07.01.1988
Efri deild: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3839 í B-deild Alþingistíðinda. (2713)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. meiri hl. sjútvn. (Guðmundur H. Garðarsson):

Herra forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið. Ég tek undir það sem hv. 7. þm. Reykv. Svavar Gestsson sagði áðan að sem betur fer hafa orðið ýmsar breytingar á því frv. sem lagt var fram hér 23. okt. til bóta við meðferð málsins, bæði í Ed. og Nd. Ég vek jafnframt athygli hv. þm. Svavars Gestssonar á því að flestallar þessar breytingar hafa orðið til vegna frumkvæðis stjórnarþm., þ.e. stuðningsmanna stjórnarinnar. Hinar brtt. sem hafa verið lagðar fram hafa ekki verið í þeim tengslum við upprunalegt frv. að hægt væri að taka tillit til þeirra með þeim hætti að það væri hægt að fella þær breytingar inn í frv. sem slíkt. Þess vegna ber að fagna þessu og sérstaklega ber að fagna því að það hefur tekist að breyta enn frekar þeim atriðum sem snúa að minni fiskiskipum og ætla ég ekki að tíunda það frekar en orðið er.

Það er hins vegar ekki hægt að láta ýmsum atriðum ómótmælt sem hafa komið fram í ræðum manna, sérstaklega hjá hv. 3. þm. Vestf. Karvel Pálmasyni í þeirri ræðu sem hann flutti áðan. Hv. þm. var mjög stóryrtur og talaði um skömmtunarkerfi, einkarétt, fáa útvalda o.s.frv. Það er eins og hv. þm., eins og ýmsum öðrum sem hafa talað gegn frv., sé gjörsamlega fyrirmunað að skilja kannski vegna pólitískra hagsmuna sem mér eru ekki skiljanlegir, að það sem rekur menn til að fjalla um fiskveiðar Íslendinga með þeim hætti sem við gerum nú er fyrst og fremst sú staðreynd að ástand fiskstofna er með þeim hætti að það er ekki þorandi fyrir Íslendinga að stefna þeim mikla fiskveiðiflota sem Íslendingar eiga yfir að ráða, bæði hvað stærð og afkastagetu snertir, á hina veiku fiskistofna sem eru á Íslandsmiðum. Fullyrðingar andstæðinga frv. er því ábyrgðarlaust og einkennist mjög af þröngum, pólitískum hagsmunum og ég vil segja á stundum óskiljanlegum vaðli um efni sem fæstir hv. þm. sem tala mest gegn þessu frv. virðast skilja hvað snýst um.

En það er eitt atriði sem hv. þm. Karvel Pálmasyni varð tíðrætt um sem ég vil rekja nokkuð. Hv. þm. sagði að frv. snerist um hagsmuni fárra útvaldra. Ég verð að segja það eins og er að mér kemur það mjög á óvart að einn af talsmönnum verkalýðshreyfingarinnar, maður sem er búinn að vera í forustu fyrir stéttarfélagi og hagsmunasamtökum verkalýðsins, skuli leyfa sér að ræða um þetta mál með þeim hætti sem hann gerir og gera lítið úr verkum fulltrúa annarra stétta sem koma mjög við sögu þessa máls. Mér finnst hv. þm. ekki sjálfrátt þegar hann talar um það að þetta frv. og framkvæmd þess snúist um hagsmuni fárra útvaldra.

Hverjir eru þessir útvöldu aðilar sem hafa látið sig þetta mál varða? Hverjir eru þessir útvöldu aðilar sem hafa frá því um mitt sumar verið að fjalla um þetta mál á félagsfundum og í stjórnum þeirra félaga og hagsmunasamtaka sem þeir eru aðilar að? Það eru í fyrsta lagi sjómenn, það eru skipstjórnarmenn, það eru vélstjórar, það eru útgerðarmenn, það eru smábátaeigendur o.s.frv. Hver er þessi hópur eða þessi fámenna klíka, eins og hv. þm. nefndi þetta fólk með einu orði áðan í ræðunni, hvað er þessi hópur, hvað er þessi klíka stór? Eftir því sem ég veit best má gera ráð fyrir því að þeir sjómenn sem stunda fiskveiðar, bæði hásetar, sem og skipstjórnarmenn og vélstjórar, séu 8–10 þús. manns.

Útgerðarmenn eru ekki margir. Útgerðarmenn eru líka ekki aðeins einkaframtaksmenn sem ég mun víkja að á eftir, heldur eru það einnig útgerðarfélög í eigu samvinnufélaga, sveitarfélaga o.s.frv. Hvað skyldu nú margir vera að baki þessum fjölda, þessum 8–10 þús. manns sem hafa leyft sér þann munað sem felst í félagafrelsi á grundvelli stjórnarskrár Íslands að fjalla um og hafa skoðun á þessu máli eins og hv. þm.? Hvað skyldu vera margir að baki þessum mönnum sem hafa leyft sér að fjalla um það hvernig stjórnun fiskveiða skuli vera háttað á Íslandi á næstu árum? Ef við notum bara almenna tölfræði í þessum efnum má gera ráð fyrir að að baki þessum mönnum sem stunda fiskveiðar og fjalla um fiskveiðar í daglegu starfi séu 20–30 þús. manns. Það getur vel verið að þeir hv. þm. séu til sem geti óvirt það að þetta fólk skuli yfirleitt leyfa sér að hafa skoðun á þessu máli, leyfa sér að hafa skoðun á því hver á að vera lífsgrundvöllur þess í framtíðinni. Ég mótmæli því fyrir hönd þessa fjölda. Og ég vil líta þannig á að hv. þm. Karvel Pálmason hafi talað hér í hita og gleymt þessum einföldu staðreyndum. Það er þetta fólk sem innir af hendi það grundvallarstarf í þágu þjóðarinnar sem þetta frv. snýst um og það ber að virða það og það ber að umgangast þetta mál með þeim hætti líka hér í sölum hins háa Alþingis.

Þetta fólk hefur nálgast lausn þessa máls af ábyrgð. Það hefur þorað að gera samþykktir, það hefur þorað að taka afstöðu á sínum þingum og sínum félagsfundum og það hefur sent sín skilaboð til þingsins. Þetta frv. er ekkert einkamál einhvers hæstv. ráðherra, hvort sem hann er framsóknarmaður, sjálfstæðismaður eða krati, þegar verið er að fjalla um þetta mál. Ég held að það sé nauðsynlegt að það komist til skila að þetta er ekkert einkafrv. hæstv. ráðherra Halldórs Ásgrímssonar. Þetta er frv. sem var lagt fram af þeirri ríkisstjórn sem situr við völd og í umboði þeirra þingflokka, sem m.a. hv. þm. Karvel Pálmason tilheyrir sem er þingflokkur Alþfl. Það sem máli skiptir er auðvitað það að þeir sem fást við þessi störf, sem eru í hinu daglega starfi, taka ábyrga afstöðu á sama tíma sem hv. þm. hér í sölum leyfa sér að tala um þetta fram og til baka, sólarhring eftir sólarhring, í pólitískri skák — og ég segi pólitískri skák en ekki af þeirri alvöru sem málið krefst. Það er þess vegna sem þetta fólk mælir með því að stjórnun fiskveiða á næstu árum verði á grundvelli þessa frv. sem við erum að fjalla um.

Hv. þm. Karvel Pálmason spurði hvar fulltrúar einkaframtaksins í þessu máli væru og vildi gera lítið úr hlut sjálfstæðismanna í umfjöllun þessa máls þar sem hann réttilega gerði ráð fyrir því að Sjálfstfl. væri auðvitað sá aðili sem talaði máli einkaframtaksins í þessum efnum. Það gerum við vissulega. Sá hluti einkaframtaksins sem hefur fjallað um þetta út frá sjónarmiði atvinnurekandans er meirihlutaaðili að Landssambandi ísl. útvegsmanna. Landssamband ísl. útvegsmanna hefur margsinnis lýst yfir stuðningi við frv. sem við erum að fjalla um. Þar með hefur einkaframtakið í útgerð tekið afstöðu með þeim hætti sem ég hef frá skýrt.

Landssamband ísl. útvegsmanna mælir með kvótanum, það mælir með þessu frv. Útvegsmenn gera sér grein fyrir sinni ábyrgð við ríkjandi aðstæður. Ég vil leyfa mér að bæta því við í þessari umræðu að ég hef ekki heyrt marga hv. þm. fjalla um þátt fiskifræðinga í þessu máli. Ég hef ekki heyrt marga hv. þm. hrekja efnisleg rök fiskifræðinga fyrir því sem er grundvallaratriðið þegar verið er að fjalla um þessi mái. Það kemur m.a. fram í skýrslu sem heitir: „Nytjastofnar sjávar og umhverfisþættir 1987, aflahorfur 1988, útgefið af Hafrannsóknastofnun, fjölrit nr. 11.“ Ég hef ekki heyrt marga hv. þm. í þessari deild vísa til þessarar skýrslu. Mér er spurn: Hvað skyldu margir hv. þm. hafa lesið þessa skýrslu? Hvað skyldu margir hv. þm. skilja hvað stendur í þessari skýrslu svo að ekki sé meira sagt?

Með leyfi forseta ætla ég að lesa hér nokkra kafla vegna þess að ég hef ekki orðið var við það í umræðunum hér í hv. deild að þeir hafi komið inn í umræðuna sem hefði auðvitað átt að gerast fyrr. En ég gerði ráð fyrir því eins og margir aðrir sem styðja þá stefnu sem kemur fram í frv. að hv. þm. hefðu raunverulega lesið og skilið þessa skýrslu. Það er rétt að það sé gert til þess að ítreka það fyrir þá hv. þm. sem virðast ekki skilja grundvallarforsendur þess vandamáls sem við erum að reyna að leysa varðandi stjórnun fiskveiða með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir.

Í skýrslu fiskifræðinga um ástand þorskstofns segir svo, með leyfi forseta, á bls. 9:

„Gert er ráð fyrir að annar hver fiskur sem veiðist 1987 verði annaðhvort þriggja eða fjögurra ára þorskur, þ.e. árgangur 1984 og 1983, meðalþyngd 11/2–2 kg. Fari afli fram úr 360 þús. tonnum á árinu 1987 mun það fyrst og fremst verða til þess að hlutfall smáfisks í afla eykst enn frá því sem gert er ráð fyrir. Þetta er í góðu samræmi við spána sem gerð var í september 1986. Þó virðist veiði smáfisks verða enn meiri en þá var gert ráð fyrir. Þetta er vegna þess að 1983-árangurinn er að hluta til vaxinn upp fyrir viðmiðunarmörkin.“ Skilja hv. þm. sem eru andstæðingar stjórnunar fiskveiða á grundvelli frv. ekki hvað felst í þessu eða skilja þeir þetta kannski eins og hv. 5. þm. Vesturl. Sighvatur Björgvinsson á þann veg að þar sem það sé svo mikið af smáfiski sem kemur í trollið sé það vottur um það að það sé mikið af fiski og beri auðvitað að drepa hann? Ég furða mig á því að þm. frá Vestfjörðum skuli leyfa sér að láta annað eins fara frá sér, að það sé vottur um það að það beri bara að veiða meira vegna þess að það sé svo mikið af smáfiski. Það undirstrikar hættuna sem við blasir ef ekki er gripið til stjórnunar.

Þessi staða, að meðalþyngd er aðeins 11/2–2 kg, sem skipstjórnarmenn hafa staðfest á þessu hausti, m.a. í viðtölum í dagblöðum, kallar auðvitað á hörð viðbrögð, varnarráðstafanir, takmörkun á veiðum og aukna vernd á þorskstofninum. Þetta skilja skipstjórnarmenn, sjómenn og útgerðarmenn. Þetta skilja fiskverkendur, fiskvinnslufólk. Þetta skilja þeir sem eru í daglegri og raunverulegri framkvæmd þessara mála.

En það segir fleira, svo að stiklað sé á stóru, í þessari skýrslu fiskifræðinga um ástand þorskstofnsins. Á bls. 11, með leyfi forseta, segir m.a.:

„Meðalþyngd eftir aldri hefur ekki aukist í ár miðað við árið 1986 og því er gert ráð fyrir að meðalþyngd eftir aldri árið 1988 verði sú sama árið 1986 en 5% minni árið 1989 og 1990. Er þá gert ráð fyrir að aftur dragi úr vexti eftir undangengið góðæri.“

Hvað þýðir þetta á mæltu máli? Þetta þýðir veikur fiskstofn, minni afrakstur. Það þýðir í stuttu máli hættuástand í sambandi við fiskveiðar við Ísland. (SkA: Er það ekki vegna þeirrar fiskveiðistefnu sem haldið hefur verið uppi?) Við skulum halda áfram og halda okkur við það sem segir hér og ræða um framtíðina. Við skulum ekki ræða um það sem liðið er. Við erum að marka hér stefnu og taka afstöðu til frv. sem á að verða að lögum miðað við það hvernig stjórnunin á að vera á næstu árum. (Gripið fram í.) Fortíðin er liðin. Það sem skiptir máli er að gera sér grein fyrir því hvað fram undan er. Ég trúi því ekki um hv. þm. Skúla Alexandersson að atkvæðaveiðar séu honum svo mikilsverðar að hann viðurkenni ekki þá staðreynd að það skiptir auðvitað meira máli að horfa til framtíðarinnar og gera ráðstafanir sem duga í þeim efnum en vera að tala um það sem hefur skeð í fortíðinni og ræður ekki úrslitum úr því sem komið er. (SkA: Að fortíð skal hyggja.) Þar með viðurkennir hv. þm. að ef eitthvað hefur farið úrskeiðis í fortíðinni þurfi að tryggja enn betur í framtíðinni. Það sjálfsagt viðurkennir hv. þm.

Ég vil, með leyfi forseta, lesa það sem segir á bls. 12 og mun svo ekki lesa meira úr skýrslu Hafrannsóknastofnunar að svo stöddu, en þar segir m.a.:

„Nýting þorskstofnsins undanfarin ár hefur verið með þeim hætti að ársaflinn hefur verið 35–40% veiðistofns, fjögurra ára fiskur og eldri. Svo hörð sókn leiðir óhjákvæmilega til þess að árgangar eru fá ár í veiðinni og aflinn byggist fyrst og fremst á 3–6 ára fiski, en mjög lítið er um fisk sem er eldri en 8 ára. Í síðustu skýrslu, Hafrannsóknir, 36. hefti, var á það bent að nú væri lag til að breyta nýtingu þorskstofnsins á þann hátt að fiskgengd ykist á vertíðarsvæðum þar sem elsti og þyngsti þorskurinn veiðist. Nú verður ekki betur sé en að það tækifæri sem við eygðum í fyrra sé að ganga okkur úr greipum ef fram verður haldið sem hingað til.“

Þetta frv., sem m.a. hæstv. ráðherra Halldór Ásgrímsson með okkar stuðningi hefur lagt fram, stefnir að því að viðurkenna þessa staðreynd, það beri að tryggja þorskstofninn á ný, með því miður, segi ég, auknum takmörkunum. Það er það atriði sem hv. þm., sem eru stjórnarandstæðingar, og hafa reynt að tala af einhverju viti um, þ.e. hafa þó viðurkennt að það þurfi að hafa stjórn á fiskveiðum og hv. þm. Skúli Alexandersson jánkaði hér áðan um að það væri þörf á harðari aðgerðum til að tryggja framkvæmd þeirrar stefnu, að byggja stofninn upp á ný. Þar með hlýtur hv. þm. að geta stutt þetta frv.

Ég ætla ekki að lengja þessar umræður. En ég vil segja það að árásir ákveðinna þm. á þá stefnu sem felst í frv. við ríkjandi aðstæður eru mjög ábyrgðarlausar. Ég vil segja að þær jaðra við það að vera tilræði við íslensku þjóðina.

Eyðing fiskstofnanna með stjórnlausum veiðum væri glæpsamlegt athæfi að mínu mati. Það getur vel verið að menn séu svo uppteknir í pólitískum leikjum hér á hinu háa Alþingi að þeir geti talað sólarhringum saman um þetta alvarlega mál með þeim hætti sem ýmsir þm. hafa gert. Ég segi fyrir mitt leyti að bæði veit ég og hef fullvissu fyrir því að meginþorri íslensku þjóðarinnar hefur skömm á því hversu margir hv. alþm. hafa fjallað um þetta mál af þvílíku ábyrgðarleysi að þing hefur sett niður vegna þess. Það er krafa þess fólks sem starfar í þessari atvinnugrein og það er krafa allra góðra Íslendinga að hv. þm. láti nú af þeim ósið að fjalla um þetta mál af jafnmiklu kæruleysi og jafnmikilli pólitískri tækifærismennsku eins og andstæðingar frv. hafa gert og afgreiði frv. sem lög þegar í kvöld.