07.01.1988
Efri deild: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3835 í B-deild Alþingistíðinda. (2712)

181. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil í fyrsta lagi vísa til þess sem fram kom hér hjá hv. 4. þm. Vesturl. varðandi almenna afstöðu okkar alþýðubandalagsmanna í þessu máli sem er hér til 7. umr. en kvaddi mér hér hljóðs til þess að víkja aðallega að þeim breytingum sem þrátt fyrir allt hafa orðið á þessu mali frá því að frumvarpsdrög sáu dagsins ljós 23. okt. sl., í sérstökum drögum sjútvrn. Þar ætlaði ég að víkja aðeins að þeim breytingum sem hafa orðið og snerta báta undir 10 tonnum sem eru vissulega hluti þessa máls og hafa fengið verulega umræðu.

Það sem ég hins vegar ætla að víkja að í upphafi er það að þau fara náttúrlega ekki fram hjá neinum deildarmanni í þessari virðulegu deild, þau tíðindi sem hafa gerst í dag, mjög óvenjuleg tíðindi, og snerta í raun og veru kvótamálið en líka stöðu ríkisstjórnarinnar hér á hv. Alþingi þar sem formaður sjútvn. þessarar virðulegu deildar, hv. þm. Karvel Pálmason, hefur með mjög eindregnum hætti enn þá einu sinni lýst andstöðu við frv. og gagnrýnt mjög harðlega forustu síns flokks vegna meðferðar hennar á þessu máli. Ég hygg að ég hafi miðlungs þingreynslu miðað við aðra sem hér sitja í þessari virðulegu deild. Og ég hygg að ég geti leyft mér að segja að ég man ekki eftir því í annan tíma að þm. úr stjórnarflokki hafi talið sig þurfa að kveða jafnhvasst að orði og hv. þm. Karvel Pálmason gerði í upphafi þessarar umræðu í kvöld.

Ég er alveg sannfærður um að það er rangt sem hv. 3. þm. Vesturl. sagði um hv. þm. Karvel Pálmason, að sá síðarnefndi væri í sérstakri vinsældakeppni. Þetta væri svona eins konar slagur um efstu sætin á vinsældalistanum eins og það heitir á rás tvö og á Bylgjunni. Ég er sannfærður um það eftir nokkuð löng kynni af hv. þm. Karvel Pálmasyni að hér er maður að tala sem svíður býsna sárt að sjá flokksfélaga sína jafngjörsamlega afvelta í þessu máli og raun ber vitni um, gjörsamlega afvelta, að ég segi ekki á fjórum fótum. (EgJ: Er það ekki of mikið sagt?) Það er kannski of mikið sagt, við skulum segja afvelta, hv. þm., alveg bráðaafvelta. En eins og hv. þm. veit sem er úr sveit er það síst betra að vera afvelta en vera á fjórum fótum. Þær skepnur sem oft eru á fjórum fótum verða stundum afvelta og það er talið heldur verra ef eitthvað er. (HBl: Þær skepnur heita stundum hundar.) Það kemur fyrir, já, já. Þær heita ýmsum nöfnum, hv. 2. þm. Norðurl. v.

Ég hygg að það hafi fleiri en ég tekið eftir því að hv. þm. Skúli Alexandersson vitnaði til yfirlýsingar sem Alþfl. á Vestfjörðum gaf fyrir síðustu kosningar þar sem var veist mjög harkalega að mönnum eins og hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni, Steingrími Hermannssyni og Ólafi Þ. Þórðarsyni fyrir það að þeir hefðu stutt stjórnarflokka þá sem báru upphaflega ábyrgð á því að kvótalögin voru sett. Og það er auðvitað eðlilegt í framhaldi af þessu að þeir þm. sem hafa uppi slíkan áróður í kosningabaráttunni, eins og hv. þm. Karvel Pálmason, reyni að verja hendur sínar þegar málinu er komið eins og raun ber vitni um og þeir alþýðuflokksmenn ganga mjög harkalega fram í því, verð ég að segja, sumir þeirra a.m.k., Bæði hv. 3. þm. Vesturl. og hæstv. viðskrh. ganga mjög harkalega fram í því að pína þetta mál í gegn.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt að hafa í huga þau orð sem hv. 3. þm. Vestf. lét falla í kvöld þegar hann sagði að þessar niðurstöður hér í kvótamálinu kynnu að hafa áhrif á afstöðu alþýðuflokksmanna á Vestfjörðum til ríkisstjórnarinnar. Hv. þm. er m.ö.o. að gefa það í skyn að alþýðuflokksmenn á Vestfjörðum eða einn fimmti hluti þingflokks Alþfl., tveir þm. af tíu, séu í rauninni að snúa baki við þessari ríkisstjórn vegna þeirrar afstöðu sem hún hefur í kvótamálinu og vegna þeirrar afstöðu líka sem hún hefur í matarskattsmálinu þar sem hv. 3. þm. Vestf. hefur verið gjörsamlega andstæður sínum flokki að öðru leyti.

Maður hlýtur að spyrja í framhaldi af ræðu hans hér í dag: Er það svo að hann og hv. þm. Sighvatur Björgvinsson líti þannig á að forusta Alþfl. sé að reka þá úr Alþfl. vegna þess að það er ekki hlustað á eitt einasta orð sem þeir hafa fram að færa, ekki eitt einasta. Það er býsna athyglisvert að hv. þm. Karvel Pálmason stýrir sjútvn. þessarar hv. deildar. Þegar málið er hér til meðferðar er ekki tekið tillit til einnar ábendingar frá hv. þm. Þegar hins vegar málið kemur til Nd. má hlusta á fáein atriði sem fram koma frá einstökum þm. Ég segi alveg eins og er, herra forseti, að ég skil það vel þó manni eins og hv. þm. Karvel Pálmasyni renni nokkuð í skap þegar framkoma í hans garð er með þeim hætti sem ég upplifi þessa framkomu, sitjandi sem áhorfandi að þessum innanflokksátökum í Alþfl. sem við höfum séð í dag.

Spurningin er þessi: Er í raun og veru verið að vísa þessum hv. þm. og 5. þm. Vestf. á dyr? Hann sagði hér í ræðu sinni fyrr í kvöld: Við bundum vonir við stjórnarsáttmálann — og lái honum hver sem vill. (KP: Ég sagði: Menn bundu, ekki við.) Það voru bundnar vonir við stjórnarsáttmálann, sagði hv. þm., jú, það er rétt, það voru bundnar. Hann batt þær ekki. Það voru einhverjir aðrir sem bundu þær. (KP: Það er a.m.k. ekki sagt.) Jæja, en látum það nú vera, alla vega var hv. þm. að gefa það í skyn að einhverjir hefðu bundið vonir við þennan sáttmála og tekið mark á honum og a.m.k. skrifaði Alþýðublaðið langa leiðara um það hvað þetta væri gífurlega merkilegur stjórnarsáttmáli og hvað Alþfl. hefði ráðið þessu öllu og hann væri kallaður Jónsbók og væri svo að segja alveg heilagt plagg, sögulegt plagg.

Hvað gerist? Bæði í Ed. og Nd. eru fluttar brtt. upp úr stjórnarsáttmálanum orðrétt. Í Nd. í dag er flutt till. af hv. þm. Sighvati Björgvinssyni á þskj. 495 sem er nákvæmlega orðrétt upp úr stjórnarsáttmálanum. Hvað gerist? Það sama og í þessari virðulegu deild. Stjórnarandstaðan styður tillöguna úr stjórnarsáttmálanum en stjórnarflokkarnir fella stjórnarsáttmálann. Er nema von að hv. þm. Karvel Pálmason tali um hringleikahús? Það er ekki nóg með það að menn gangi á bak þeim loforðum sem þeir gefa fyrir kosningar, heldur gefa þeir líka loforð eftir kosningar og svíkja þau svo líka. Ég hygg að það séu fá dæmi um jafnsamviskulipra menn og suma leiðtoga Alþfl. um þessar mundir, einstaklega samviskulipra menn, mjúkir og sveigjanlegir að ekki sé meira sagt. Og niðurstaðan er auðvitað sú að hæstv. sjútvrh. hefur í grófum dráttum allt sitt fram. Og til hamingju með það, alþýðuflokksmenn. Það er mikill sigur, gífurlegur sigur. Hvernig var nú fyrirsögnin góða aftur í Alþýðublaðinu? „Við beygðum Halldór“, var það ekki svoleiðis? Og mynd af hetjunum þremur, vitringunum þremur. Það var Eiður, það var Jón Sigurðsson og það var Sighvatur og það var einhver einn enn. Nei, hv. 3. þm. Vesturl. var ekki á myndinni, en hans var getið í myndatexta. Hann var erlendis að sinna skyldustörfum og gat því ekki verið með á myndinni, þannig að það voru fjórir leiðtogar Alþfl. sem beygðu Halldór. Ja, það er meira. Margt kalla menn beygju. Það væri fróðlegt að hv. þm. Júlíus Sólnes útlistaði það hvað er beygja. Hann er verkfræðingur að mennt.

Nei, herra forseti. Hér hefur það gerst enn þá einu sinni að hæstv. sjútvrh. hefur nuddað þessu fram í grófum dráttum eins og hann ættaði að hafa það. Það eru nokkrar breytingar. En í grófum dráttum og í prinsippinu hefur hann náð því fram sem hann ætlaði sér. En vissulega verður að viðurkenna það að það eru nokkrar breytingar, m.a. á þessari margumtöluðu 10. gr. og af því að menn eru að tala um að það hafi í raun og veru verið til lítils að tala, verið til lítils að hafa hér umræður, er kannski rétt að rifja það aðeins upp hvað hefur breyst. Hvað hefur breyst? Og ég endurtek: Í grundvallaratriðum hefur ekkert breyst. En í einstökum atriðum hafa orðið nokkrar breytingar varðandi þessa 10. gr. Hverjar eru þær?

Í fyrsta lagi var sagt í drögum sjútvrn. um skipulag veiða báta undir 10 tonnum 23. okt. 1987 að þorskfisknetaveiðar báta undir 6 tonnum verði alfarið bannaðar. Í dag liggur fyrir að þessum bátum verði heimilað að veiða 60 tonn í þorskanet.

Í öðru lagi var í drögunum gert ráð fyrir að engum báti undir 6 brl. yrði heimilað að veiða meira en 40 tonn árlega og þann afla var þeim ætlað að sækja í heildaraflamark fyrir þennan flokk báta og var hugmyndin að skipta árinu í fjögur tímabil. Í dag hefur þessi skerðing verið felld út.

Í þriðja lagi var bátum 6–8 brl. ætlaður aflakvóti upp á 40 tonn. Í dag er þar um að ræða 75 tonn.

Í fjórða lagi var bátum 8–10 brl. ætlaður 70 tonna aflakvóti. Í dag er þessum bátum ætlaður 100 tonna aflakvóti og 125 tonn til stærstu bátanna.

Síðan var gert ráð fyrir því að aflamark eigin veiðireynslu skyldi aldrei verða meira en 120 tonn. Í dag er talað um 200 tonn í þessu sambandi.

Síðan gæti ég talið upp nokkrar breytingar sem hafa orðið á reglugerðardrögunum og sumt af þessu er úr reglugerðinni reyndar líka, þannig að auðvitað hafa nokkrar breytingar átt sér stað og ómögulegt að mótmæla því að sú umræða sem hér hefur farið fram hefur skilað árangri, nokkrum árangri í einstökum atriðum. En grundvallaratriðið stendur eftir. Það er kvóti á skip og það má ekki taka tillit til sjónarmiða byggðarlaganna. Það eru þau grundvallaratriði sem eftir standa.

Ég held að það sé óhjákvæmilegt að rifja þetta upp eftir umræður um það í einhverjum fjölmiðlum að hér hafi menn verið röflandi daglangt og náttlangt sömu ræðurnar aftur á bak og áfram. Auðvitað hafa verið haldnar ítarlegar umræður um hlutina. En niðurstaðan hefur líka orðið sú að menn hafa slakað á í örlitlum mæli, en ég endurtek, í örlitlum mæli, það er ekki í grundvallaratriðum.

Ég vil í framhaldi af þessum orðum benda á eitt atriði sem mér finnst nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. svari, en það er það að í g-lið brtt. Nd. sem samþykktar hafa verið er kveðið á um úthlutun á veiðileyfum þar sem vísað er í 2. mgr. B- og C-liðar brtt., en þar er notað orðið aflahámark í stað þess að upphaflegu frv. frá sjútvrh. er notað orðið aflamark en ekki aflahámark. Ég tel að það sé nauðsynlegt að hæstv. sjútvrh. svari úr þessum ræðustól þessari spurningu: Lítur hæstv. ráðherra svo á að þessi orð, aflamark og aflahámark, hafi einhvern merkingarmun í lögum eða hugsanlegri reglugerð? Og ef svo er er fróðlegt og reyndar óhjákvæmilegt að hæstv. ráðherra skýri það hér úr ræðustól hver sá munur gæti verið.

Hv. 3. þm. Vesturl. sagði áðan að það væri vissulega erfitt að vera í stjórn, en það væri mjög erfitt að vera líka í stjórnarandstöðu. Ég hygg að þetta hljóti að vera rétt og ég hef tekið eftir því að einn og einn þm. í stjórnarflokkunum hefur verið tvístígandi um það hvort hann ætti að styðja þessa stjórn eða ekki. Ég heyri hins vegar ekki betur og sé ekki betur á meðferð mála, af forystumönnum stjórnarflokkanna hér síðustu daga, m.a. í þessu máli, og sérstaklega Alþfl., en að þar séu menn í raun og veru að fara fram á að það fækki í stjórnarliðinu en fjölgi í stjórnarandstöðuliðinu. Það er full ástæða til að fagna þeirri yfirlýsingu hv. 3. þm. Vesturl. að hann vilji gjarnan losna við menn sem eru ekki heilir í trúarbrögðunum, ortódox, og beygi sig ekki 100% fyrir ríkisstjórninni og húsbóndavaldi hennar. Hann vill hafa almennilega menn, trausta 100% stjórnarliða, hin hreinu stjórnarmólekúl, en fyrir menn sem eru svona vaklandi sé best að taka bara pokann sinn og fara. Fróðlegt væri að vita hvað hv. 3. þm. Vestf. hefur um það mál að segja, herra forseti.