07.01.1988
Efri deild: 50. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3806 í B-deild Alþingistíðinda. (2701)

Tilhögun þingfunda

Forseti (Karl Steinar Guðnason):

Af þessu tilefni vil ég taka fram að um tvöleytið í dag var samráðsfundur með formönnum þingflokka þar sem þingstörf voru rædd. Þar kom fram áhugi fyrir því að ljúka málum fyrir föstudag þannig að menn gætu haft föstudaginn frían. Verkefni hafa ekki verið ýkja mikil hjá deildinni í þessari viku. Því taldi ég eðlilegt að stýra á það að ljúka afgreiðslu fiskveiðifrv. nú ef þess væri kostur og ég hef ekki fundið neina andúð við því, enda var gengið út frá því á þessum samráðsfundi að þannig yrði að málum staðið.

Það er líka nauðsyn á því að ganga í að afgreiða þetta frv. Það eru ýmsir í þjóðfélaginu sem þurfa a því að halda — mjög alvarlega. Ég bendi á að t.d. í fiskvinnu, þegar fólk upplifir að verðmæti liggja undir skemmdum, gera menn allt til þess að ljúka verki.