12.01.1988
Neðri deild: 52. fundur, 110. löggjafarþing.
Sjá dálk 3952 í B-deild Alþingistíðinda. (2745)

63. mál, lánsfjárlög 1988

Frsm. meiri hl. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Til mín hefur verið beint örfáum spurningum hér í þessum umræðum. Þá er það fyrst að hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrímur J. Sigfússon spurði hvað fælist í orðunum í nál. okkar: „Í því sambandi skal tekið fram að ætlast er til að Byggðastofnun styðji sérstaklega við útgerð í þeim byggðarlögum þar sem hún hefur dregist saman.“ Það sem felst í orðunum er náttúrlega það sem þarna segir. Meiri hl. nefndarinnar var það mjög vel ljóst að það er alveg óhjákvæmilegt að líta til með byggðarlögum sem hafa lent í vanda út af samdrætti í útgerð, svo sem t.d. Patreksfjörður. Þannig hefur Byggðastofnun reyndar ætíð starfað. Byggðastofnun lýtur hins vegar þingkjörinni stjórn sem ákveður lánveitingar stofnunarinnar. Okkur í meiri hl. fjh.- og viðskn. er ljóst að það er hennar verk að úthluta lánum, og þýðir ekki að gefa henni fyrirmæli. Hún þarf fjármuni til þessa verkefnis en það ber ekki að skoða þetta sem fyrirmæli um að nota akkúrat 200 millj. kr. til þessa verkefnis. Þessar 200 millj. eru sem sagt ekki sérmerktar.

Hv. 2. þm. Austurl. flutti yfirgripsmikla ræðu áðan. Hann ræddi m.a. málefni Ríkisútvarpsins. Við ræddum þau líka í nefndinni. Það var reyndar augljóst strax þegar nýir ljósvakamiðlar bættust á hinn litla auglýsingamarkað okkar að þá mundu tekjur Ríkisútvarpsins af auglýsingum rýrna og sú hefur raunin orðið á. Á meðan Ríkisútvarpið sat eitt að þeim markaði voru auglýsingatekjurnar um 50% af tekjum Ríkisútvarpsins. Nú hefur það hlutfall raskast því miður þannig að nú eru það einungis 30% sem eru bornar uppi af auglýsingatekjum. Það var athugað í nefndinni hvort samstaða væri um að rétta hlut Ríkisútvarpsins. Því miður náðist ekki samstaða um að breyta lánsfjárlögum að þessu leyti, enda er það að vissu leyti óhægt að afgreiddum fjárlögum.

Ég held að það sé mjög mikil þörf að endurbæta dreifikerfið þannig að allir landsmenn fái notið Ríkisútvarps og sjónvarps. Útvarpið hefur staðið í miklum byggingarframkvæmdum undanfarið og það er kannski óhætt að hægja þar nokkuð á.

Hv. 2. þm. Austurl. ræddi málefni Rafmagnsveitna ríkisins. Það er nú ekki nýtt að Rafmagnsveitur ríkisins séu í vanda staddar. Þær hafa verið það oftastnær frá því að ég kom hér til starfa á Alþingi og þær urðu það því miður líka stundum í ráðherratíð hv. 2. þm. Austurl. Það hefði kannski verið réttara fyrir hv. þm. Hjörleif Guttormsson að spyrja hv. 2. þm. Norðurl. v. um málefni Rafmagnsveitnanna því að hann er þeim málefnum kunnugri en ég þar sem hann er þar stjórnarformaður. En ég er á því að málefni Rafmagnsveitnanna þarfnist gagngerðrar skoðunar og það er eðlilegt að félagslegar framkvæmdir Rafmagnsveitnanna verði fjármagnaðar af almannafé, ekki síst þegar hagstæð sölusvæði hafa verið af Rafmagnsveitunum tekin, svo sem eins og réttilega var getið um með Suðurnesin.

Úr því að ég er kominn hér þá vil ég úr ræðustól lýsa stuðningi meiri hl. nefndarinnar við tillögu frá Kjartani Jóhannssyni og Guðmundi G. Þórarinssyni, breytta till. á þskj. 508. Nefndin öll styður þá brtt.

Ég gleymdi því hér í framsögu minni að benda hv. þm. á tvö fskj. sem fylgja nál. okkar í meiri hl. og gefa ágæta mynd, fskj. I heildaryfirlit yfir innlendar og erlendar lántökur 1988 og fskj. II lánsfjárráðstöfun opinberra aðila 1988. En þetta liggur sem sagt fyrir og er í aðgengilegu formi fyrir hv. deildarmenn.