22.10.1987
Sameinað þing: 7. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 328 í B-deild Alþingistíðinda. (267)

27. mál, ráðstefna í Reykjavík um afvopnun á norðurhöfum

Guðmundur G. Þórarinsson:

Hæstv. forseti. Fyrir u.þ.b. sjö árum flutti ég ásamt nokkrum þm. Framsfl. á hæstv. Alþingi þáltill. sem ég vil lesa hér, með leyfi hæstv. forseta. Till. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að beita sér fyrir því að haldin verði alþjóðleg ráðstefna hér á landi um afvopnun á Norður-Atlantshafi.

Tilgangur ráðstefnunnar verði að kynna viðhorf Íslendinga til hins geigvænlega kjarnorkuvígbúnaðar, sem nú fer fram í hafinu í kringum Ísland, og þá afstöðu Íslendinga að þeir telja tilveru þjóðar sinnar ógnað með þeirri stefnu sem þessi mál hafa verið og eru að taka.

Á ráðstefnunni verði ítarlega kynnt þau sjónarmið Íslendinga að þeir geti með engu móti unað þeirri þróun mála að kjarnorkuveldin freisti þess að tryggja eigin hag með því að fjölga kafbátum búnum kjarnorkuvopnum í hafinu við Ísland.“

Svo mörg voru þau orð. Meginröksemdir fyrir flutningi þessarar till. á þessum tíma voru þær að þá voru ýmsar blikur á lofti, umræður í ýmsum áttum sem bentu til þess að sterk öfl gætu beint vígbúnaðinum meira og meira út í hafið kringum Ísland. Í fyrsta lagi mátti skilja á ýmsum talsmönnum að baráttan um kjarnorkuvopnalaus Norðurlönd gæti haft þau áhrif að vígbúnaður yrði meiri í hafinu. Í öðru lagi voru á þeim tíma mjög miklar umræður um svonefndar MX-eldflaugar í Bandaríkjunum og andstaða orðin talsverð við staðsetningu þeirra í því landi. Margir þeir sem lögðust gegn byggingu þessara MX-eldflauga og smíði þeirra lögðu til að Bandaríkin efldu fremur vígbúnað sinn í hafinu. Þær raddir urðu sífellt sterkari sem töldu að stöðugleiki ógnarjafnvægisins yrði meiri ef vígbúnaðurinn yrði öflugri í hafinu vegna þess að það væri erfiðara að finna kafbátana og „önnur árás“ eða „second strike“ væri þar með öruggari.

Jafnframt var það svo að á þessum tíma fóru fram mjög miklar umræður um ný eldflaugakerfi í Evrópu sem síðar voru reist a.m.k. að verulegum hluta og afvopnunarviðræður snúast nú um að taka til baka. Margir þeir sem börðust gegn þessum nýju eldflaugakerfum í Evrópu töldu þá að möguleiki væri á að tryggja öryggið með auknum vígbúnaði í hafinu. Ég áleit þá ásamt þeim sem þessa till. fluttu með mér að það væri nauðsynlegt fyrir Íslendinga að vekja athygli á þróun þessara mála, að Íslendingar hefðu sjálfir frumkvæði að því að benda á að þeir mótmæltu því á vettvangi þjóðanna að þungamiðja vígbúnaðarins beindist að hafinu í kringum Ísland. Inn í þessa umræðu spannst þá jafnframt að afvopnunarviðræður, sem þá voru mest í gangi og hafa verið í gangi, snerust um Evrópu. Þær snerust um Evrópu sem enn á ný gat bent til þess, og hefur komið fram í máli ýmissa ráðamanna síðan, að menn teldu unnt að vinna upp þá afvopnun sem færi fram í Evrópu með fjölgun kjarnorkuvopna í hafinu.

Síðan þessi till. var flutt eru nú nærfellt sjö ár og margt hefur breyst á sviði heimsmála síðan þetta var til umræðu. Ekki kannski hvað síst það að Gorbatsjoff hefur í sinni frægu ræðu í Múrmansk lagt áherslu á afvopnun í norðurhöfum. Ég verð að játa að ég er dálítið hissa a því að flm., sem hér flytur ágæta till. og hefur fengið margs konar verðlaun á alþjóðavettvangi fyrir baráttu sína á þessu sviði og hefur vafalaust unnið mjög gott starf, skyldi hvorki geta þessarar till. sem er að miklu leyti samhljóða þeirri sem hann flytur, þó með öðrum hætti sé, eða þess frumkvæðis sem Gorbatsjoff hafði um afvopnun í norðurhöfum. En það má kannski segja um menn sem berjast til valda í einum flokki og gleyma meðal hundrað fulltrúa að taka til forustumenn Alþýðusambandsins og ýmsa borgarfulltrúa síns eigin flokks að eðlilegt sé að þeir gleymi smáköllum eins og mér og Gorbatsjoff í umræðu eins og hér fer fram.

En snúum okkur aðeins að þessari till. Ég hygg að það sé eðlilegt og nauðsynlegt að þessi till. fái ítarlega umfjöllun í utanríkismálanefnd. Í þeirri umfjöllun mun ég taka þátt og fara af fullri samviskusemi yfir till. Ég er ekki alveg viss um að tillöguflutningurinn sé allur í þeim mæli að ég geti samþykkt hann. Ég hygg að þar sé margt sem þyrfti aðeins að skoða. Mér virðist að upptalningin á þeim sem bjóða á til ráðstefnunnar feli í sér nokkra endurtekningu, að sumir liðirnir séu óþarfir með tilliti til þess að aðrir nái nánast yfir þá. Í öðru lagi virðist mér, þegar ég hugsa þetta, að það sé dálítil spurning hvort fjalla eigi um leið á sömu ráðstefnunni um allt sem þarna er nefnt. — Og þá tek ég undir með hæstv. utanrrh. að mér er ekki alveg ljóst hvort flm. ætlast til að ráðstefnan fjalli um leiðir til að koma þessari afvopnun á eða beinlínis um afvopnunina sjálfa. — Ég er ekki alveg viss um það, af því ég skil tillöguflutninginn þannig að afvopnunin á norðurhöfum sé þungamiðjan, að það eigi heima á sama tímabili að draga inn í það sérstaklega umræðuna um fiskistofnana og lífríki sjávar. Það má þó vel vera að það sé og auðvitað tengjast þessi mál, en mér sýnist þó að það kunni að vera mál sem sé svo yfirgripsmikið að það geti drepið öllu hinu á dreif á þeirri ráðstefnu sem menn eru að tala um.

Í þessu sambandi vil ég aðeins geta þess að mér virðist af grg. að um sé að ræða einhvers konar misskilning hjá flm. varðandi þetta atriði. Ég ætla að reyna að gera grein fyrir því hvernig ég skil þessa grg. og biðja flm. þá að leiðrétta mig ef ég skil rangt.

Þegar fjallað er um ráðstefnuna og hvað þar yrði rætt segir í grg., með leyfi forseta:

„Sérstaklega yrði rætt um leiðir til að koma í veg fyrir að fækkun kjarnorkuvopna á meginlandi Evrópu leiði til fjölgunar þeirra á norðurslóðum. Mikilvægur þáttur í þessari umræðu væri að gera grein fyrir hvernig kjarnorkulekar, bilanir og geislavirkni geta stofnað í hættu fiskistofnum og lífríki hafsins. Þess vegna sé brýn efnahagsleg nauðsyn fyrir Íslendinga að útrýma kjarnorkuvígbúnaði úr höfunum í kringum landið.“

Nú er það svo að þessir lekar og hættan á kjarnorkumengun í höfunum stafar ekki síður af kjarnorkuknúnum skipum, skipum sem eru knúin kjarnorkurafölum og hafa ekkert með kjarnorkuvopn að gera. Jafnvel, eins og flm. orðar það hér, þó að það gæti verið efnahagsleg nauðsyn að þessu leyti fyrir Íslendinga að útrýma kjarnorkuvígbúnaði í höfunum nær það ekki yfir þann hluta vandans sem e.t.v. er stærsta hættan af, en það eru kjarnorkuknúin skip. Ég hygg að flest þeirra slysa sem orðið hafa og menn tala um stafi einmitt út frá lekum af kjarnorkuknúnum skipum en ekki beinlínis af kjarnorkuvopnunum sjálfum. Þess vegna átta ég mig ekki alveg á hvernig flm. tengir þetta þó auðvitað gæti mengunin jafnframt líka stafað af vopnunum.

Hér segir jafnframt, þegar vísað er til þess í grg. að þessi skip geti verið nokkurs konar fljótandi Tsjernóbíl, með leyfi forseta:

„Í skýrslum Bandaríkjahers kemur fram að helstu orsakir slysa og bilana, sem tengjast kjarnorkuvígbúnaði sjóhersins, eru raktar til mannlegra mistaka og bilana í tækjabúnaði. Þessar upplýsingar sýna að auk þeirra ástæðna, sem tengjast almennri nauðsyn afvopnunar, er það brýnt efnahagslegt öryggismál fyrir Íslendinga að hafist verði handa um fækkun og síðan útrýmingu kjarnorkuvopna í hafinu kringum landið.“

Mér virðist þess vegna af grg. flm. að í þessu sambandi leggi hann alla áhersluna á vopnin en dragi ekki jafnt inn hættuna af kjarnorkuknúnum skipum sem bæði gætu verið flugvélamóðurskip og kafbátar og jafnvel önnur slík skip. Það er enginn vafi á að í þetta ættu þá jafnframt að koma kröfur Íslendinga um öryggisbúnað varðandi þessi kjarnorkuknúnu skip. Mér virðist þungamiðjan vera á afvopnuninni en umræðan dálítið um afleiðinguna af kjarnorkuknúnu skipunum. Þetta leiðréttir kannski flm. á eftir þegar hann tekur til máls.

Menn ræða dálítið um að Reykjavík gæti orðið heimkynni fyrir friðarviðræður og alþjóðlegar viðræður. Sjálfsagt dreymir okkur alla um það og gaman væri ef slíkt gæti orðið. Í því sambandi benda menn á Genf og Helsinki, Vín og Stokkhólm. Reyndar eru allar þessar borgir í hlutlausum löndum eða hlutlausum að kalla. Þessi lönd hafa því nokkra sérstöðu. Mér virðist að ein meginforsendan fyrir land eða borg sem á að hýsa slíkar alþjóðlegar viðræður sé sú að landið sjálft verði ekki of áberandi í viðræðunum sjálfum sem fram eiga að fara. Mér virtist með Reykjavíkurfundinn sem hér var og oft er vitnað til að Íslendingar hafi litið á sig sem beina þátttakendur í þessum fundi og jafnvel talið árangurinn sér að þakka. Ég hygg, og hef reyndar sagt það annars staðar, að þessir aðilar líti meira, þegar litið er til fundarstaðarins, til svissneska hótelhaldarans sem er ósýnilegur en þó finnanlegur um leið og einhver vandamál koma upp til þess að koma fram og leysa þau. Ég hygg að þeir vilji síður hafa þessa fundi sína þar sem umræðan er mjög ögrandi og þung um vandamálin sem á að ræða á fundunum og vilji ekki velja sér skipuleggjanda eða fundarstað þar sem aðilinn tekur mjög virkan þátt í málunum og eignar sér jafnvel árangurinn sjálfur.

Þetta segi ég vegna þess að ég held að Íslendingar þurfi að hugleiða þetta í samhengi. Sjálfur er ég ekki tilbúinn að fórna því að opin umræða hér á landi og virk fari fram í skiptum fyrir það að gera okkur að ráðstefnulandi. Ég geri mér reyndar ekki grein fyrir því að hve miklu leyti þetta tengist, en ég hygg þó að það geri það í nokkrum mæli.

Ég ætla ekki, herra forseti, á þessu stigi að fara fleiri orðum um þessa till. Mér finnst till. allrar athygli verð og ég vil að hún verði tekin til vandaðrar umfjöllunar í utanrmn.