvrh. skipi nefnd samkvæmt tilnefningu þingflokka. Brtt. gerir ráð fyrir að Alþingi kjósi þessa nefnd. Það er líka gert ráð fyrir að nefndin hafi samráð við helstu hagsmunaaðila í sjávarútvegi og fiskiðnaði og fleiri hagsmunaaðila en það er ekki neitt tilgreint í ákvæði til bráðabirgða sem er í frv. þannig að þetta er miklu fyllra og ákveðnara. Menn hafa væntanlega líka tekið eftir því þegar þeir hafa skoðað nánar það sem segir um hlutverk nefndarinnar, sem er talið upp í fjórum liðum, að það er orðrétt tekið upp úr stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar, það er á bls. 8 og 9. Það er því ólíklegt annað en að ríkisstjórnin og stuðningsmenn hennar muni samþykkja þessa tillögu. Það er varla hægt annað og lýsum við þar með stuðningi við þetta ákvæði í starfsáætlun ríkisstjórnar Þorsteins Pálssonar.

Varðandi brtt. 496 frá hv. þm. Steingrími J. Sigfússyni þar sem hann leggur til að orðið „ókeypis“ falli brott er mér til efs að það sé hægt að skylda þá aðila sem talað er um í 17. gr. til að veita þær upplýsingar sem þar er gert ráð fyrir, hvort sem þær eru ókeypis eða ekki. Í hópi þeirra sem þarna gæti verið um að ræða eru t.d. kaupendur afla erlendis og umboðsmenn erlendis líka. Það er vafamál hvort við getum krafist þessara upplýsinga og það er kannski til marks um það hversu stuttan tíma við höfum haft til umfjöllunar um þetta mál að vafaatriði sem þetta skuli komið upp hérna við 3. umr. í deildinni. Að vísu upplýsti hv. 1. þm. Vestf. að þetta hefði verið rætt í nefndum hérna áður og að það hafi þótt ómögulegt að fella þetta orð í burtu, þetta „ókeypis“. Ég veit nú ekki hvort maður á að tala um það grátandi eða ógrátandi hvers konar málsmeðferð þetta hefur haft ef það er búið að fjalla um þetta áður. Ég efast ekki um að það sé rétt sem hv. þm. hefur haldið fram, en einkennilegt er það ef það er orðið ástæða til þess að ekki megi breyta ákvæðum laga í frv. sem kemur frá ríkisstjórninni, ef Alþingi hefur ekki einu sinni leyfi til að fella út eitt einasta orð og reyndar kannski að athuga alla þessa grein hvort hún getur staðist yfirleitt, bara vegna þess að hún er komin frá ríkisstjórninni.