07.01.1988
Efri deild: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3847 í B-deild Alþingistíðinda. (2715)

181. mál, stjórn fiskveiða

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að í fjölmiðlum undanfarna daga hefur verið látið að því liggja að talsmenn stjórnarandstöðuflokka hafi tafið stórkostlega meðferð þessa máls með óviðurkvæmilegu málþófi í báðum deildum þingsins, hafi flutt sömu ræðurnar aftur og aftur og efnt til óþarfa umræðna um málið.

Ég vek hins vegar athygli á því að það hefur gerst hér í kvöld að hv. 3. þm. Vesturl. og hv. 14. þm. Reykv. hafa ýtt af stað umræðum sem óhjákvæmilegt er að taki nokkurn tíma umfram það sem ella hefði verið. Að sinni er því ekki við stjórnarandstöðuna að sakast ef þetta mál þarf að taka einhvern tíma í meðferð deildarinnar umfram það sem gert hafði verið ráð fyrir, herra forseti.