12.01.1988
Neðri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3902 í B-deild Alþingistíðinda. (2737)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. minni hl. fjh.- og viðskn. (Kristín Halldórsdóttir):

Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að vekja athygli á auðum stólum hæstv. ráðherra hérna. Það er ekki eins og þeir líti á það sem hér er til umræðu sem neitt stórmál sem þeim komi mikið við og er nú að verða heldur leiðinlegur svipur á þátttöku þeirra í þinghaldi yfirleitt. Það liggur við að maður verði að hrósa hæstv. fjmrh. fyrir að vera yfirleitt í húsinu þegar þetta mál er á dagskrá. En ég mun ekki gera kröfur til þess að fjarstaddir ráðherrar verði kallaðir hér til. Ég get ekki ímyndað mér að það greiði neitt fyrir framgangi þessa máls. En afskaplega væri viðkunnanlegt ef hæstv. fjmrh. treysti sér til að vera í þingsalnum þegar þetta mál er til umræðu. Það voru bornar fram allmargar fsp. við 1. umr. og hugsanlegt að þær verði bornar fram aftur við þessa umræðu. Hann sá ekki ástæðu til að svara þeim eða kom sér ekki til að svara þeim í 1. umr. A.m.k. held ég að það hlyti að vera útlátalaust fyrir hann að vera viðstaddur.

Það bar svo við þegar hæstv. ráðherra mælti fyrir frv. til lánsfjárlaga í deildinni sl. fimmtudag að hann endaði ræðu sína á nokkuð einkennilegri bón til hv. þingdeildarmanna og erum við þó orðin ýmsu vön þessar vikurnar. Hann upplýsti sem sagt að það væri ákaflega brýnt með tilliti til hagsmuna ríkissjóðs að samþykkja lánsfjárlögin fyrir vikulok, þ.e. lok þeirrar viku, því að annars lenti ríkissjóður í bráðum háska. Það stæði nefnilega svo á að spariskírteini fyrir allt að 2 milljarða kr., reyndar held ég að þessi upphæð hafi nú upplýstst í nefndinni, gætu komið til innlausnar 10. jan. og þá skorti ríkissjóð heimild til að bjóða spariskírteini á móti ef lánsfjárlög væru þá enn óafgreidd. Þessi framkoma þótti mér satt að segja með ólíkindum og aldeilis stórfurðulegt ef þessi sannleikur væri að renna upp fyrir mönnum á þeirri stundu. Það urðu fleiri hissa en ég. Um þetta hafði enginn mér vitanlega heyrt fyrr en þarna í lok ræðu hæstv. fjmrh. Raunverulega fannst mér stórfurðulegt að láta þessa tilætlunarsemi yfirleitt í ljós og búast við jákvæðum viðbrögðum þar sem þetta var á fimmtudegi, 1. umr. rétt að hefjast, öll umfjöllun eftir að sjálfsögðu í nefndinni og seinni umræður, auk þess sem þá þegar var ljóst að þetta frv. yrði að fara aftur til Ed. Til þess svo að kóróna vitleysuna var þetta síðasti þingfundur vikunnar.

Ég rifja þetta upp þar sem þetta atvik ætti að verða hæstv. ráðherrum til varnaðar. Allt var það reyndar satt og rétt sem hæstv. ráðherra sagði um þetta einstaka vandamál, en að sjálfsögðu fundu menn ráð til að mæta því þegar það rann upp fyrir þeim að þm. ætluðu ekki að láta bjóða sér þessi vinnubrögð. Engu að síður hefur nefndarvinnan verið drifin áfram af nokkrum krafti. Allur föstudagurinn fór í viðtöl og fundi og fundir voru einnig á laugardag, í gær og í morgun, auk þess sem meiri hl. og minni hl. áttu sérstaka fundi með sér, m.a. fundaði minni hl. á sunnudag.

Það verður því ekki annað sagt en að nefndarmenn hafi unnið svo rösklega sem þeir frekast gátu, enda þótt a.m.k. sú sem hér stendur hefði gjarnan kosið meira ráðrúm til að skoða þetta yfirgripsmikla mál.

Nefndarmenn urðu ekki sammála um afgreiðslu málsins og við fulltrúar minni hl. skilum séráliti á þskj. 499 sem ég vil lesa, með leyfi hæstv. forseta:

„Minni hl. getur ekki staðið að afgreiðslu þessa frv. á þann hátt sem meiri hl. leggur til. Ástæðurnar eru eftirfarandi:

Með tilliti til fyrri reynslu og allra aðstæðna eru litlar líkur til að þessi áætlun um fjármagnsþörf og lántökur standist. Mikil óvissa er um þróun efnahagsmála á næstu mánuðum, en horfur eru allar heldur á verri veg. Gert er ráð fyrir samdrætti í sjávarafla og framleiðslu sjávarafurða. Afkoma útflutningsfyrirtækja hefur farið versnandi og spáð er tvöfalt meiri viðskiptahalla við útlönd á þessu ári en hinu síðasta. Gengismálin eru í uppnámi, verðlagshorfur eru óljósar og óraunhæft er að reikna með aðeins 10% verðbólgu frá upphafi til loka árs þar sem verðbólgan er nú um 30% og engin teikn á lofti um að hún fari lækkandi á næstunni. Samningar um kaup og kjör eru fram undan þar sem óhjákvæmilegt verður að rétta verulega hlut hinna tekjulægstu, en auknar álögur á almenning, m.a. í formi matarskatts, auka stórlega á þungann í réttmætri kröfugerð alls launafólks.

Með frv. er stefnt að því að afla lánsfjár að stærri hluta innan lands en verið hefur. Það var raunar einnig ætlunin á síðasta ári, en þá fóru erlendar lántökur rúmlega 50% fram úr því sem áætlað var og ekkert bendir til þess að nú sé traustlegar um hnútana búið.

Flestir eru þó sammála um að draga beri úr erlendum lántökum svo sem frekast er unnt, en innlendar lántökur hafa einnig sína skuggahlið sem er sú að of mikil samkeppni á innanlandsmarkaði leiðir óhjákvæmilega til hækkunar vaxta. Þeirri skoðun samsinntu allir aðspurðir gestir nefndarinnar, en hvorki ráðherrar né seðlabankastjórar virðast hafa áhyggjur af vaxtahækkunum né eiga ráð til að hamla gegn þeim.

Sívaxandi hluti íslenska peningamarkaðarins er óháður reglum og eftirliti og engar vísbendingar eru um það hvort og þá hvernig stjórnvöld hyggjast setja starfsemi ávöxtunarsjóða og fjármögnunarleigna skorður á borð við banka- og sparisjóðakerfið. Á sama tíma stefnir ríkissjóður að hörkusamkeppni við þessa aðila um sparifé landsmanna.

Sú mynd, sem þannig blasir við, gefur sannarlega tilefni til víðtækra breytinga á frv. til lánsfjárlaga fyrir árið 1988. Það er þó ekki ætlun meiri hl. og verður hann þá að bera ábyrgð á því.

Minni hl. flytur sameiginlega brtt. á þskj. 500. Sá útgjaldaauki, sem þær þýða fyrir ríkissjóð, rúmast að okkar mati fyllilega innan ramma fjárlaga eins og skýrt verður í framsögu. Tekið skal fram að þetta eru ekki einu atriðin sem minni hl. vildi leiðrétta en samstaða varð um að leggja áherslu á þessa þrjá liði.

Ingi Björn Albertsson hefur tekið þátt í störfum nefndarinnar og stendur að þessu áliti og brtt. minni hl.“

Undir þetta rita Kristín Halldórsdóttir og Steingrímur J. Sigfússon.

Nú skal það strax tekið fram í upphafi vegna þess sem stendur í nál. um starfsemi ávöxtunarsjóða og fjármögnunarleiga að þegar mér gafst ráðrúm til að fletta blöðunum í dag rak ég augun í frétt um það í blöðum þeim sem styðja ríkisstjórnina að forsrh. hefur nú skipað nefnd til að endurskoða löggjöf um fjárfestingarlánasjóði og er skylt að geta þess hér. Þetta vissum við ekki þegar þetta nál. var samið. Ef forseti leyfir ætla ég að lesa þessa örstuttu frétt:

„Skipun nefndarinnar er í samræmi við stefnuyfirlýsingu og starfsáætlun ríkisstjórnarinnar. Nefndinni er m.a. ætlað að fjalla um starfshætti og stjórn fjárfestingarlánasjóða, eignarhald og ríkisábyrgð þar sem við á. Nefndina skipa Baldur Guðlaugsson hæstaréttarlögmaður, sem jafnframt er formaður, Halldór Guðbjarnason viðskiptafræðingur, fyrrum bankastjóri Útvegsbankans, Ingi Tryggvason fyrrv. alþm., Ólafur Davíðsson, framkvæmdastjóri Félags ísi. iðnrekenda, og Stefán Reynir Kristinsson viðskiptafræðingur.“

Þetta taldi ég rétt að vitna í hér þar sem þessa er getið og það gagnrýnt í nál. minni hl.

Það er kannski ástæða til að skýra betur og auka við það sem stendur í nál. án þess að ég ætli að efna til mikilla ræðuhalda. Það er þá fyrst þar sem segir í upphafi „með tilliti til fyrri reynslu og allra aðstæðna“, en með „fyrri reynslu“ er m.a. átt við að ár eftir ár hefur mönnum sannarlega mistekist að halda lántökum innan rammans vegna þess að hann hefur markast af óraunsæi og löngun til að sýnast. Ekki gafst tími á milli 1. og 2. umr. að elta það uppi sem kynni að leynast falið hér og þar og krefjast afgreiðslu síðar. En ég nefni eitt dæmi um framkvæmd sem minnir reyndar á sig annað veifið og það er „gróðurhúsið“ á Miðnesheiðinni sem þrátt fyrir allan glæsileikann heldur nú hvorki vatni né vindi né jafnvel músum. Ein röksemdin fyrir því að byggja þetta mannvirki var sú, ef ég man rétt, að aðbúnaður starfsfólks í gömlu flugstöðinni væri ekki boðlegur og jafnvel til háborinnar skammar. Nú situr þetta starfsfólk í dýrasta „gróðurhúsi“ landsins og má þola leka og músagang að ekki sé nú minnst á eðlur og það má þola að sitja þarna í allt niður í fjögurra stiga hita þegar kaldast er. Það hvarflar að manni hvort ekki hefði mátt spara hið rándýra loftræstikerfi þar suður frá og láta veðurguðina um þá hlið málanna, enda sjaldnast lognmolla á heiðinni þar. En það hvarflar reyndar einnig að manni að í afar náinni framtíð verði bankað upp á í fjmrn. og farið fram á fé til þessarar dæmalausu byggingar, þ.e. fé til viðgerða og til að koma þessari byggingu yfirleitt í notkunarhæft ástand. En til hennar eru ætlaðar 820 millj. kr. og það til greiðslu skulda og er sem sagt hugsanlegt að mínu mati að þetta verði ekki sú endanlega upphæð sem þarf í hítina þarna suður frá, jafnvel á þessu ári. En nóg um það. Þetta er aðeins eitt dæmi um það sem við gætum hugsanlega átt von á og kynni svo að verða um fleira.

Það sem segir í nál. minni hl., sem ég las áðan, um ástand og horfur í efnahagsmálum er engin glansmynd og lætur ekki sérlega vel í eyrum. Sannast sagna hefði það getað hljómað enn þá verr með tilliti til þess sem við fengum að heyra frá efnahagsráðgjöfum og sérfræðingum ríkisstjórnarinnar á fundum nefndarinnar. En að viðbættu sjálfstæðu mati okkar, sem að þessu nál. stöndum, er útkoman þessi: Mikil óvissa um þróun efnahagsmála og fyllsta ástæða til þess að vera vel á verði.

Það er t.d. deginum ljósara að fyrr en síðar verður að bregðast við erfiðri stöðu í sumum greinum sjávarútvegsins og má raunar segja að það sé þegar gert að hluta til með því að auka svigrúm Byggðastofnunar sem er gert með tilliti til erfiðrar stöðu sjávarútvegsins. Þar er ástandið ákaflega misjafnlega slæmt eftir greinum og hafa menn jafnvel við orð að með sama áframhaldi verði gengið af frystingunni dauðri, en hún er nú rekin með 7–9% tapi og minni sjávarafli mun fyrst og fremst koma niður á þeirri grein. Það er ekki hægt að búast við því að t.d. útflutningur gámafisks eigi sér engin takmörk. Þá stendur skelfiskvinnslan afar illa, einkum hörpudiskurinn sem hefur orðið að þola allt að 30% verðlækkun á síðasta ári og tap greinarinnar í heild áætlað um þessar mundir um 50%. Saltfiskurinn stendur hins vegar vel, en þar eru eins og í öðru takmörk fyrir því hvað hægt er að selja, hversu lengi hann tekur við, saltfiskmarkaðurinn.

Afkoma okkar á þessu ári ræðst eins og ævinlega vitaskuld mest af þróuninni í þessum málum öllum, þ.e. hinum ýmsu greinum sjávarútvegsins sem eru misjafnlega viðkvæmar fyrir stöðu bandaríkjadollars og fyrir kostnaðarbreytingum og þar skiptir ekki síst máli hver þróunin verður í vaxtamálunum.

Það er æ fleirum sívaxandi áhyggjuefni hvernig sú þróun hefur verið og við höfum m.a. hlýtt á mjög þung orð og heit frá stuðningsmönnum hæstv. ríkisstjórnar úr þessum ræðustól, síðast við 1. umr. um þetta frv. frá hv. 2. þm. Vestf. í þeirri ræðu sem hann flutti í deildinni sl. fimmtudag.

Enn höfum við ekki fengið neinar vísbendingar um hvort og þá hvernig hæstv. ríkisstjórn hyggst reyna að hafa áhrif á þessi mál, en eins og kemur fram í nál. minni hl. voru eðlilega töluverðar umræður um vaxtamálin á fundum nefndarinnar. Nefndarmenn kölluðu eftir áliti efnahagssérfræðinga og eftir þeirra ráðum til að fá fram lækkun vaxta. Engin slík samantekt eða álit liggur fyrir þrátt fyrir eftirrekstur og engar tillögur hafa séð dagsins ljós. Ríkisstjórnin virðist ráðþrota hvað þetta varðar eða a.m.k. ekki sammála um ráð.

Hæstv. utanrrh. er einn þeirra sem hvað mest hefur tjáð sig um þessi mál og kallað a.m.k. í fjölmiðlum eftir tillögum í þessum efnum. Ég spurði hann um það í 1. umr. hvort slíkar tillögur hefðu séð dagsins ljós eða væru á leiðinni, en hæstv. utanrrh. lét ekki svo lítið að svara þessum spurningum og hann hefur ekki séð ástæðu til að vera viðstaddur þessa umræðu þannig að það er augljóslega ekki von á svörum úr þeirri átt í dag.

Ég spurði fulltrúa bankakerfisins og fulltrúa Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka að því þegar þeir komu á fundi nefndarinnar hvaða áhrif þeir teldu aukna sókn ríkissjóðs á innlendan peningamarkað hafa á vaxtastigið. Allir samsinntu þeir því að sú mikla samkeppni sem þannig verður um sparifé landsmanna hefði að sjálfsögðu áhrif til vaxtahækkunar. Það er því ekki að ófyrirsynju að menn eru efins um ágæti þessarar stefnu í þeim mæli sem áformað er.

Um gengismál, verðlagshorfur og líklega verðbólguþróun þarf ekki í raun að segja mikið meira en segir hér í áliti minni hl. Bandaríkjadollar er enn óstöðugur og daglegar fréttir um hreyfingar á honum og öðrum gjaldmiðlum, mikill óróleiki og spákaupmennska hér innan lands vegna stöðu íslensku krónunnar, allt á hverfanda hveli um þróun verðlags í samræmi við nýjustu lagabreytingar í efnahags- og fjármálum og löngu viðurkennt af efnahagssérfræðingum að verðbólguforsendur frv. eru fjarri öllum raunveruleika. Aðeins hæstv. ríkisstjórn kýs að halda fast við óskhyggjuna.

Þannig er allt á eina bókina lært varðandi forsendur og stoðir þessa frv. og það er ástæða þess að minni hl. fjh.- og viðskn. getur ekki staðið að afgreiðslu frv. á þann hátt sem meiri hl. leggur til. Það þýðir alls ekki að við séum ósammála öllum greinum frv. Við höfum vitanlega tekið fullan þátt í umfjöllun um allt innihald þess á þeim stutta tíma sem okkur hefur gefist til að fjalla um svo yfirgripsmikið mál. Nú er það vitanlega sjaldnast svo að allir nefndarmenn séu elskusáttir við öll atriði þeirra frv. sem þeir á endanum afgreiða frá sér, en lengi vel höfðum við í minni hl. vonir um það að meiri breytingar yrðu á einstökum greinum frv. en endanleg niðurstaða leiðir nú í ljós. Þar er reyndar af ýmsu að taka en við, sem stöndum að minni hl., urðum sammála um það að sýna hug okkar til þriggja liða frv. sem við vitum raunar að eiga fylgismenn innan stjórnarflokkanna og viljum því láta reyna á það við atkvæðagreiðslu hvort þeir vilja í raun og veru standa svona að málum.

Tillögur okkar eru á þskj. 500 og fela það í sér að afnema skerðinguna á framlögum til Hafnabótasjóðs skv. 14. gr. og til Ríkisútvarpsins skv. 22. gr. og minnka skerðinguna skv. 17. gr. á lögbundnum framlögum til ferðamála. Þetta eru þeir liðir sem við viljum leggja sérstaka áherslu á og teljum þessar breytingar, ef samþykktar yrðu, rúmast fyllilega innan þess ramma sem fjárlögum hefur verið markaður.

Ég ræddi nokkuð málefni Ríkisútvarpsins við 1. umr. um þetta frv. til lánsfjárlaga og eftir umfjöllun í nefndinni og samræður við framkvæmdastjóra Ríkisútvarpsins er ljóst að ekkert var þar ofsagt. Staða þessarar stofnunar er slík að óhjákvæmilegt er að koma þar við einhverjum lagfæringum. Það er ljóst að vandinn vex með tímanum og er fullkomlega óraunsætt og óréttmætt að svipta Ríkisútvarpið þeim tekjustofni sem átti að tryggja hag þess í samræmi við skyldur þegar ljóst var að fjárhagsgrundvöllur þess hlyti að skekkjast við gjörbreyttar aðstæður.

Ég nenni nú ekki að velta hv. þm. Alþfl. upp úr öllum þeirra fyrri málflutningi varðandi þetta atriði, en hann er ekki gleymdur heldur geymdur í þingtíðindum og dagblöðum og e.t.v. verða einhverjir til þess að rifja hann upp hér á eftir.

Um ferðamálin hef ég oft tjáð mig í umræðum hér á Alþingi og utan þess. Ég ræddi þau og þessa meðferð við 1. umr. um þetta frv. og við þingkonur Kvennalistans bárum fram brtt. við fjárlagafrv. til þess að reyna að rétta stöðu þessa málaflokks, en allt hefur komið fyrir ekki. Sú tillaga sem við fulltrúar minni hl. berum fram hér sameiginlega á þskj. 500 er ákaflega hógvær og ekki í nokkru samræmi við þann tekjustofn sem Ferðamálaráði á að vera tryggður með lögum. En það urðu okkur sár vonbrigði að meiri hl. skyldi ekki vilja koma til móts við okkur varðandi þetta atriði og að nefndin gæti öll borið fram tillögu um einhverja upphæð sem varið yrði til umhverfismála eins og til umræðu var í nefndinni. Í þeim efnum er Ferðamálaráð fullkomlega máttlaust og verulegt áhyggjuefni ef því verður ekki gert kleift að sinna þessu verkefni. En hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon og Ingi Björn Albertsson munu tala betur og ítarlegar fyrir þessum tillögum í umræðum hér á eftir.

Ég vil aðeins vekja athygli hv. þm. á því strax að í sambandi við þennan síðasta lið gerir Fjárlaga- og hagsýslustofnun ráð fyrir því að sá tekjustofn sem samkvæmt lögum er ætlaður til ferðamála gefi um 80 millj. kr. á þessu ári. En miðað við reynsluna á síðasta ári er öllu líklegra að sú upphæð nemi 100 millj. kr. og má af því marka hversu hógvær og lítillát við í rauninni erum að gera ekki tillögu um meiri hækkun en hér er gert. En það gerðum við kvennalistakonur hins vegar við afgreiðslu fjárlagafrv.

Eitt af því sem ég óskaði eftir við 1. umr. um frv. var mat fjmrn. á því hvaða upphæðir væri um að ræða í „þrátt fyrir kaflanum“ svokallaða, þ.e. II. kafla laganna þar sem settar eru skorður við fjárframlögum samkvæmt lögum eða „þrátt fyrir ákvæði laga þessara“, eins og sagt er, við hvað slík framlög eigi að miðast. Þessar upplýsingar fengust í nefndinni og þær eru prentaðar sem fskj. með áliti minni hl. svo hv. þm. geta kynnt sér hvað hér er um að ræða. Þar eru athyglisverðar upplýsingar sem ég hvet hv. þm. til að kynna sér.

Hvað suma liðina varðar geta verið deildar meiningar um það hversu háar upphæðir um er að ræða. Eins er ekki fullfrágengið með þá liði t.d. sem varða verkaskiptingu á milli ríkis og sveitarfélaga, en sé öllu til skila haldið þá er aldrei um minna en 600 millj. kr. að ræða sem ríkissjóður sparar sér með þessum hætti. Það er augljóslega algjört lágmark og að mínu mati er þarna um töluvert hærri upphæðir að ræða.

Hvað aðra einstaka liði frv. varðar kom margt athyglisvert í ljós við þá skoðun sem fram fór í nefndinni og hefði þó þurft að verða miklu meiri og ítarlegri og fá meiri tíma.

Við fengum t.d. forstjóra Landsvirkjunar á okkar fund og af viðræðum við hann og af skjölum sem þannig fengust virðist einsýnt að lántökuheimild til Landsvirkjunar mætti vel vera lægri en hún er. Það er ekkert sem knýr á um að ljúka Blönduvirkjun annað en eigin metnaður fyrirtækisins og full þörf á að veita því strangt aðhald.

Við fengum einnig framkvæmdastjóra Þróunarfélagsins á fund nefndarinnar en stutt saga þess félags er hálfraunaleg þegar haft er í huga að þetta var ein helsta skrautfjöðrin í hatti síðustu ríkisstjórnar og átti að gegna mikilvægu hlutverki í nýsköpun og nýbreytni í atvinnulífi landsmanna. En saga þess er ekki öll þótt ýmsir telji nú stoðunum kippt undan því eða a.m.k. rækilega raskað með því áhugaleysi sem stjórnvöld sýna því í verki. Það hefur vissulega komið við sögu í atvinnulífinu og gert góða hluti þótt í miklu minna mæli sé en vænst hafði verið og látið var í veðri vaka þegar þessi lagasetning var undirbúin og til umfjöllunar hér á Alþingi. Ég hef hins vegar ekki haft tíma til að kynna mér málefni Þróunarfélagsins nægilega vel til þess að ég vilji fara hér út í smáatriði.

Það kom líka mjög margt athyglisvert fram í samtölum við forráðamenn í landbúnaði varðandi stöðu ýmissa greina innan hans þar sem menn eru aðstoðaðir til fjárfestingar á ýmsum sviðum sem þeir geta síðan illa eða ekki staðið undir. Allt tengist þetta og fléttast saman með þátttöku hinna ýmsu fjárfestingarsjóða og lánastofnana en því meira sem maður kynnir sér þessa hluti þeim mun ljósara er óhagræðið af því að dreifa slíkri starfsemi á ótal aðila. Málin eru flækt og heildaryfirsýn og heildarmynd skortir.

Við 1. umr. ræddi ég nokkuð lántökuheimildir til smíði nýrrar ferju í stað Herjólfs og nýrrar Breiðafjarðarferju. Ég bar fram fsp. sem ekki voru svör við í grg. varðandi þörf, varðandi búnað og kostnaðaráætlanir og að hve miklu leyti þetta væru bein fjárútlát fyrir ríkissjóð. Engin svör fékk ég þá, en nokkur í nefndinni. Ég vil undirstrika það sem ég sagði við 1. umr. og ítrekaði í nefnd að fsp. varðandi þessa liði byggjast alls ekki á andstöðu við þessi mál hvort fyrir sig heldur er fullkomlega eðlilegt að þm. fái upplýsingar um þessar fjárfestingar og aðrar sem farið er út í, ekki síst þar sem fyrirsjáanlegt er að kostnaður vegna þeirra muni að verulegu ef ekki öllu leyti falla á ríkissjóð og auk þess kalla á nokkuð fjárfrekar framkvæmdir í viðkomandi höfnum. Það þarf reyndar ekki að vera neitt óeðlilegt. Hér er í raun og veru um samgöngumál að ræða sem jafnast á við vegaframkvæmdir. Það kom reyndar í ljós að í samgrn. var lítinn fróðleik að finna. Og hafnamálastjóri sagði t.d. ókannað með öllu hvaða framkvæmdir væru nauðsynlegar vegna nýrrar og stærri ferju í stað Herjólfs. En samkvæmt upplýsingum hans mun þurfa að framkvæma fyrir að lágmarki samtals 25 millj. kr. á Brjánslæk og í Stykkishólmi til þess að nýja ferjan þar, sem mun koma í gagnið í lok þessa árs, geti athafnað sig. Og til viðbótar síðar fyrir um 25–30 millj. kr. í Stykkishólmi. Hins vegar var litla vitneskju að fá um framkvæmdir sem þyrfti varðandi Herjólf, en ljóst að þær yrðu einhverjar. Loks fengum við þó í hendur skýrslu með lýsingu á nýju skipi og hugmyndum um framtíðarrekstur Herjólfs hf. sem er nokkuð athyglisverð lesning. Þessa skýrslu fékk ég í hendurnar fyrir aðeins örfáum klukkustundum og hef því miður haft annað að gera en að lesa hana vel. Það er hins vegar ljóst eins og staðfest var í nefndinni að hér er um fjárfreka framkvæmd að ræða, líklega ekki undir 700 millj. kr. sem mun í raun og veru falla að mestu eða öllu leyti á ríkissjóð og má því gera ráð fyrir útgjöldum vegna þessa um 100–150 millj. kr. árlega næstu árin beint úr ríkissjóði, auk þeirra útgjalda sem verða vegna hafnarframkvæmda.

Það er því tvennt sem ég hef við þessa afgreiðslu að athuga. Í fyrsta lagi er fullkomlega óeðlilegt að fara út í slíka framkvæmd án þess að skoða allar hliðar málsins og gera grein fyrir þeim hér og sjá fyrir endann á framkvæmdinni. Og í öðru lagi er það óeðlilegt og óhreinlegt að mínu mati að láta fyrirtæki taka lán sem er fyrir fram vitað að ríkissjóður þarf að greiða. Það væri því hreinlegast að ríkissjóður væri lántakandinn og ekki vera að draga fjöður yfir neitt. Án þess að ég sé nú að gera því skóna að það sé verið að gera þá er það að mínu mati ekki til eftirbreytni að haga málum svona.

Með þessu frv., sem ætlunin er að verði að lögum á næstu dögum, er verið að reka endahnútinn á röð lagasetninga sem marka mun stefnuna á næstu mánuðum og það hefur varla farið fram hjá nokkrum að um þá stefnumörkun höfum við hv. alþm. verið ákaflega ósammála. Þar hefur verið vegið að hagsmunum fjölskyldnanna og almenns launafólks þar sem aftur á móti hátekjufólki, stóreignamönnum og vel stæðum fyrirtækjum hefur verið hlíft við þeim byrðum sem þessir aðilar eru fullfærir um að axla. Þar hefur verið valin sú leið að leggja skatta á brýnustu nauðsynjar en stuðla að lækkun vara sem hægt er að komast af án.

Við kvennalistakonur hefðum staðið allt öðruvísi að uppstokkun á tekjujöfnunarkerfi ríkisins og teljum að með öðrum vinnubrögðum og öðrum markmiðum og annarri forgangsröð hefði mátt ná viðunandi lausn á þeim vandamálum sem við er að fást í fjármálum ríkisins. Við erum ósammála hæstv. ríkisstjórn um þær forsendur, þann grunn sem þetta frv. til lánsfjárlaga hvílir á og erum uggandi vegna þeirra afleiðinga sem framkvæmd þessara laga kann að hafa á ríkisbúskapinn og efnahagsmálin í heild, ekki síst vaxtaþróunina.

Allra aðstæðna vegna verður þó þetta frv. nú að fá afgreiðslu þingsins og reikna ég ekki með því að við munum greiða atkvæði gegn því við lokaafgreiðslu og reyndar áreiðanlega ekki ef hv. þm. fallast á þær brtt. sem við fulltrúar minni hl. berum hér fram.