07.01.1988
Efri deild: 51. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3847 í B-deild Alþingistíðinda. (2716)

181. mál, stjórn fiskveiða

Frsm. 3. minni hl. sjútvn. (Karvel Pálmason):

Herra forseti. Það var í raun og veru ekki ætlan mín að hafa fleiri orð hér um en ég hafði í dag, en ýmislegt hefur komið fram síðar í umræðunni sem ég tel nauðsynlegt að víkja að hvort sem það kann að verða í stuttu eða löngu máli. (Gripið fram í: Nauðsyn brýtur lög.)

Það er eftirtektarvert að aðaltalsmaður frv. sem hér er er hv. 14. þm. Reykv., sá hv. þm. sem gagnrýndi kvótann harðast, þegar hann var settur á, sem var miklu minni kvóti en nú er verið að ræða um. Þessi hv. þm. vitnaði sérstaklega í það, held ég, við 2. umr. málsins í deildinni að besta ræðan sem þá hefði verið flutt hefði verið flutt af hv. þm. Svavari Gestssyni sem var upplestur á gömlu ræðunni sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson flutti fyrir fjórum árum. Það var besta ræðan sem þá var flutt í umræðunum. (HBl: Kemur það á óvart?) Það hefur vissulega komið honum á óvart. Það er greinilegt, hv. þm. Halldór Blöndal.

Það er ýmislegt sem er ástæða til að víkja að sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson lét umfjallað áðan. Honum er æði tamt að tala um atkvæðaveiðar. Trúlega hefur hann mesta reynsluna í þeim efnum gegnum prófkjörin öll í flokknum sjálfum. (EgJ: Þau hafa verið á Vestfjörðum líka.) Ja, þau hafa verið á Vestfjörðum. Mér heyrist menn vísa æði mikið til þess að ég sé á sérstökum atkvæðaveiðum vegna minnar afstöðu í þessu máli. (Gripið fram í: Það dettur engum í hug.) Nei, vonandi ekki hv. þm. Halldóri Blöndal þó að honum detti ýmislegt skrýtið í hug. Kemur mönnum virkilega á óvart mín afstaða í þessu máli? (Gripið fram í.) Hefur hún ekki legið ljós fyrir alveg frá upphafi? Hún er sú hin sama sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hafði þegar kvótinn var fyrst settur a. (GHG: Hafa aðstæður ekki breyst?) Aðstæður hafa ekki breyst í þessum efnum, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Það þýðir ekkert að veifa skýrslum hingað og þangað utan úr bæ. Þessar skýrslur voru líka til þegar þetta var gert. Þú tókst bara ekki mark á þeim þá.

Svo segir hv. þm. Guðmundur Garðarsson að hér tali menn sólarhringum saman gegn frv. Ég dreg mjög í efa t.d. að því er mig varðar að ég hafi talað lengur en þeir sem hafa varið frv. Það er alveg með ólíkindum að maður skuli upplifa að það er ekki hæstv. sjútvrh. sem er að verja þetta kerfi. Það er hv. þm. Sjálfstfl. úr Reykjavík sem stendur í fyrirsvari og ver frv. í öllum tilvikum. (SvG: Hann er heldur verri en Halldór ef eitthvað er.) Já, heldur verri trúlega. (EgJ: Hann var frsm.) Það er rétt. Hann var frsm. Það er alveg hárrétt og líklega sérstaklega til þess valinn af því gefna tilefni sem ræðan var, flutt á sínum tíma af hans hálfu.

Hv. þm. sagði að LÍÚ sæi um hagsmunagæslu einkaframtaksins. Hvað sagði LÍÚ þegar kvótinn var settur á á sínum tíma. Sagði það ekki það sama? Þá var hv. 14. þm. Reykv. allt annarrar skoðunar en hann er núna. Hvað hefur breyst? (GHG: Reynslan.) Hvað hefur breyst? (GHG: Staðreyndir.) Staðreyndir. Hverjar eru þær staðreyndir? (GHG: Breyttar forsendur.) Hv. þm. spurði í framhaldi af þessu: Hverjir eru þessir útvöldu? og beindi þá máli sínu til mín. Ég taldi að ég hefði gert grein fyrir því á sínum tíma? Hverjir eru þessir útvöldu? Það eru þeir sem eiga skipin. Það eru skipaeigendur sem eru þeir útvöldu. Er mönnum það ekki ljóst? Það eru ekki sjómenn. Það er ekki landverkafólkið í frystihúsunum. (HBl: Er þm. í vafa um hvort hann sé í hópi þeirra útvöldu?) Hv. þm. Guðmundur Garðarsson eða hvaða hv. þm.? (GHG: Ræðumaður.) Já, það er túlkun sitt á hvað hjá þeim flokksbræðrum. Það á vel við þegar menn komast í vandræði að menn hjálpi hver öðrum. (Forseti: Ég bið menn að hætta samtali hér.)

Eini aðilinn að þessum svokölluðu hagsmunasamtökum, sem menn eru að tala um, sem hefur alla tíð viljað þetta kerfi og vill viðhalda því er Landssamband ísl. útvegsmanna. Það er raunar kannski eitt nafn innan þeirra samtaka sem ræður gersamlega ferðinni þar og það er framkvæmdastjórinn, Kristján Ragnarsson. (HBl: Hann er að vestan.) Hann er að vestan. Það er rétt. En það er langt síðan hann var þar og trúlega orðinn mengaður í hugarfari við vistina hér syðra. Þetta eru þeir aðilar sem hafa ráðið ferðinni, hv. þm. Guðmundur Garðarsson.

Hvað sagði Verkamannasambandið? Hvað hefur það sagt um þetta, fulltrúi þess? (GHG: Hann mætti ekki einu sinni á nefndarfundi, fulltrúi þess.) Það er rétt. Hann gerði það ekki. (Gripið fram í.) Já; það er rétt. En hvaða skoðun hafði hann? Vildi hann þetta kerfi? (GHG: Hann mætti ekki.) (HBl: Hvaða skoðun hefur sá sem ekkert segir?) Það hefur verið vitnað til samráðsnefndarinnar sem var á sínum tíma starfandi og m.a.s. þeir sem hafa haldið hér fram stuðningi við frv. hafa vitnað til þessarar samráðsnefndar þar sem fulltrúi Verkamannasambandsins átti sæti, túlkaði sínar skoðanir, þannig að hér eru menn að leika sér að því að snúa út úr. Menn eru að vanvirða þennan hluta verkalýðshreyfingarinnar. Það kemur úr hörðustu átt þegar fyrrv. formaður Verslunarmannafélags Reykjavíkur, og var á þeim tíma allmikils metinn í þeim röðum, beinir spjótum sínum að þessum armi verkalýðshreyfingarinnar með þeim hætti sem hann gerði hér áðan. (GHG: Hvernig gerði ég það?) Reyndu að hugsa þig um. Þú getur fengið spóluna, hlustaðu. Veit hv. þm. til þess að Alþýðusambandið sem slíkt hafi mælt með þessu kerfi? Hann spurði: Hverjir eru það sem hafa tekið ákvarðanir um þetta? Staðreyndin er sú að það eru þeir sem er búið að fá þennan arf sem ríghalda í hann. Þetta er erfðagóss þeirra sem eiga skipin. Það er með ólíkindum, að mér finnst, að nokkur skuli verja það kerfi sem hér er um að ræða. Það hefur enginn haldið því fram að það þyrfti ekki að vera stjórn á fiskveiðum, en það er ekki sama með hvaða hætti er stýrt.

Hv. 14. þm. Reykv. sagði áðan: Frv. er lagt fram með stuðningi stjórnarflokkanna og þar með Alþfl. Það er eins og mig minni að það hafi verið einhver fyrirvari af hálfu þingflokks Sjálfstfl. varðandi framlagningu frv. Mig kannski misminnir. (EgJ: Já, enda er búið að breyta því.) En var ekki fyrirvari? Hvað segir bóndinn á Seljavöllum um það? Var ekki fyrirvari? En það er rétt, sem hann sagði, að það er búið að breyta því. Menn hafa fallið frá þeim fyrirvara. Það er greinilegt að hv. þm. Sjálfstfl. er eitthvað órótt. Það er engu líkara en þá klæi undan því sem á þá er lagt í þessum efnum. Og ég er ekki hissa. Ég tala nú ekki um þá sem hafa verið heilaþvegnir með þeim hætti sem hv. 14. þm. Reykv. hefur verið. Ég er ekki hissa á því. Slíkur upphristingur hefur trúlega aldrei átt sér stað eins og gerður hefur verið á hv. þm. frá því að hann talaði hér fyrir fjórum árum algerlega gegn þeim aðgerðum sem þá var verið að gera og voru nánast hjóm miðað við það sem nú er verið að gera. (HBl: Sagði hv. ræðumaður upphristingur?) Upphristingur, já. (HBl: Hvað þýðir það nákvæmlega?) Það er afskaplega einkennilegt að heyra menntaskólakennara spyrja af slíkri fávisku. En það er eins og annað sem úr þessum herbúðum kemur. Það er ekki vitrænt sem út úr þeim vellur.

Svo sagði hv. 14. þm. Reykv.: Ég mótmæli því fyrir hönd þess fólks sem hér á hlut að máli. Þá er ástæða til að spyrja: Hvaðan kemur það umboð?

Hvaðan er umboð fengið til að mótmæla þessu fyrir hönd þessa fólks? Hvaðan er það umboð fengið, hv. þm.? (GHG: Sjómenn bíða eftir að fá að taka til starfa.) Sjómenn eru að vinnu. Ég held að hv. þm. ætti að hugsa aðeins meira. (GHG: Óskar Vigfússon m.a., formaður Sjómannafélags Íslands.) Sjómenn eru að vinnu. Það var gefin út sérstök tilkynning, hafi hv. þm. fylgst með, (GHG: Óskar Vigfússon.) af hæstv. sjútvrh. á sínum tíma. (Forseti: Ég vil biðja hv. þm. um að gæta sín, vera ekki með samtöl hér. Það verður einn í einu í ræðustól.) Já og það dugar í bili. (GHG: Óskar Vigfússon, formaður Sjómannasambandsins.) (Forseti: Ég get frestað fundi og beðið menn um að leysa þessi deilumál annars staðar í húsinu, en ég freista þess að halda samt áfram.) Það eru út af fyrir sig engin deilumál við mig í þessum efnum. Þetta eru innanflokkserjur þeirra hv. þm. sem þarna sitja, innan Sjálfstfl. Auðvitað geta þeir farið afsíðis og afgreitt málið þar. En ég ítreka enn að kannski væri ég svipað settur og þeir þyrfti ég að bera það sem á þá er lagt, þær klyfjar sem á þá eru lagðar núna og þeir eiga að bera, trúlega gegn sinni samvisku.

Ég trúi því ekki, hv. 14. þm. Reykv., að þú hafir umboð eins eða neins úr þeim röðum sem þú ert að tala um til að mótmæla í nafni þessa eða hinna. (GHG: Ég skýrði frá því rétt áðan. ) Þú hefur ekki umboð frá einum eða neinum til slíkra hluta. Auðvitað hefur þú skoðun, hv. þm., sem að vísu er breytileg eftir árferði. (Gripið fram í.) Hæstv. forseti. Finnst þér svona fundarhald ekkert erfitt? (Forseti: Ég vil að gefnu tilefni taka það fram að ef ræðumann langar að tala við þingdeildarmenn mun gefast kostur á því. Ég get frestað fundi til þess. En betur væri mér við að geta haldið áfram fundi og ætla ég þá og æski þess að hv. þingdeildarmenn gæti sín, hætti þessum frammíköllum, virði fundarsköp.) Ber að skilja þetta svo, forseti, að það sé ræðumaður sem er hér eitthvað að gera af sér sérstaklega? Ég á ekkert sérstaklega vantalað við hv. þm. (Forseti: Hér hafa tveir talað í senn. Annar er vissulega ræðumaður, en hann á að hafa orðið.) Ég þakka fyrir, en þeir hafa að vísu verið þrír sem hér hafa verið að tala svo að það hefur eitthvað ruglast.

Hv. 14. þm. Reykv. sagði líka að ég væri að tala vegna pólitískra hagsmuna að því er mig varðaði og sagði að ég héldi fram ábyrgðarlausu tali um frv. Mér finnst þetta koma úr hörðustu átt frá hv. 14. þm. Reykv. Það er augljóst mál að andstaða við kvótafrv. eins og það hefur verið og er núna er miklu meiri en hún hefur áður verið. Það sýndi sig í Nd. í dag og menn hljóta að spyrja að því hvað hefði gerst hefði till. frá hv. þm. Matthíasi Bjarnasyni eða öðrum sem voru andvígir frv. verið samþykkt gegn vilja hæstv. ráðherra og ríkisstjórnar. (HBl: Þið eruð nú svolítið líkir, þið Matthías Bjarnason.) Hvað hefði verið gert í þeim efnum? Ég held að hv. þm. Halldór Blöndal ætti að hætta öllu líkingatali. Það á ekki við undir þessum kringumstæðum. — Hvað hefði gerst ef slík till. hefði verið samþykkt? Sú till. féll á jöfnu. (EgJ: Hún hefði orðið að lögum.) Já, trúlega hefði hún orðið að lögum, en hvað hefði hæstv. ráðherra gert? Hvað hefði þá hæstv. ráðherra gert eða aðrir þeir ráðherrar sem hafa varið þetta mál og verja út í ystu æsar? Trúlega hefði það þýtt afsögn. Það er vantraust. Málið stóð það tæpt í Nd. að það lá nánast við því að till., sem var andstæð sjónarmiðum hæstv. ráðherra sem með málið fór, væri samþykkt. Það voru flokksbræður hv. þm. Guðmundar H. Garðarssonar sem beittu sér fyrst og fremst í því máli. Á þessu sjá menn auðvitað hvert útlitið er á þeim þingflokki utan frá séð. Það er með ólíkindum, að mér finnst, þegar yfir þann aðila sem þarna átti hlut að máli, sem er fyrrv. sjútvrh., margreyndur ráðherra í mörgum embættum, er keyrt þannig eins og var gert af þingflokki Sjálfstfl. í þessum málum, talsmann flokksins í sjávarútvegsmálum í mörg ár og trúlega inniheldur meiri vitneskju um þau mál en nokkur annar af þeim þm. sem þar eru innan dyra. Eigi að síður var þetta niðurstaðan.

Ég vil út af því sem hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson sagði um að Alþfl. hefði samþykkt þetta frv., að það yrði lagt fram, að ég hafði fyrirvara alveg frá upphafi. Það gat enginn gengið að því gruflandi hver afstaða mín var til þessa máls. Það vissu menn fyrir og hafa vitað alla tíð. Það er ekkert nýtt.

Ég ætla ekki að standa í þrasi við ágætan flokksbróður, hv. þm. Eið Guðnason, enda talaði hann af miklu meiri skynsemi um þetta mál en hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Eðlilega. En nokkrar athugasemdir eigi að síður.

Ég tók það svo, en kannski er það misskilningur, að það hafi verið átt við þann sem hér stendur þegar hv. þm. Eiður Guðnason sagði að það hafi verið fluttar allsérkennilegar ræður af stuðningsmönnum ríkisstjórnarinnar. Nú er ég kannski í vafa hvort ég hef getið rétt til. En ég tók það svo. Og ég er kannski ekkert hissa yfir þeirri afstöðu hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni. Mér er alveg ljóst að ég kvað fast að orði, en eigi að síður rétt. Og það þarf enginn að segja mér annað en að við hv. þm. Eiður Guðnason séum sammála um að frv. gengur þvert á stefnu Alþfl. í sjávarútvegsmálum, þvert á stjórnarsáttmálann. Það er svo annað hvað menn láta sig hafa til að ganga til móts við sjónarmið. Það er allt annað. Hv. þm. Eiður Guðnason vildi ganga þessa leið til að sætta sjónarmið og auðvitað á hann að hafa þá skoðun. En ég var ekki reiðubúinn til þess, nánast engra hluta vegna, af því að þetta er algerlega gagnstætt mínum grundvallarsjónarmiðum í þessu efni. Mér finnst, og ég ítreka það, harkalegt þegar forusta Alþfl. eða hluti þeirrar forustu gengur þannig fram að hann er nánast að ganga fram af verulegum hluta af flokksmönnum. Það var öllum ljóst að jafnaðarmenn á Vestfjörðum gerðu þá samþykkt sem hér var vitnað til og hún stendur enn. Það er nánast ögrun við þetta fólk að ganga svona fram í þessum málum.

Það er rétt sem hv. þm. Eiður Guðnason sagði. Það er trúlega erfitt að vera bæði stjórnarsinni og stjórnarandstæðingur. En það er einu sinni sú skylda sem er lögð á herðar hv. þm. samkvæmt stjórnarskrá. Þeir eiga að fylgja sannfæringunni. Það er sú skylda sem fyrst og fremst hvílir á hv. þm. Auðvitað er erfitt að bera hana og flestir hliðra sér hjá því að þurfa að bera hana. En þeir eru þó til sem taka það á sig. Auðvitað er það erfitt, en svona eru málin eigi að síður. En ég ítreka, og bið hv. þm. að taka eftir því, að þessar skoðanir mínar hafa verið augljósar í langan tíma. Þær eru ekki nýjar. Og það er ekki verið að koma aftan að einum eða neinum af minni hálfu í þessum efnum.

Ég tek undir það, sem kom fram hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni og raunar kom líka fram hjá hv. þm. Svavari Gestssyni, að frv. hefur tekið breytingum frá því sem það var lagt fram. En það hafa engar grundvallarbreytingar á því verið gerðar, engar þær breytingar sem nálgast að vera neitt í tengslum við sjónarmið Alþfl. í þessum efnum.

Mér fannst það ekki vel orðað hjá hv. þm. Eiði Guðnasyni þegar hann talaði um að það hefði verið mest fjaðrafokið um smábátana. Ég held að þær leiðréttingar sem þar hafa verið gerðar hafi átt fullan rétt á sér og þó lengra hefði verið gengið í þeim efnum þó að ég hins vegar láti það í ljós líka að það hefði þurft að gera miklu fleiri breytingar á öðrum greinum í frv., grundvallarbreytingar, ég tala nú ekki um endurskoðunarákvæðin, gildistímann, byggðakvótann og fleira mætti nefna, samráðsnefndina. Það er ekkert samráð að ráðherra skuli kalla t.d. formann LÍÚ, formann Farmanna- og fiskimannasambandsins, formann Verkamannasambandsins eða formann Sjómannasambandsins til samráðs við sig til að ráðstafa fiskveiðum við landið. Þetta er ekkert samráð. Það þarf að vera miklu víðtækara en hér er um að ræða. Þetta samráð, sem menn eru að tala um í frv., er samráð hagsmunaaðilanna sem eiga það nánast sem um er að ræða. Það er búið að útdella því til þeirra og þeir eiga að gæta þess. Það er samráðið, sem menn eru að tala um, að þeir passi upp á sitt. Auðvitað er þetta fráleitt. Það er fráleitt að hugsa með þessum hætti um eins gífurlega stórt mál og hér er um að ræða, að láta þessa aðila ráða ásamt því ægivaldi sem hæstv. ráðherra hefur til stjórnunar þessara mála. Þetta nálgast að vera einræðisvald varðandi fiskveiðar við Ísland. Það er ekki langt frá því.

Hv. þm. Svavar Gestsson sagði áðan að ég væri hikandi um hvort ég væri stuðningsmaður ríkisstjórnar eða ekki. Það er algerlega rangt. Það er út af fyrir sig ekkert nýtt þótt hv. þm. hafi rangt fyrir sér, en þetta er rangt. Ég veit ekki betur en ég hafi sett fram ákveðið mín sjónarmið og staðið við þau. Það kalla ég ekki að vera neitt hikandi í afstöðu til mála hvort sem ríkisstjórnin á hlut að þeim eða einhver annar. Það eru ljósar skoðanir sem ég hef sett fram og staðið við. En kannski, og það skulu vera mín lokaorð, ég ætla ekki að tefja þessar umræður, halda mínir samherjar þannig á málum í framhaldi af því sem gerst hefur að það gerist hlutir sem menn hefur ekki órað fyrir. Það kann að fara svo. Ef menn halda áfram á þeirri braut sem fetuð hefur verið innan forustunnar kunna að gerast þeir hlutir sem menn hefur ekki órað fyrir. Ég er ekki að segja fyrir um að það verði gert, en það er ýmislegt að mér sýnist sem getur leitt til þess að svo fari. (EgJ: Við hvað á þm.?) Þm. á við það, ef það er verið að tala um þann sem er að tala hér, það eru fleiri þm. en hann, að í heilu kjördæmi, sterkasta vígi Alþfl. á landinu, hafa menn tekið ákvarðanir sem eru á allt annan veg en hér er verið að tala um. Meðan sú ákvörðun stendur, meðan henni er ekki breytt og kannski skellt skollaeyrum við . . . (GHG: Eiga allir að lúta einhverri krataákvörðun á Vestfjörðum?) (Forseti: Ég bið hv. þingdeildarmenn að hætta þessu skrafi.) (GHG: Það var bara beðið um skilning, að þetta sé nógu skýrt.) Ég hélt að ég væri yfirleitt þekktur að því að tala nógu skýrt. Ef einhver er hér inni af hv. þm. sem ekki skilur hefur upphristingurinn náð lengra en ég gerði ráð fyrir.

Ég held að það sé afskaplega skýrt, hv. þm. Guðmundur Garðarsson. Það fólk á Vestfjörðum sem studdi Alþfl. tók sínar ákvarðanir fyrir kosningar. Þær ákvarðanir standa enn. Og meðan þeim er ekki breytt hlýt ég að fara eftir þeim, ekki síður vegna þess að mín sannfæring er líka á þann veg sem þar var tekin ákvörðun um. Það er þetta sem hlýtur að hvíla á mér sem forsvarsmanni þessa fólks sem telur að sínum hagsmunum sé illa borgið innan þessa kerfis og það sé ástæða til þess að forsvarsmenn flokksins, sem það styður, taki tillit til slíkra sjónarmiða.

Kannski er þetta ekki svo í öðrum flokkum. Mér heyrist á hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni að það þekkist ekki á þeim bæ að tekið sé tillit til fólksins. (SalÞ: Hvað er þm. að segja?) Er það óskilið enn? Mér heyrist að hv. þm. sumir hverjir telji skrýtið að þeim sjónarmiðum skuli fylgt fram sem fólkið sjálft hefur. En ég heyri að nú eru menn farnir að átta sig. Þeir hafa þagnað. Þeir hafa skilið og það er vel.

Að lokum, herra forseti. Ég vænti þess ekki að ég tali lengur hér nema sérstök ástæða gefist til, en ég ítreka eindregna andstöðu gegn frv. og bið ekki hvað síst mína flokksbræður að leiða hugann að því hvað kann að gerast ef þeir bera ábyrgð á samþykkt þess.