07.01.1988
Neðri deild: 49. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3778 í B-deild Alþingistíðinda. (2669)

181. mál, stjórn fiskveiða

Steingrímur J. Sigfússon:

Herra forseti. Ég bjóst ekki við því að þessi „ókeypis“ umræða yrði jafnfyrirferðarmikil hér við 3. umr. málsins eins og raun ber vitni og í mínum huga var það ekki í sjálfu sér stórmál. Ég hafði jafnvel ímyndað mér að það væri svo tiltölulega einfalt og saklaust atriði að fella þetta orð niður að það gæti orðið ásættanlegt, enda vissi ég ekki forsögu málsins, sem sé þá forsögu að úr því að orðskrípið slæddist þarna inn í frv. í upphafi var það orðið grundvallarbaráttuatriði að halda því þar. Hefði það hins vegar aldrei lent þarna inn skilst mér að það hefði í sjálfu sér verið saklaust að greinin hefði staðið án orðsins, bara ef engum lifandi manni hefði verið um það kunnugt að það hefði komið þarna til tals.

Ég tek það fram að að sjálfsögðu er ég ekki með mótmælum mínum við því að hafa þetta orð inni í þessu samhengi að gera því skóna eða leggja til að það eigi ævinlega að gjalda fyrir upplýsingar af þessu tagi., það er langt í frá. Innan hóflegra marka er að sjálfsögðu eðlilegt að menn leggi fram upplýsingar til að auðvelda framkvæmdarvaldinu sín störf, enda eru um það fordæmi sem hæstv. ráðherra upplýsti hér um og ég þakka honum fyrir og er auðvitað rétt að í sambandi við skattalög og sjálfsagt víðar eru á afmörkuðum sviðum ákvæði um tilteknar upplýsingar, sem menn skuli láta af höndum ókeypis, þ.e. upplýsingar úr bókhaldi, upplýsingar um tekjur og gjöld o.s.frv. Þetta á bæði við um einstaklinga og fyrirtæki.

Ég tel hins vegar að hér sé um miklu víðtækari og opnari heimild að ræða en svo að unnt sé að bera þetta saman. Ég tel því enn að það sé eðlilegast að fella þetta orð niður. Það má gera samfara yfirlýsingu um að eftir sem áður sé ekki gert ráð fyrir því að greiðsla komi fyrir slíkar upplýsingar nema sérstakar ástæður mæli með. Þess vegna ætta ég að flytja, herra forseti, varatillögu við þá brtt. sem ég lagði fram á þá leið að verði það fellt að orðið „ókeypis“ falli út úr 17. gr. komi til vara orðalag af því tagi að útgerðarmenn, skipstjórnarmenn o.s.frv. sem upp eru taldir í greininni skuli láta ráðuneytinu í té án endurgjalds, nema sérstakar ástæður mæli með, þær upplýsingar o.s.frv. Ég vil m.ö.o. fá það alveg á hreint við atkvæðagreiðslu um slíka varatillögu, ef hin skyldi verða felld, að ráðherrann vilji ekki hafa heimild til þess, vilji undir öllum kringumstæðum að allar upplýsingar sem ráðuneytið kynni að telja sig þarfnast til framkvæmdar fiskveiðistefnunni skuli látnar í té ókeypis hvað sem tautar og raular. Það verður skemmtileg prófraun á það hvort hæstv. ráðherra sjálfur eða einhverjar stjórnarliðar gætu fallist á það að það sé e.t.v. ekki ástæða til þess að hafa þetta ákvæði algerlega fortakslaust og án undantekninga þó að mönnum sé það greinilega kært.

Ég tel afar óheppilegt með tilliti til samsetningar þessara aðila sem þarna eru taldir upp og með tilliti til þess að hér geta verið margs konar upplýsingar á ferðinni og þær skuli tilreiddar alveg í sérstöku formi sem ráðuneytinu þóknast að setja upp sé ekki heimilt alveg án undantekninga að greiða fyrir slíkt, greiða þolanda kostnað sem af slíku kynni að leiða. Ég held að það hlyti að vera heppilegra fyrir hæstv. ráðherra og gera honum lífið léttara og e.t.v. verða til þess að hann gæti brosað oftar í starfi sínu að hafa þó heimild til þess að geta greitt fyrir slíka hluti ef aðstæður mæla með. Þess vegna er þessi varatillaga flutt ef svo ólíklega vildi til að menn fallist ekki á að samþykkja hina fyrri.