07.01.1988
Efri deild: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3826 í B-deild Alþingistíðinda. (2709)

181. mál, stjórn fiskveiða

Júlíus Sólnes:

Hæstv. forseti. Það má segja að þetta sé lokasennan í mjög merkilegu máli þegar svokallað kvótafrv. kemur nú aftur hingað til Ed. til 7. umræðu og væntanlega þeirrar síðustu.

Ég vil taka undir með hv. stjórnarandstöðuþm. sem hér hafa talað á undan mér og lýsa yfir vonbrigðum mínum með fréttaflutning sjónvarpsins í gærkvöldi, þar sem fréttamaður sá sem hafði vakt á Alþingi í gær sá ástæðu til þess að kvarta yfir því nánast og koma því inn hjá sjónvarpsáhorfendum að stjórnarandstaðan hefði haldið hér uppi málþófi, sérstaklega í umræðum um fiskveiðistefnuna og hefði Borgarafl. þar verið sýnu verstur.

Ég verð að segja eins og er að ef farið hefði eins og hæstv. ráðherrann óskaði, þ.e. að frv. um fiskveiðistefnu hefði orðið að lögum fyrir jól, það hefði verið keyrt hér í gegn með því offorsi sem var komið á þegar við vorum hér með langan sögulegan næturfund aðfaranótt 22. des. sl., þá er ég ekki viss um að tekist hefði að koma ýmsum þeim breytingum fram sem hafa orðið á frv. í mjög langri meðferð þess hér á hinu háa Alþingi. Eins og frv. leit út í upphafi var það nánast ósamþykkjanlegt og hefði verið til ómælds tjóns fyrir sjávarútveg í landinu og raunverulega rothögg á þá fiskveiðistefnu sem ég tel að að mörgu leyti muni henta betur þessari þjóð en sú sem lýst er í frv. En með því að þessi umræða var svona löng þá tókst þrátt fyrir allt að koma inn nokkrum tillögum sem allar eru til bóta að mínum dómi. Þess vegna finnst mér það með ólíkindum og vil ítreka að það er aldeilis ótrúlegt að ríkisfjölmiðill skuli leyfa sér að gagnrýna það að umræður hér á Alþingi taki sinn tíma miðað við það að þær hafa þó orðið þess valdandi að komið hafa fram ýmsar brtt. við frv., sem hafa allar, eins og ég sagði, verið til bóta, við það hvað umræðan hefur verið löng. Mér þykir með þessu ríkisfjölmiðillinn vera farinn að taka pólitíska afstöðu með hæstv. ráðherranum. Það lá næstum í orðum fréttamannsins í gær að a.m.k. stjórnarandstöðuþm. hefðu helst ekkert átt að segja um þetta frv. og það hefði bara átt að keyra það í gegn einn, tveir, þrír, án breytinga væntanlega. Það lá við að fréttamaðurinn segði það beinum orðum.

Ég vil fyrir mitt leyti, herra forseti, lýsa yfir mikilli óánægju minni með þennan fréttaflutning. Ég hefði talið eðlilegt að þeir sem stýra þinghaldi hér á hinu háa Alþingi sæju ástæðu til þess að óska eftir því formlega að sjónvarpið bæðist afsökunar á þessari frétt sinni, bæði þingheim, Alþingi og þá sem því stýra afsökunar á þeim fréttaflutningi sem kom fram í ummælum þessa fréttamanns í gær.

En svo að við snúum okkur nú að því máli sem hér er til umræðu, frv. til 1. um fiskveiðistefnu, þá er út af fyrir sig búið að segja allt sem segja þarf um það frv. og kannski ekki ástæða til að hafa um það langar ræður hér að lokum. Mig langar þó til að koma inn á eitt atriði sem ég tel að hefði mátt gera betri skil undir þeirri löngu umræðu sem hefur farið fram um þetta frv. En ég geri ráð fyrir því að hv. 11. þm. Reykv. Guðmundur Ágústsson, sem annar þm. Borgarafl. í hv. Ed., muni gera nokkra grein fyrir þeim brtt. sem við þm. Borgarafl. bæði í Ed. og Nd. höfum reynt að koma inn í frv. Ég er nefnilega ekki í nokkrum vafa um það að þó að þær hafi ekki fengist samþykktar þá hafi þær haft veruleg áhrif. Og mér kæmi það ekki á óvart þó að við ættum eftir að sjá eitthvað af þeim hugmyndum, sem við höfum lagt fram í brtt. okkar, koma smám saman inn í fiskveiðistefnuna meðan hún er með þeim hætti sem hér er gert ráð fyrir.

Það er nú einu sinni svo að þó að við þm. Borgarafl. séum alfarið á móti fiskveiðikvóta sem slíkum og teljum að stjórnun fiskveiða gæti farið fram og ætti að fara fram með allt öðrum hætti, þá viðurkennum við þá staðreynd að okkar þingstyrkur er ekki meiri en svo að við verðum að láta þetta kvótafrv. yfir okkur ganga. En það þýðir ekki að við reynum þá ekki a.m.k. að koma með efnislegar brtt. og taka þátt í málefnalegri umfjöllun um kvótafrv., þó að við séum að lokum á móti því, því að það er þó alltaf til bóta ef hægt er að milda eitthvað hin ýmsu ákvæði þess. En ég geri ráð fyrir því að hv. 11. þm. Reykv. muni gera betur grein fyrir þessum tillögum okkar hér á eftir.

Í 1. gr. frv. segir, með leyfi hæstv. forseta: „Markmið laga þessara er að stuðla að verndun“, ég undirstrika orðið verndun, „fiskistofna á Íslandsmiðum“, fyrir utan svo hagkvæma nýtingu þeirra, en við getum deilt um það hvort þetta frv. stuðli að hagkvæmri nýtingu þeirra. En ég vil fyrst og fremst taka fyrir verndun fiskistofna og að hve miklu leyti kvótakerfið hefur stuðlað að verndun þeirra þannig að við getum hagnýtt þá á sem hagkvæmastan hátt. Ég tel að reynsla undanfarandi fjögurra kvótaára hafi sýnt og sannað að þessi verndun fiskistofnanna hefur alls ekki átt sér stað. Þarna hefur stjórnun fiskveiða algjörlega brugðist þannig að það hefur ekki verið um þá verndun fiskistofna að ræða sem allir eru þó sammála um að sé brýn nauðsyn til þess að m.a. þorskstofninn hér við Ísland hrynji ekki hreinlega. Á undanförnum fjórum kvótaárum er búið að veiða sem nemur heilum ársafla af þorski umfram það sem fiskifræðingar hafa talið heppilegt og eðlilegt.

Á fundi sem var haldinn þann 30. des. sl. komu eftirlitsmenn sjútvrn. saman á fundi að því er ég hef fregnað. Eftir því sem ég hef fregnað munu þeir hafa rætt þar og lýst áhyggjum sínum yfir smáfiskadrápinu sem hefur verið mjög áberandi sl. ár. Eftir því sem mér hefur skilist hefur 101 sinni þurft að grípa til lokunar á svæðum vegna smáfiskadráps. Ég hefði gjarnan viljað heyra skýringar og svör hæstv. sjútvrh. á því hvað fór fram á þessum fundi því að þarna munu hafa komið fram mjög merkilegar og athyglisverðar upplýsingar og væri betur að Alþingi væri gerð grein fyrir því sem þarna var talað um áður en kvótafrv. verður að lögum.

Eftir því sem mér skilst þá mun þarna m.a. hafa komið fram að það stefni í það að meðalþyngd þorskfiska sé um 1,5 kg. Meðalþyngdin, takið eftir, er ekki nema 1,5 kg. En það vita náttúrlega allir sem hafa verið í sjávarútvegi að kjörstærð þorskfiska er á bilinu 3,5–6 kg. Það er fjögurra ára fiskurinn sem áður fyrr var veiddur á vertíð hér sunnanlands. En þannig hefur mat útgerðarmanna og e.t.v. einkum yngri skipstjóra, sérstaklega á togurunum, algjörlega brenglast að nú er það talið eðlilegt og sjálfsagt að veiða smáfiskinn norðan svokallaðrar norðursuður línu. Sumir stunda það að moka upp smáfiskinum og telja það hið besta mál. Um þetta eru að sjálfsögðu nokkrar deilur. Þó held ég að mikill minni hluti þeirra sem hafa afskipti af sjávarútvegsmálum réttlæti þetta smáfiskadráp. Þó var athyglisvert að lesa greinarkorn sem birtist í Dagblaðinu í dag, með leyfi hæstv. forseta, en þar er haft eftir einum hv. þm. í Nd., Sighvati Björgvinssyni, 5. þm. Vestf., að hann leggur til að vinnubrögð Hafrannsóknastofnunar verði rannsökuð allt frá því að „svarta skýrslan“ kom út árið 1974 og þar til því var lýst yfir í skýrslu stofnunarinnar árið 1984 að rannsóknaraðferð sú sem fiskifræðingar notuðu til að meta stofnstærð, VP-greiningin svokallaða, hefði reynst ónothæf og því marklaus. Þetta kom fram í ræðu hv. 5. þm. Vestf. Sighvats Björgvinssonar á Alþingi í gær. Með leyfi hæstv. forseta langar mig til að lesa upp það sem fjallað er um í þessari grein:

„Þá fjallaði Sighvatur um það sem kallað hefur verið smáfiskadráp. Taldi hann flest benda til þess að svo mikið væri af smáfiski um þessar mundir vegna firnasterkra árganga að ekki væri hjá því komist að smáfiskur veiddist í stórum stíl. Hann taldi þá kenningu fiskifræðinga að takmarka ætti veiði smáfiska og geyma hann í sjónum þar til hann væri orðinn stærri fjarstæðu og benti á dæmi frá Kanada máli sínu til stuðnings.“

Við höfum út af fyrir sig heyrt áður að menn grípa til þess að vitna í dæmi frá öðrum löndum þegar þeir eru að reyna að sanna mál sitt. Nægir t.d. að benda á að hæstv. ráðherrann talar mjög oft um lúðuveiðar, að mig minnir við Alaska. Í fréttaflutningi hjá sjónvarpinu í gær, og ég vitni nú aftur til þess, lýsti fréttamaður því yfir að stjórnarandstöðuþm. sérstaklega flyttu sömu ræðuna ekki bara tvisvar sinnum heldur þrisvar sinnum og jafnvel fjórum sinnum, og var það haft eftir starfsmönnum þingsins að því er talið var. En það er eins og mig minni að hafa heyrt hæstv. ráðherra minnast á þetta lúðufiskirí tvisvar sinnum, ef ekki þrisvar sinnum, fjórum sinnum eða jafnvel fimm sinnum þannig að það væri gaman að fá það talið. (VS: Einu sinni enn, kannski?) Já, kannski eigum við eftir að heyra einu sinni enn um þetta lúðudráp.

En ég var að tala um smáfiskadrápið. Ég er einn af þeim sem eru sannfærðir um að það stefni í að þorskstofninn geti hreinlega hrunið ef þessu smáfiskadrápi heldur svona áfram. Ég er nefnilega aldeilis ekki sammála hv. 5. þm. Vestf. Sighvati Björgvinssyni að smáfiskadrápið, sem hefur mjög gert vart við sig, sérstaklega á sl. ári, sé merki þess að það séu svo feiknasterkir árgangar í sjónum. Hvernig stendur þá á því að þorskaflinn hefur ekki farið upp í ein 500 þús. tonn og þungi fiskurinn komið með? Það er eitthvað skrýtið við þessar skýringar.

Þegar ég var strákur varð ég þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast einum mesta aflaskipstjóra sem var og starfaði á Norðurlandi, Sæmundi heitnum Auðunssyni, og ég minnist þess að þegar hann var að veiða og varð var við smáfisk, þá flutti hann sig. Hann var ekki að dóla á sama stað á sínum togara ef hann lenti í miklum smáfiski. Þá var híft upp og það var siglt eitthvað annað því að hann var alveg hreint klár á því að það væri ekki skynsamlegt að moka upp smáfiskinum. Þess vegna er þessi norður-suður lína ákaflega furðulegt fyrirbæri því að hún er tilkomin þannig að það er talið að á viðmiðunarárunum hefði veiðst mun meiri þorskur á miðunum út af Vestfjörðum og Norðurlandi. Og það er einmitt smáfiskurinn sem þarna er verið að moka upp. Síðan er þetta notað til þess að færa togurum sem eru norðan þessarar línu aukinn þorskkvóta, þvert ofan í reynslu manna hér áður fyrr þegar besti þorskurinn, kjörstærðin veiddist einmitt hér suðvestanlands á vertíð. Það var langbesti fiskurinn. En hann er hættur að sjást hérna, ósköp eðlilega vegna þess að allur smáfiskurinn er veiddur norðan þessarar línu í stórum stíl áður en hann vex upp til þess að komast hingað suður fyrir.

Ég tók eftir því að einhver smábreyting virðist hafa orðið á 5. gr. í meðferð hv. Nd., en eftir 2. umr. í Nd. 7. jan. er næstsíðasta mgr. í 5. gr. frv. svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherra getur ákveðið að fiskur, sem veiðist á línu, skuli ekki eða aðeins að hluta talinn með í aflamarki eða sóknarmarki fiskiskips, sömuleiðis að fiskur undir tiltekinni stærð teljist aðeins að hluta í slíku afla- eða sóknarmarki.“

Þarna er einmitt heimild ráðherrans, ein af mjög mörgum — ég taldi þær upphaflega rúmlega 20 en mér er sagt að þær séu núna yfir 30 — til að undirmálsfiskurinn, þessi smáfiskur sem ekki er nema 1,5 kg að meðalþyngd að verða, teljist ekki hluti af aflamarkinu. Þetta stuðlar náttúrlega að því að menn moka upp smáfiskinum, telja það hagkvæmt. Það er hægt að koma honum í salt. Það er hægt að koma honum beint út ísuðum á markað erlendis. Mér heyrist á mönnum sem ég hef rætt við um þessi mál að það sé áberandi að yngri skipstjórar sérstaklega hafi ekki eins miklar áhyggjur af þessu smáfiskadrápi og eldri og reyndari skipstjórar sem voru áberandi aflakóngar hér á árum áður eins og ég gat um.

En einhver smábragarbót hefur orðið á þessu því að ég sé hér að það hefur verið flutt brtt. sem mér skilst að hafi verið samþykkt, hún er frá meiri hl. sjútvn. hv. Nd., brtt. við 5. gr. og hljóðar hún svo, með leyfi hæstv. forseta:

„Ráðherra getur ákveðið að fiskur, sem veiðist á línu, skuli ekki eða aðeins að hluta til talinn með í aflamarki eða sóknarmarki fiskiskips, sömuleiðis að fiskur undir tiltekinni stærð teljist aðeins að hluta í slíku afla- eða sóknarmarki.“

Þarna er aðeins lagfæring á þessu þannig að það er svolítið hert á því ákvæði að þessi fiskur, undirmálsfiskurinn verði ekki talinn með í aflamarkinu.

Ég vil nota þetta síðasta tækifæri sem við höfum á hinu háa Alþingi til að fjalla um fiskveiðistefnuna til að vekja sérstaklega athygli á þessum vanda og lýsa yfir furðu minni að menn skuli að því er virðist fljóta sofandi að feigðarósi í þessum efnum og finna upp alls konar afsakanir fyrir því að það sé allt í lagi að moka upp smáfiskinum. Það verður fróðlegt að sjá hvernig þróun mála verður hér næstu árin, hvort við eigum e.t.v. eftir að sjá eitthvað svipað og í sambandi við lúðuna í Alaska, en mér skilst að bátarnir þar fái að fara einn dag á sjó í mánuði ef ég man rétt eða eitthvað í þeim dúr þar sem sá stofn mun nánast vera alveg hruninn. Það væri fróðlegt að fá nánari skýringar á áhyggjum fiskifræðinga, sérstaklega þeim áhyggjum sem komu fram á fundi þessara eftirlitsmanna ráðuneytisins 30. des. sl., hvað þeir hyggja í sambandi við ástand þorskstofnsins og þá reynslu sem þeir hafa eftir veiðarnar árið 1987. Ef það e:r rétt að 101 sinni hafi komið til lokana vegna smáfiskadráps þá er það meira en lítið mál. Ég mundi óska þess að hæstv. ráðherra segði þm. hér í hv. Ed. frá því hvað þarna fór fram, hvað þarna var talað um.

Að lokum vil ég aðeins segja þetta, herra forseti. Við þm. Borgarafl. höfum mótað þá fiskveiðistefnu, sem flokkurinn vill beita sér fyrir, að hún verði miklu frekar miðuð við verndun fiskistofnanna, beitt verði lokunum og banndögum eins og tíðkaðist hér áður fyrr þegar fiskveiðistefnan fyrir 1984 byggði á heildaraflamarki. En, hæstv. forseti, kannski ég fái að lesa eina málsgrein úr einni ræðu hæstv. ráðherrans af því að ég hafði ekki nákvæmar upplýsingar. Ég er að vísu búinn að hlusta mjög oft á hann ræða um þessar lúðuveiðar, en ég held að ég verði að fá að lesa eina málsgrein úr ræðu hæstv. ráðherrans svo að þetta með lúðuveiðarnar í Alaska fari ekki á milli mála. (Gripið fram í: Það skiptir náttúrlega öllu máli í sambandi við þetta.) Já, því að ég er að segja það að við getum vel lent í því að það sama verði hér með þorskveiðarnar ef svo heldur fram sem horfir. En hér segir hæstv. ráðherra svo, með leyfi virðulegs forseta:

„Ég hef oft nefnt það en sennilega er nú frægasta dæmið lúðuveiðar við Alaska, en þar gátu allir stundað lúðuveiðar þar til veiðin var orðin svo mikil að nú er heimilt að stunda þær einn dag í mánuði. Þá fara allir á sjó og veiða lúðu. En það er nú ansi mikið af henni sem kemur á markað þann dag og það er ekki mikil hagkvæmni í þeim veiðum. Þetta eru dæmi sem menn sjá víða um heim og þótt ég sé ekki að gera því skóna að til slíks mundi koma hér á landi, þá er það nú svo að þetta er hér vandamál.“

Svo mörg voru þau orð um lúðuveiðarnar. En það er einmitt þetta sem ég er að vara við að það komi ekki til hins sama með þorskveiðarnar, að þegar þorskstofninn sé endanlega hruninn eftir að búið er að moka upp öllum smáfiskinum, það er enginn kynþroska fiskur orðinn eftir, það er enginn hrygningarstofn að verða eftir, að það komi þá til þess að allur þessi glæsti floti okkar fái kannski að fara á sjó svona einu sinni annan hvern mánuð til þess að veiða þorsk. Það muni þá koma landburður af þorski á land þann dag. (EgJ: Það verður nú að skipta því eitthvað.) Ja, það þarf talsvert að skipta því, hv. þm. Egill Jónsson, það þarf að skipta því að sjálfsögðu. Þá kannski væri fyrst orðin ástæða til að taka upp kvóta þegar svo væri komið málum.

En ég vildi segja það að lokum, ég var reyndar byrjaður á því, virðulegi forseti að við þm. Borgarafl. teljum að verndun fiskistofna og rannsóknir á ástandi fiskistofna eigi að vera aðalkjarninn í fiskveiðistefnu okkar því að á þessu byggir þjóðin þrátt fyrir allt afkomu sína. Hún byggir afkomu sína á því að þessir fiskistofnar séu skynsamlega nýttir og það sé algjörlega tryggt að þeir séu ekki ofveiddir. Og það sé tryggt líka að veiðunum sé hagað þannig að hrygningarstofninn sé verndaður. Þegar vart verði við smáfisk þá sé svæðum lokað og skipin flytji sig annað. Til þess að það geti orðið er náttúrlega aldeilis fráleitt að vera með norður-suður línuna því að hún beinlínis býður upp á smáfiskadrápið. Það er alveg ljóst.

Þess vegna höfum við lagt það til að í stað þess að vera með þetta illræmda kvótakerfi þá verði sú fiskveiðistefna byggð upp að hafrannsóknir og rannsóknir fiskifræðinga á ástandi fiskistofnanna umhverfis landið verði stórauknar. Það veldur satt að segja áhyggjum hve illa er búið að Hafrannsóknastofnun og hve litlu fjármagni er veitt til þessara rannsókna. Ég held að það væri nær að huga betur að því heldur en að byggja fiskveiðistefnu landsmanna algjörlega upp á því að vernda hagsmuni tiltekinna útgerðaraðila sem virðist vera meginkjarninn í fiskveiðistefnunni. Hitt er svona látið fljóta með eins og menn segja falleg orð á tyllidögum. Þar er að vísu talað um að það eigi að stuðla að verndun fiskistofnanna á Íslandsmiðum í 1. gr. laganna, en það svona minnir á það þegar menn á tyllidögum hafa uppi falleg orð um fósturjörðina. En síðan er frv. að öðru leyti fyrst og fremst hagsmunagæsla þeirra útgerðaraðila sem eru komnir með fæturna inn fyrir dyr á fiskveiðihöllinni.

En við teljum rétt að beita lokunum og friðun á hrygningarstofninum með t.d. auknum banndögum og færa heildaraflamark á milli svæða. Við höfum talið að það eigi að ákveða heildaraflamark ársins, en það má skipta því niður á árstíma og það má eins skipta því niður á svæði umhverfis landið. Það er hægt að gera þetta í góðu samráði og í samvinnu við fiskifræðinga, útgerðaraðila og sjómenn. Við teljum að að sjálfsögðu verði að vera byggt á því. Ég tel einmitt að nú sé tiltölulega auðvelt að byggja upp slíkt stjórnunarkerfi vegna þess að þessir aðilar, með örfáum undantekningum þó að sjálfsögðu, treysta hver öðrum miklu betur en þeir gerðu fyrir svo sem eins og fimm, sex árum. Ég hef sagt það hér áður og ég vil ítreka það enn einu sinni að fyrir 1984 þegar við vorum með þetta svokallaða skrapdagakerfi, þá voru alltaf uppi deilur milli sjómanna og fiskifræðinga um ástand fiskistofnanna. Fiskifræðingar vöruðu við og töldu að það mætti ekki ofveiða þorskinn, en sjómennirnir margir hverjir töldu að þetta væri hin mesta vitleysa. Það væri nógur fiskur í sjónum og það væri mesti óþarfi að vera eitthvað að takmarka veiðarnar. En ég held að þessu sé ekki til að dreifa í dag. Ég held að útgerðaraðilar og sjómenn geri sér mjög vel grein fyrir þeirri hættu sem í því felst að ofveiða fiskistofnana og samvinna fiskifræðinga, sjómanna og útgerðarmanna er mjög góð í dag. Og ég er ekki í nokkrum vafa um að það væri auðvelt að byggja upp mjög virkt kerfi, mjög virka stjórnun fiskveiða sem byggði á þessu samráði og að sjálfsögðu þyrfti þá að stórauka rannsóknir á fiskistofnunum. Hvaða fiskveiðistefnu sem við myndum svo sem samþykkja, þá tel ég það til vansa hve illa er búið að rannsóknum á fiskistofnunum umhverfis landið. Ég mundi hér að lokum vilja hvetja til þess að menn huguðu miklu, miklu betur að þessum þætti fiskveiðistefnunnar.