07.01.1988
Neðri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3770 í B-deild Alþingistíðinda. (2664)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 2. minni hl. sjútvn. (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Það eru aðeins fáein atriði sem mig langar til að nefna við 3. umr. þessa máls.

Ég tel að alvarlegustu ágallar frv., eins og það var samþykkt við 2. umr., varði sölu skipa, hömlulausa sölu skipa á milli landshluta og þar er ekki aðeins um skipasölu að ræða, heldur líka veiðirétt sem skapar eigendum fiskiskipa möguleika á að ná til sín gróða úr sameign allra landsmanna skv. 1. gr. frv. Þetta er í mínum huga alvarlegasti ágallinn á því verki sem hér er að fara í gegnum hv. þingdeild. Það var reynt að koma við hömlum, þótt veikar væru, í tillögu sem hv. 1. þm. Vestf. flutti í sambandi við 13. gr. frv., en það var fellt á jöfnum atkvæðum við atkvæðagreiðslu í dag.

Ég þarf ekki að hafa uppi stór orð um málsmeðferð eða frammistöðu hæstv. ríkisstjórnar og stuðningsmanna frv. eftir þá ádrepu sem hv. 1. þm. Vestf. hafði hér uppi um þau efni. Ég er ekki þar með að segja að við séum sammála um öll atriði þessa máls. Þó að við séum sammála um sumt greinir okkur á um annað, en spurningin stóð um það í dag í sambandi við atkvæðagreiðslu hvort menn vildu reyna að ná samstöðu og hún hefði raunar þurft að skapast fyrir þá atkvæðagreiðslu.

Ég kvaddi mér hljóðs fyrst og fremst, herra forseti, til þess að nefna það vegna ummæla hv. 2. þm. Vestf. Ólafs Þ. Þórðarsonar þar sem hann vék að þeirri hugmynd að sveitarfélögin í landinu eða aðilar heima fyrir, hann talaði um sveitarfélögin, hefðu forkaupsrétt að fiskiskipum áður en til sölu kæmi. Ég hreyfði þessari hugmynd í sjútvn. þessarar hv. deildar og bað um að það yrði kannað hvort ekki væri hægt að ná samstöðu um skipan af því tagi þannig að það gerðist ekki að sala skipa færi fram hjá án þess að viðkomandi sveitarfélög og aðilar heima fyrir kæmu þar vörnum við eða gætu skoðað málið til þess að halda skipi í viðkomandi höfn.

Ég fékk þau boð frá talsmönnum meiri hl. sjútvn. að á þetta væri ekki hægt að fallast svo að ég er ekki bjartsýnn, þrátt fyrir orð hv. 2. þm. Vestf. og áskorun um það að ríkisstjórnin taki á málinu út frá þessu sjónarhorni, á að það hljóti stuðning.

Hér liggja fyrir brtt. við 3. umr. frá hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrími J. Sigfússyni og frá hv. 5. þm. Vestf. Sighvati Björgvinssyni. Ég tel að í tillögu þess síðarnefnda, tillögu hins fyrrnefnda styð ég, séu atriði í mörgum greinum sem hægt er að styðja, geri þó fyrirvara um 1. tölul. Ég þarf að athuga hann betur áður en til afgreiðslu kemur. Í sambandi við þær hömlur sem gert er ráð fyrir með brtt. við 14. gr., hömlur varðandi skipasölu, er þar um mjög vægt ákvæði að ræða og reynir nú á það hvort menn vilja taka eitthvað undir þau sjónarmið sem Alþb. lagði fram í sínum tillögum um byggðakvóta og ákvæðið um níu manna nefnd sem Alþingi kysi til þess að endurskoða fyrirkomulag fiskveiðistjórnar að loknum gildistíma þessara laga tel ég mjög eðlilegt og þau atriði sem gert er ráð fyrir að komi til athugunar á vegum viðkomandi nefndar.

Herra forseti. Ég ætla ekki að lengja þessa umræðu frekar. Ég hef gert grein fyrir sjónarmiðum mínum og Alþb. í nál. og í fyrri umræðum og vísa til þess sem þar hefur komið fram.